Pistlar

Af álfadrottningum og baskneskum hvalveiðimönnum
Mánudagur 25. september 2023 kl. 15:32

Af álfadrottningum og baskneskum hvalveiðimönnum

Baskahéruðin hafa oft verið talin með fallegri svæðum Spánar en þau er að finna á fjalllendum og gróðursælum norðurhluta meginlandsins. Baskarnir búa flestir yfir þeim eiginleikum að vera afar góðhjartaðir sælkerar og miklir höfðingjar heim að sækja. Eins og aðrir Spánverjar eru þeir með sína föstu matartíma, hádegisverður klukkan tvö og kvöldverður klukkan tíu. Það var í einum slíkum hádegisverði, reyndar mínum allra fyrsta hádegisverði með stórfjölskyldu nýja kærastans, að allir höfðu safnast saman heima hjá ömmu og afa til að bera þessa forvitnilegu, ljóshærðu stelpu augum sem komin var frá landi eldgosa, norðurljósa, álfa og trölla.

Maturinn var borinn á borð og ilmurinn af spænsku eggjakökunni, bakaða brauðinu, nýsteiktum chorizo-pylsunum og ólífum fyllti húsið. Carlos, föðurbróðir nýja kærastans, skenkti okkur rauðvíni í glös rétt eins og spænska hefðin segir til um og fór í framhaldinu að spyrja mig frétta að heiman. Mér til mikillar ánægju, allavega svona fyrst til að byrja með, vissi Carlos frændi ýmislegt um Ísland en hann er afar vel lesinn og hefur ferðast um heimsins höf í gegnum bókmenntir þó svo að hann hafi aldrei komið út fyrir landssteina Spánar. Fjölskyldumeðlimir kinka áhugasamir kolli á meðan á samræðunum stendur og níræðum afanum finnst alveg hreint merkilegt að komin sé að borðinu norðurljósaálfadrottning, alla þessa leið yfir hafið í einhverri vél sem ekkert þeirra hafði svo mikið sem stigið fæti inn í áður. Hádegisverðurinn virtist bara ætla ganga nokkuð vel svona miðað við fyrstu kynni við tengdafjölskylduna. Þangað til ...

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

„Voru það ekki Íslendingar sem drápu fleiri tugi baskneskra hvalveiðimanna?“ Ónei! Hann veit leyndarmálið. Nýja tengdafjölskyldan horfir forundra og opinmynnt á mig, öll eitt spurningamerki nema amma. Henni er ekki skemmt. Ég tek stóran sopa af rauðvíninu og sé að minn heittelskaði gerir slíkt hið sama. „Já og gott ef Baskar eru ekki enn réttdræpir þar samkvæmt íslenskum lögum.“ Ég lít niður og reyni að hugsa eitthvert gott svar. „Ja sko ... nei ... eða var það?“ stama ég og teygi mig aftur í glasið og tek nú enn stærri sopa en áður. Yfir glasbrúnina sé ég hvar amma horfir á mig í gegnum reykinn sem stígur upp frá nýsteiktum chorizo-pylsunum, augun hvöss og augabrúnirnar leita æ lengra niður í átt að nefbroddinum. Ég er að verða búin með vínið í glasinu.

Fyrir utan suðið í moskítóflugunni sem er nú á þeytingi í hausnum á mér er það eina sem mér dettur í hug gömul saga frá pabba mínum, sextán ára gömlum á leið í flug til Mallorca með Palla vini sínum. Þeir millilenda í Malaga, skipta um vél og eru varla komnir í loftið aftur þegar sprenging verður í öðrum hreyfli vélarinnar. Vélinni er nauðlent strax aftur og fólk treðst hvert yfir annað í átt að útganginum. Blessunarlega sluppu allir farþegar við meiðsli en skuldinni yfir þessu uppátæki var klínt á hryðjuverkasamtökin ETA sem samanstóðu af rótgrónum Böskum. Í gegnum tíðina hef ég svo fengið að heyra að Böskunum hafi oft verið kennt um alls kyns ódæðisverk, einungis vegna eindæma frekju um að vilja sjálfstæði frá stórveldinu Spáni. Sum þeirra voru þó ef til vill sönn.

Ég rétt náði að kyngja sopanum af rauðvíninu undir fjórtán settum af uppglenntum, brúnum augum án þess að fá hóstakast af stressi og það eina sem kom upp úr mér var: „Sko, einu sinni þegar pabbi minn var á Malaga ...“ Blessunarlega sá kærastinn í hvað stefndi og til þess að koma í veg fyrir að álfadrottningunni yrði kastað á bál þar sem rauði loginn brann segir hann hátt og snjallt:

„Þeir slógust þó allavega ekki við neinar vindmyllur þarna á Íslandi en hafið þið heyrt hvaða óskunda konungurinn Juan Carlos hefur gert núna? Við litum brosandi hvort á annað, afkomendur hryðjuverkamanna og morðingja, ástfangin upp fyrir haus og skáluðum í tómum vínglösunum. Áfram héldu háværar samræður nýju Baskafjölskyldunnar um málefni líðandi stundar og svo virtist sem allir hefðu gleymt tíðindunum af hvalveiðimönnunum. Allir nema amma sem skáskaut augunum reglulega á ljóshærðu stúlkuna allt annað en sannfærð.

Þangað til næst.