Pistlar

Aflafréttir á tímaferðalagi
Gísli Reynisson
Gísli Reynisson skrifar
föstudaginn 26. ágúst 2022 kl. 10:01

Aflafréttir á tímaferðalagi

Þá er maður staddur enn einu sinni utan Suðurnesja og núna skrifa ég þennan pistil frá Flúðum – og héðan er lífsins ómögulegt að finna tengingu, sjávarútvegslega séð, við Suðurnesin svo það verður þá ekkert fjallað meira um það.

Eins og greint var frá í síðasta pistli þá fengu nokkrir bátar frekar óvænt makríl en veiðin hefur verið nokkuð treg hjá þeim. Enginn línubátur er að róa frá Suðurnesjunum en Pálína Þórunn GK hefur hafið togveiðar og gengið nokkuð vel, er komin með 141 tonn í þremur róðrum. Gjögursbátarnir hafa líka hafið veiðar, Vörður ÞH er komin með 168 tonn og Áskell ÞH 159 tonn, báðir í tveimur löndunum og báðir að landa í Grindavík.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Annars skulum við fara í smá tímaferðalag, reyndar ekki langt aftur í tímann – aðeins tólf ár, eða aftur til ársins 2010, og skoðum aðeins hvað var um að vera í löndunum í ágúst árið 2010.

Hið fyrsta er að mun fleiri bátar voru að landa og þá voru þónokkrir bátar á makrílveiðum eins og núna árið 2022.

Byrjum í Keflavík. Þar var t.d. Blíða KE, sem var um 70 tonna stálbátur, á makríl og landaði 32 tonnum í sex róðrum og mest 9,3 tonn. Happasæll KE, sem var um sautján tonna stálbátur, var með 47 tonn í 21 róðri á netum og Erling KE landaði ansi víða og var með 185 tonn í átta róðrum, mest af ufsa. Aðrir bátar voru með mun minna en þó var Ósk KE með 15 tonn í sjö róðrum á skötuselsnetum.

Grindavík: Þónokkuð meira var um að vera í Grindavík árið 2010 en núna árið 2022, t.d. var Grímsnes GK á netum og með 39 tonn í fjórum róðrum en hann er ennþá á netaveiðum árið 2022. Stafnes KE, sem sá mikli netaskipstjóri Oddur Sæmundsson átti, var með 109 tonn í tólf róðrum og mest af því var ufsi. Þónokkrir bátar voru á handfærum og einn af elstu bátunum sem þá var gerður út hét Aníta KE en þessi bátur var lengi gerður út frá Grindavík og hét þar Kári GK. Báturinn er ennþá til enn er í frekar slæmu ástandi enda búinn að vera í höfn í Grindavík í allnokkur ár. Aníta KE var með 18,6 tonn í sjö róðrum og mest allt af því var ufsi.

Annar bátur sem líka er búinn að liggja lengi í Grindavík. Dúa RE landaði 1,9 tonni af lúðu en þessi bátur er mjög þekktur, sérstaklega í Sandgerði því þar var hann gerður út í hátt í 50 ár, fyrst undir nafninu Jón Gunnlaugs GK og síðan undir nafninu Hafnarberg RE.

Aðrir bátar í Grindavík, í ágúst 2010, voru t.d. Staðarvík GK með 9,3 tonn á færum. Jóhanna Gísladóttir GK 317 tonn í fjórum og Sighvatur GK 249 tonn í fjórum, báðir á línu.

Einn dragnótabátur landaði í Grindavík í ágúst fyrir tólf árum og var það Sigurpáll GK sem var með 33 tonn í þrettán róðrum. Hraunsvík GK, sem ennþá er til árið 2022, var með 8,5 tonn af skötusel í sjö róðrum.

Lítum þá til Sandgerðis í ágúst árið 2010. Þá voru ansi margir handfærabátar að landa og nokkuð margir bátar á dragnót, t.d. var Ragnar Alfreðs GK, sem ennþá er til árið 2022, með 14 tonn í sex róðrum og mestallt af því var ufsi.

Nokkrir bátar voru á skötuselsnetum, t.d. Maggi Jóns KE með 6,9 tonn í sjö. Íslandsbersi HF 3,5 tonn í fjórum en þessi bátur er til árið 2022 og hefur meðal annars verið að stunda makrílveiðar frá Keflavík núna í ágúst árið 2022 og heitir Birna BA. Fylkir KE var með 1,9 tonn í fjórum en þessi bátur brann núna í júlí í Breiðafirðinum og er ónýtur.

Dragnótabátarnir voru nokkrir, t.d. Benni Sæm GK með 72 tonn í sjö róðrum, Arnþór GK 39 tonn í fimm, Sigurfari GK 38 tonn í fjórum og Njáll RE 15,5 tonn í fjórum.

Annars er þetta fiskveiðitímaár að verða búið en nýtt fiskveiðiár hefst núna 1. september næstkomandi.