Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Stórtónleikar Más Gunnarssonar
Laugardagur 30. nóvember 2024 kl. 08:11

Stórtónleikar Más Gunnarssonar

Tónlistarmaðurinn og sundkappinn Már Gunnarsson, sem nú býr í Englandi og stundar tónlistarnám við „The Royal Northern College of Music“ í Manchester, fékk þá hugmynd fyrir nokkrum mánuðum að halda stórtónleika á Íslandi ásamt 30 manna stórhljómsveit sem skipuð var strengjaleikurum, rythmasveit, blásurum o.fl. Hljómsveitina skipuðu fyrrverandi og núverandi samnemendur Más við sama tónlistarskóla. Tilefnið var útgáfa nýrrar hljómplötu Más.

Við tók mikið undirbúningsferli sem náði hámarki þegar 30 manna hópurinn kom til landsins og flutti tvenna tónleika í liðinni viku; þá fyrri í Salnum í Kópavogi, hvar meðal annars mátti sjá Höllu Tómasdóttur, forseta Íslands, og þá seinni kvöldið eftir fyrir fullsetnum Stapa Hljómahöll.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Á efnisskrá voru gömul og ný lög eftir Má ásamt þekktum lögum annarra höfunda í nýjum útsetningum þeirra Richard Prohm, Þóris Baldurssonar, Stefáns Arnar og Andrew Jones. Stjórnendur voru Eden Saunders og Andi Stott.

Már söng og spilaði á flygilinn fremst á sviðinu og með honum stigu á stokk gestasöngvarar á borð við Ísold systur hans, sem átti stórleik sem og söngkonan, Íva vinkona Más og svo enginn annar en grínistinn og söngvarinn Laddi.

Má hefur farið mikið fram í söng og hljóðfæraleik og tónsmíðar hans eru skemmtileg blanda af ljúfum og fallegum lögum ásamt léttum og grípandi melódíum.

Í lok tónleikanna þakkaði Már öllum sem studdu hann við undirbúning og framkvæmd tónleikanna. Þar á meðal voru nokkur af helstu fyrirtækjum svæðisins sem gerðu honum kleift að láta þennan draum verða að veruleika.

Til hamingju Már og aðrir sem að þessum stórtónleikum komu. Það verður gaman að fylgjast með þessum unga, hugrakka ofurhuga í framtíðinni.

Kjartan Már Kjartansson, fiðluleikari og bæjarstjóri