Bílakjarninn hekla
Bílakjarninn hekla

Mannlíf

Segir brotið á nemendafélögum í lögum
Júlíus Viggó annar frá vinstri ásamt stjórnarmönnum í stjórn sambands framhaldsskólanema.
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
fimmtudaginn 1. október 2020 kl. 12:02

Segir brotið á nemendafélögum í lögum

Júlíus Viggó Ólafsson kosinn forseti Sambands íslenskra framhaldsskólanema

Aðalþing Sambands íslenskra framhaldsskólanema, SÍF, fór fram á dögunum en í ljósi Covid-aðstæðna var það haldið á vefsvæðinu zoom. Á þinginu var kosið í nýja framkvæmdastjórn til eins árs en stjórnin er skipuð sjö framhaldsskólanemum. Að þessu sinni eru tveir frá Suðurnesjum í stjórn. Það eru þeir Júlíus Viggó Ólafsson sem er forseti SÍF og Hermann Nökkvi Gunnarsson sem er alþjóðafulltrúi.

Þingið sótti stór og fjölbreyttur hópur nemenda úr fjölmörgum skólum víða að af landinu en auk þess að leggja línurnar í starfi félagsins eru þingin mikilvægur vettvangur fyrir fræðslu og einnig fyrir nemendur að deila reynslu sinni og læra hver af öðrum.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Samband íslenskra framhaldsskólanema er hagsmunafélag allra íslenskra framhaldsskólanema og nemendafélaga þeirra. Félagið starfar með það að leiðarljósi að standa vörð um réttindi framhaldsskólanema og bæta aðstæður þeirra.

Auk hefðbundinna aðalfundarstarfa og kynninga ávarpaði Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, þingið og ræddi við nemendur um skólahald á tímum Covid en ljóst er að staða nemenda í faraldrinum mun á komandi mánuðum verða áfram eitt helsta áhersluatriðið í starfi félagsins.

Framkvæmdaáætlun komandi starfsárs var lögð fram til samþykktar en verkefnin eru meðal annars tengd lýðræði, málefnum nemenda af erlendum uppruna og nemenda með fatlanir.

„Við Hermann höfum unnið mikið saman undanfarið en þegar ég var formaður nemendafélagsins í FS var hann varaformaður og hefur hann nú tekið við sem formaður þar. Við ákváðum að gefa kost á okkur í framkvæmdastjórn SÍF, ég í stöðu forseta og hann í stöðu alþjóðafulltrúa, og náðum báðir kjöri,“ segir Júlíus Viggó Ólafsson í samtali við Víkurfréttir.

Aðspurður segir hann að stærsti vandinn sem stendur fyrir framhaldsskólanemum Íslands er auðvitað veirufaraldurinn sem nú geisar yfir. Mikil hætta er á að margir nemendur flosni upp úr námi vegna veirunnar, sem gæti haft mikil og ófyrirséð áhrif á íslenskt samfélag næstu áratugi.

„Við í stjórn SÍF erum komin í reglulegt samband við menntamálaráðherra til þess að veita álit okkar á mismunandi aðgerðum stjórnvalda sem snerta nám framhaldsskólanema.“

– Hvaða mál brenna heitast á ykkur í SÍF um þessar mundir?

„Það eru nokkur málefni sem okkur finnst mikilvægt að SÍF vinni að á komandi starfsári. Eitt þeirra er að skilgreina lög um nemendafélög betur en breyting sem var gerð á 39. gr. laga um framhaldsskóla fyrir nokkrum árum hefur orðið til þess að hægt er að túlka þessi lög á of víðtækan hátt.

39. gr. laga um framhaldsskóla hljóðar svo:

39. gr. Nemendafélög í framhaldsskólum.

Í hverjum framhaldsskóla skal starfa nemendafélag. Nemendafélag vinnur m.a. að félags-, hagsmuna- og velferðarmálum nemenda. Það setur sér reglur um skipan, starfssvið og starfshætti. Nemendafélög starfa á ábyrgð skóla. Nemendafélögum skal búin aðstaða til starfsemi sinnar.

Framhaldsskólum er heimilt að styrkja starfsemi nemendafélaga fjárhagslega og skal bókhald þeirra háð sömu endurskoðun og aðrar fjárreiður framhaldsskóla.

Setningunni „nemendafélög starfa á ábyrgð skóla“ var bætt við þegar lögum var breytt svo að allir gjaldkerar félaga á Íslandi þurfi að hafa náð átján ára aldri og var tilgangurinn með þessari breytingu aðeins sá að bókhald nememdafélaga væri í grunnin á ábyrgð skólanna, sérstaklega þar sem mun færri hópur nemenda uppfyllir þau skilyrði að hafa náð átján ára aldri vegna styttingu framhaldsskólanna.

Breytingarnar áttu ekki að breyta því að nemendafélög setji sínar eigin reglur um skipan, starfssvið og starfshætti. Samt sem áður hefur þessi lagabreyting verið notuð sem afsökun, hjá mörgum skólastjórnum, fyrir stórtækum brotum á réttindum nemendafélaga. Þá eru lögin túlkuð á þann hátt að þau veiti skólastjórnum heimild til að hafa áhrif á skipan félaganna og störf þeirra, ritskoða allt efni sem kemur frá þeim, banna viðburði án góðrar ástæðu, gera prókúru upptæka og fleira.

Sem dæmi um skóla þar sem slík brot hafa verið framin í má nefna Fjölbrautaskóla Suðurnesja, Verzló og Menntaskóla Reykjavíkur – en þeir eru eflaust mun fleiri.

Okkur langar einnig að leggja sérstaka áherslu á málefni iðnnema, nemenda sem eru af erlendu bergi brotnir og fatlaðra nemenda,“ segir Júlíus Viggó Ólafsson, forseti Sambands íslenskra framhaldsskólanema, í samtali við Víkurfréttir.