Pistlar

Aðeins þrír bátar á dragnót í Faxaflóa
Gísli Reynisson
Gísli Reynisson skrifar
föstudaginn 10. september 2021 kl. 16:16

Aðeins þrír bátar á dragnót í Faxaflóa

Þá er nýtt ár hafið. Reyndar fiskveiðiár eins og greint var frá í síðasta pistli. Ágústmánuður var fínasti aflamánuður fyrir bátana frá Suðurnesjum þó svo að flestir bátanna væru ekki að landa í sinni heimahöfn.  Rétt er þó að minnast á að Grímsnes GK átti risamánuð á netunum því að báturinn landaði alls 256 tonnum í 14 róðrum og af því þá var ufsi 233 tonn. Grímsnes GK mun halda áfram á ufsanum í haust og þegar þetta er skrifað þá hefur áhöfnin fengið félagsskap, því að Friðrik Sigurðsson ÁR er líka kominn á ufsann.

Nú þegar hafa nokkrir bátar hafið netaveiðar og er Hraunsvík GK hæstur með 7,4 tonn í 2 róðrum og landað í Grindavík.  Halldór Afi GK 4,7 tn.  og Maron GK 3,3 tonn báðir í 2 róðrum.  Voru þeir með netin sín í Faxaflóa á meðan Hraunsvík GK var við Reykjanes með netin sín. 

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Tveir bátar eru á skötuselsveiðum og báðir landa í Sandgerði. Sunna Líf GK var með 525 kíló og Garpur RE 123 kíló, báðir í einni löndun.

Skammt neðan við DUUS hús stendur ansi fallegur bátur sem heitir Baldur KE.  Hann átti mjög farsælan feril og var lengst af á dragnótaveiðum. Hinar svokölluðu bugtarveiðar sem eru dragnótaveiðar inni í Faxaflóanum máttu hefjast ár hvert 1. september og reyndar var það á árunum 1980 að 1990 að þá hófust bugtarveiðar 1. ágúst. Baldur KE var einn af þeim bátum sem tóku þátt í veiðum í Faxaflóanum á dragnót og var iðulega með aflahæstu bátunum á þeim veiðum. 

Í dag þá eru dragnótabátarnir mun færri og reglum var breytt á þann veg að bátarnir mættu vera upp að 24 metra löngum. Bátarnir Siggi Bjarna GK og Benni Sæm GK var breytt sérstaklega til þess að þeir kæmust inn í þessa reglugerð og var það gert þannig að skorið var framan af fremsta hluta stefnis og er það flatt að framan.

Núna eru bátarnir sem eru á veiðum í Faxaflóanum aðeins þrír; Siggi Bjarna GK, sem hefur landað 30 tn. í 3 róðrum, Benni Sæm GK með 16 tn. í 2 róðrum og  Aðalbjörg RE með  2,3 tn. í einum túr.  Aðalbjörg RE landaði í Reykjavík en báturinn  er eini dragnótabáturinn sem eftir er sem var á veiðum á sama tíma og títtnefndur Baldur KE. 

Tveir aðrir bátar eru á dragnótaveiðum.  Sigurfari GK var með 22 tonn í 3 túrum og Maggý VE með 17 tonn 2 róðrum, báðir að landa í Sandgerði.  Báðir þessir bátar eru lengri en 24 metrar og mega því ekki vera inni í Faxaflóanum á veiðum, eða bugtinni eins og þær eru kallaðar.

Síðustu ár þá hefur byggst upp mikil línuútgerð frá Grindavík.  Enn nú er breytingar þar í gangi.  Þetta byrjaði hjá Þorbirni hf. sem lagði og seldi línubátinn Sturlu GK í brotajárn og keypti 29 metra togara í staðinn sem heitir Sturla GK. Hitt fyrirtækið í Grindavík, Vísir hf. er búið að vera að endurnýja skipin sín og keypti t.d  bátinn Rifsnes SH og endurbyggði hann frá grunni og breytti honum í línuskip sem heitir Fjölnir.  Sömuleiðis var bátur sem lengi vel var í slippnum í Njarðvík og hét Hafursey VE, þar áður Arney KE og Skarðvík SH. Þeim báti var breytt mjög mikið og fékk nafnið Sighvatur GK, þá var fyrsta nýsmíði Vísis í mörg ár þegar þeir fengu nýjan Pál Jónsson GK.

Eftir stendur þá aflaskipið Jóhanna Gísladóttir GK, og núna eru breytingar varðandi þann bát, því Vísir hefur keypt togarann Berg VE frá Vestmannaeyjum og er togarinn núna í slippnum í Reykjavík og kominn með græna litinn sem einkennir Vísisflotann, og nafnið. Já, togarinn mun fá nafnið Jóhanna Gísladóttir GK. Nokkuð merkileg breyting hjá Vísi að fá togara í staðinn fyrir línubátinn. Nýi togarinn er 35 metra langur og því flokkast hann sem 4 mílna togari og er þar í flokki t.d. með Sóley Sigurjóns GK og Berglínu GK. 

Sturla GK og Pálína Þórunn GK ásamt Verði ÞH og Áskeli ÞH eru allir 29 metra langir og flokkast sem 3 mílna togarar.  Eða veiða í kálgörðunum eins og oft er sagt, enda eru þessir togbátar margfalt öflugri en gömlu trollbátarnir voru hér á árum áður.