Mannlíf

Sígilt jólaævintýri í nútímabúningi
Ebbi og Tommi litli. VF/JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
föstudaginn 17. nóvember 2023 kl. 06:03

Sígilt jólaævintýri í nútímabúningi

Jólasaga í Aðventugarðinum í Frumleikhúsinu

Leikfélag Keflavíkur hóf sýningar á jólasöngleiknum Jólasaga í Aðventugarðinum um síðustu helgi. Verkið byggir á hinni sígildu sögu Jólaævintýri eftir Charles Dickens en hefur verið staðfært að Suðurnesjum og fært nær okkur í tíma.

Við fáum að kynnast hótelstjóranum Enebeser, eða Ebba eins og hann er kallaður, sem hefur týnt lífsgleðinni í græðgi og nísku. Jólin eru tilgangslaus tímaeyðsla í hans augum og Ebeneser kýs að verja þeim í vinnu eða einn heima hjá sér. Eins og í Jólaævintýri Dickens heimsækja Ebba þrír andar sem leiða honum fyrir sjónir hversu innihaldslaust líf hans er orðið, hvernig hann hefur kastað á glæ því sem skiptir meira máli en peningar. Vinir og ættingjar hafa gefist upp á honum en undir lokin gefst Ebba tækifæri til að breyta um lífsstíl, sem hann gerir. Ebbi endurnýjar kynnin við fjölskylduna sína, vinina og ástina sem hann hafði gefið upp á bátinn – og síðast en ekki síst kemst hann í jólaskap.

Optical Studio
Optical Studio

Ebbi er harður húsbóndi og krefst þess að það sé unnið á aðfangadag.


Þetta er metnaðarfull sýning sem Leikfélag Keflavíkur hefur ráðist í og ætti að koma öllum í jólaskap. Undirritaður sá sýninguna ásamt tólf ára syni sínum og skemmtu báðir sér konunglega, Jólasaga í Aðventugarðinum er sýning fyrir alla aldurshópa, unga sem aldna. Skemmtileg jólalög, dans, glens og gaman grípur áhorfandann og heldur athygli hans allan tímann – allt sem þarf til að skapa eftirminnilega leikhúsminningu.

Það kemur manni sífellt á óvart hvað lítið leikfélag getur gert magnaða hluti. Leikstjórinn Guðmundur Lúðvík Þorvaldsson hefur náð því besta fram hjá öllum sem koma að verkinu. Leikararnir skila sínum hlutverkum vel til áhorfenda en stærsti hluti leikhópsins er skipaður krökkum á grunnskólaaldri sem komast frábærlega frá sínum hlutverkum og krakkar úr barnakórnum Regnbogaröddum setja yndislegan svip á sýninguna.

Takk fyrir mig Leikfélag Keflavíkur,
Jóhann Páll Kristbjörnsson.

Þessar tvær biðu spenntar eftir frumsýningunni.
Falleg minning Ebba úr fortíðinni.
Regnbogaraddir settu svip á sýninguna.

Fleiri myndir eru í myndasafni neðst á síðunni.

Jólasaga í Aðventugarðinum