Karlakórinn
Karlakórinn

Pistlar

Bilanir og bátasmíði
Margrét GK 9 kom til landsins á mánudaginn. VF/Hilmar Bragi
Gísli Reynisson
Gísli Reynisson skrifar
föstudaginn 20. október 2023 kl. 06:03

Bilanir og bátasmíði

Jæja, loksins er maður heima hjá sér að skrifa pistil, ekki á flakki eins og ég er svo oft þegar ég skrifa þessa pistla.

Október er orðinn hálfnaður og það sem af er hefur veiðin verið góð hjá bátunum. Stóru línubátarnir eru bæði á veiðum fyrir norðan og austan landið. Páll Jónsson GK og Sighvatur GK eru báðir komnir með svipað mikið, Páll með 294 tonn í tveimur róðrum og Sighvatur með 283 tonn í tveimur róðrum. Báðir mest með yfir 150 tonn í einni löndun og báðir að landa á Djúpavogi.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Fjölnir GK kom til Seyðisfjarðar og síðan Skagastrandar og hefur landað alls 236 tonnum í þremur róðrum. Valdimar GK er með 195 tonn í tveimur róðrum en kom reyndar bilaður til Neskaupstaðar og bilunin var það mikil að Þorbjörn ehf. sendi frystitogarann Tómas Þorvaldsson GK austur til þess að sækja bátinn og var Valdimar GK dreginn suður til Hafnarfjarðar. Þaðan fór Valdimar GK til Njarðvíkur en kom í ljós að kúpling hafði bilað og reyndar er ekki vitað alveg með vissu hvort bilunin sé stærri en bara kúplingin.

Reyndar var Valdimar GK ekki eini báturinn sem kom bilaður í land því að Jóhanna Gísladóttir GK kom til Grindavíkur eftir mikinn brælutúr. Togarinn hafði verið á veiðum við austurlandið í vitlausu veðri og kom til Grindavíkur með aðeins um 45 til 50 tonna afla. Rótor í einu spilinu bilaði sem gerði það að verkum að þeir urðu að hætta veiðum og sigldu til Grindavíkur. Ansi löng sigling, eða um 27 klukkutímar.

Það var nú reyndar ekki þannig að allt væri að bila því þann 16. október kom skipið Spiekeroog til Helguvíkur. Þetta skip var smíðað árið 2013, 108 metra langt og 16,7 metrar á breidd. Skipið var á leið frá Tyrklandi til Ameríku með sement og var ákveðið að láta skipið skjótast smá rúnt með nýjan bát því um borð var báturinn Margrét GK 9 sem Stakkavík ehf. var að láta smíða fyrir sig. Skrokkurinn er smíðaður í Tyrklandi en allt annað; tækjabúnaður, íbúðir, allt á dekkið, eins og línubúnaður, fiskvinnsluvélar og fleira, verður sett í bátinn hjá Skipasmíðastöð Njarðvíkur.

Nýja Margrét GK er um fimmtán metra löng og 30 tonn af stærð og mun áhöfnin á Óla á Stað GK en þar er Óðinn Arnberg skipstjóri, færast yfir á Margréti.

Þessi smíði er nokkuð merkileg því mjög er langt síðan stálbátur var smíðaður á Íslandi, eða kláraður hérna á landinu. Því er báturinn í raun ekki nýsmíði hérna á landi því skrokkurinn er smíðaður erlendis.

Annað er merkilegt við Margréti GK 9 en það er að þetta verður fyrsti stálbáturinn af minni gerðinni sem er smíðaður til veiða með línu. Svo til allir bátanna sem eru upp að 30 tonnum, eða um fimmtán metra langir, eru smíðaðir úr plasti. Kannski að síðasti báturinn sem var smíðaður úr stáli hafi verið báturinn Sigurður Einar RE 62 sem átti sér stutta sögu á Íslandi, í aðeins þrjú ár. Sá bátur var seldur til Færeyja um haustið 2003 og er ennþá gerður út þar á línu.

Kannski má segja að síðasti báturinn sem var smíðaður hérlendis sé bátur sem var lengi í slippnum í Njarðvík. Sá skrokkur var smíðaður í Noregi, kom til landsins um 1985 og lá í slippnum í Njarðvík í rúm tíu ár. Báturinn gekk undir nafninu Búsi SN 7 en þessi skrokkur varð aldrei að neinum báti heldur fór hann aftur út, líklegast til Noregs.

Ef við horfum einungis á nýsmíði stálbáta á Suðurnesjum þá voru nokkrir stálbátar, um tíu til fimmtán tonn af stærð, smíðaðir hjá Vélsmiðju Olsen í Njarðvík og líklegast eru það síðustu stálbátarnir sem voru alveg smíðaðir á Suðurnesjum.