Bílakjarninn hekla
Bílakjarninn hekla

Pistlar

Aflafréttir: Það er af sem áður var
Föstudagur 5. júní 2020 kl. 11:47

Aflafréttir: Það er af sem áður var

Þá er maímánuður liðinn og júní tekinn við, áður en við vitum er árið hálfnað. Hvað þýðir það gagnvart sjávarútvegi og veiðum við Suðurnes?

Árið 2020 þýðir þetta það að það hægist mikið um í höfnunum þremur; Grindavík, Sandgerði og Keflavík/Njarðvík. Eftir verða smábátarnir sem eru á handfæraveiðum og eru þeir þá aðallega í Sandgerði og Grindavík. Flestallir línubátarnir eru farnir og togarar Nesfisks eru farnir á rækju og landa fyrir norðan á Siglufirði eða á Grundarfirði. Eftir standa þá dragnótabátarnir og netabátarnir hans Hólmgríms, þannig að það er frekar rólegt framundan í höfnunum á Suðurnesjum.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Á árunum frá 1970 og fram til 2000 var það þannig að það var þó nokkuð mikið um að vera í höfnunum á Suðurnesjum og þá erum við ekki að tala um þrjár hafnir, heldur fimm. Því auk Grindavíkur, Sandgerðis og Keflavíkur/Njarðvíkur þá má bæta við Vogum og Höfnum.

Hafnir voru nokkuð stór útgerðarstaður yfir sumarmánuðina alveg fram undir þann tíma þegar að Hafnir sameinuðust Keflavík, og fóru undir forræði Reykjaneshafna, en þá var löndunarkraninn sem var í Höfnum tekin í burtu og við það þá má segja að útgerð hafi lagst af þar.

Í hinum bæjunum, og þá aðallega í Sandgerði og Grindavík, var mikið um að vera yfir sumarmánuðina því þá voru bátar að veiða tegund sem ekki er veidd frá Suðurnesjum í dag, humar og rækju.

Í Grindavík fóru nokkuð margir bátar á humarveiðar sem var þá unnin t.d. í Fiskanesi hf. og Þorbirni hf. Það sama var í Sandgerði og var þá aðallega unnin humar í Miðnesi hf. í Sandgerði og hjá Rafni hf. í Keflavík, í Njarðvík var líka unnin humar, t.d. í Brynjólfi í Njarðvík, Keflavík hf. og Sjöstjörnunni hf.

Þetta er allt liðin tíð og enginn humar er unnin í neinum húsum á Suðurnesjunum í dag þrátt fyrir að humarmiðin séu ennþá til staðar.

Það sama á við um rækjuna, Eldeyjarrækjuna eins og hún var kölluð. Veiðar á Eldeyjarrækju voru stundaðar á hverju sumri til ársins 1997 þegar veiðarnar voru bannaðar vegna hruns á stofni en veiðar hófust aftur í litlu mæli árið 2013.

Stærstu rækjuverksmiðjurnar á Suðurnesjum sem unnu rækju voru Saltver í Njarðvík og Rækjuvinnsla Óskar Árnasonar í Sandgerði. Ég vann þar þrjár vertíðir og er þetta einhver skemmtilegasti vinnustaður sem ég hef unnið á. 

Það má geta þess að tveir bátar voru ansi áberandi stórir á þessum veiðum og voru þessir tveir bátar oft aflahæstir í hvorri tegund fyrir sig ár eftir ár. Þetta voru bátarnir Guðfinnur KE sem Sigurður Friðriksson var skipstjóri á en hann var ansi oft langaflahæstur á rækjunni og náði þeim ótrúlega árangri árið 1995 að fiska um 270 tonn af rækju. Hinn báturinn er Hafnarberg RE sem stundaði humarveiðar frá Sandgerði í hátt í 30 ár og lagði alltaf upp hjá Miðnesi hf. í Sandgerði, Tómas Sæmundsson, eða Tommi á Hafnarbergi eins og hann var kallaður, var mjög oft aflahæsti humarbáturinn á öllu Íslandi. 

Núna er þetta allt horfið því miður og eftir standa húsin sem hýstu þessar verksmiðjur og minning þeirra sem unnu við þetta, bæði humarinn og rækjuna.

Gísli Reynisson
aflafrettir.is