Public deli
Public deli

Mannlíf

  • Þari er algjört undur
    Stofnendur fyrirtækisins Zeto, Fjóla Sigurðardóttir, Steindór Runiberg Haraldsson og Eydís Mary Jónsdóttir.
  • Þari er algjört undur
    Mynd: Þuríður Ingibjörg Klemensdóttir
Mánudagur 2. október 2017 kl. 05:00

Þari er algjört undur

-Húð-, hár- og sápuvörur sem byggja á þaraþykkni keppa um 100.000 evrur í París

„Þetta er mjög spennandi,“ segir Eydís Mary Jónsdóttir, umhverfis- og auðlindafræðingur og einn af stofnendum nýsköpunarfyrirtækisins Zeto, en í sumar var fyrirtækið valið í hóp 500 mest spennandi „deep-tech“ fyrirtækja í heiminum. Zeto mun þróa og markaðssetja húð-, hár- og sápuvörur sem byggja á sérstöku þaraþykkni, sem þróað hefur verið undanfarin ár af Steindóri Runiberg Haraldssyni, móðurbróður Eydísar. Fjóla Sigurðardóttir, móðir Eydísar, er sú þriðja sem að fyrirtækinu kemur.

„Við förum til Parísar í október, en okkur var boðið þangað til að taka þátt í Hello Tomorrow Summit þar sem við munum kynna fyrirtækið fyrir fjárfesta og hugsanlega kaupendur,“ segir Eydís, en þar á fyrirtækið einnig möguleika á því að vinna til 100 þúsund evra.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Fyrirtækið var stofnað í fyrra sumar, en það leggur áherslu á að öll efni í vörunum séu heilnæm og uppbyggjandi fyrir vistkerfi húðarinnar og engin óvirk fylliefni eða skaðleg kemísk rotvarnar- og ilmefni notuð.

Áhugi Eydísar á húðvörum kviknaði þegar hún komst að því að sonur hennar væri með ofnæmi fyrir parabenum, sem notuð eru sem rotvarnarefni í ýmsum kremum. „Það varð til þess að ég fór að lesa aftan á allar vörur. Í kjölfarið fór mamma að búa til flestar húðvörur fyrir okkur sem við vorum að nota dagsdaglega,“ segir Eydís en stuttu síðar hóf hún störf á Náttúrufræðistofu Suðvesturlands í Sandgerði og á Þekkingarsetrinu, þar sem hún segist hafa fengið áhuga á þara. „Þari er algjört undur. Hann er stútfullur af næringarefnum, vítamínum og lífvirkum efnum sem eru ákaflega holl fyrir bæði líkama og húð. Ég kemst síðan að því að frændi minn hafði verið að vinna með þara í mörg ár og við fengum hjá honum þaraþykkni sem hann hafði verið að vinna með. Aðgerðin sem hann notar er algjörlega ný af nálinni. Hann notar ekki sýrur, basa eða ensím við „ektröktunina“, heldur fer hún fram í sérstökum tækjabúnaði. Útkoman er því einstaklega hreint og heilnæmt þykkni sem hentar húðinni afar vel. Við fengum styrki frá Sprota Tækniþjóunarsjóði og AVS fyrr á þessu ári sem við erum m.a. að nota til að rannsaka virkni þaraþykknisins í sérstökum frumlíkönum sem framkvæmd eru af Platóm líftækni, sem hefur sérhægt sig í þess háttar rannsóknum. Fyrstu niðurstöður líta mjög vel út og það er frábært að geta fengið vísindalega sönnun fyrir jákvæðri virkni þaraþykknisins.“


Mæðgurnar Fjóla og Eydís.

Vörurnar sem Zeto mun að setja á markað eru svonefndar „serumvörur“, sem innihalda ekki innihalda vatn eða önnur fylliefni sem algengt er að nota í húðvörur, en Eydís segir þau ætla að forðast öll efni sem hafa neikvæð áhrif á húðina og önnur uppfylliefni.

Þessa dagana er mikill undirbúningur í gangi hjá stofnendunum fyrir fundinn í París en í lið með sér hafa þau fengið hönnuð sem aðstoðar þau við kynningarefni. „Við erum í stífum undirbúningi og ætlum að gera eins mikið og við getum þangað til. Stærsta tækifærið sem felst í því að fara til Parísar er að við fáum að vinna með leiðbeinendur frá snyrtivörufyrirtækinu L'Oréal. Við ætlum að reyna að nálgast viðskiptasambönd þar en svo þarf það bara að koma í ljós hvert þetta leiðir okkur,“ segir hún.

Á aðeins rúmlega ári hefur Zeto náð góðum árangri en áður en það var stofnað vann það til verðlauna í Gullegginu, sem er stærsta frumkvöðlakeppni á Íslandi, og í fyrra var þeim boðið að vera með í Startup Energy Reykjavík þar sem Zeto fékk fimm milljóna króna fjárfestingu. „Við erum búin að fá nokkra styrki og erum núna að vinna í því að ná inn fjármagni til þess að klára þá vinnu sem þarf til að koma þessu á markað. Eins og staðan er núna stefnum við að því að koma fyrstu vörunum okkar á markað á næsta ári. Þetta er allt að smella saman.“

[email protected]