Blómasala Æsu
Blómasala Æsu

Mannlíf

Sólborg meðal tíu „Framúrskarandi ungra Íslendinga
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands afhenti Sólborgu viðurkenninguna.
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
mánudaginn 9. september 2019 kl. 09:00

Sólborg meðal tíu „Framúrskarandi ungra Íslendinga

„Þessi verðlaun eru gott spark í rassinn. Það er ómetanlegt þegar vinnan manns skilar af sér einhverju góðu út í samfélagið. Það er oft erfitt að sjá það þegar álagið er sem mest en þetta virðist vera að gera eitthvað gagn sem er mjög dýrmætt,” sagði Sólborg Guðbrandsdóttir en hún var valin í hóp tíu „Framúrskarandi ungra Íslendinga“ sem verðlaunin eru veitt árlega af JCI Íslandi.

Verðlaunin Framúrskarandi ungir Íslendingar eru hvatningarverðlaun til ungs fólks sem er að takast á við krefjandi og athyglisverð verkefni. Þetta er hvatning og viðurkenning fyrir ungt fólk sem kemur til með að hafa áhrif í framtíðinni. Úr þessum hópi var svo einn einstaklingur valinn sem Framúrskarandi Ungur Íslendingur árið 2019. Á hverju ári er óskað eftir tilnefningum þar sem allir geta tilnefnt unga Íslendinga sem þeim þykja skara framúr. Sérstök dómnefnd fer svo yfir tilnefningar og velur 10 framúrskarandi einstaklinga sem hljóta viðurkenningu.

Verðlaunaafhending fór fram við hátíðlega athöfn þar sem Forseti Íslands hr. Guðni Th. Jóhannesson afhenti verðlaunin og viðurkenningar en hann er verndari verkefnisins hér á landi. Ísland hefur verið þáttakandi í þessu verkefni óslitið síðan 2002

Sólborg hefur haldið úti átakinu „Fávitar“ síðastliðin ár sem er Instagram-aðgangur sem gengur út á það að vekja athygli á kynferðisofbeldi og þá sérstaklega stafrænni kynferðislegri áreitni. Tæplega 23 þúsund manns fylgja síðunni. Þar birtir hún skjáskot af kynferðislegri áreitni á netinu, sögur af ofbeldi og fjallar um ýmis jafnréttismál.