Mannlíf

Samfélagið á Suðurnesjum á góðum stað
Úlfar Lúðvíks­son, lögreglustjóri á Suðurnesjum. VF-mynd: pket
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
laugardaginn 8. maí 2021 kl. 08:08

Samfélagið á Suðurnesjum á góðum stað

– segir Úlfar Lúðvíksson lögreglustjóri á Suðurnesjum í Víkurfréttaviðtali

Úlfar Lúðvíks­son var skipaður í embætti lög­reglu­stjóra á Suður­nesj­um 16. nóv­em­ber í fyrra. Úlfar Lúðvíks­son hef­ur ára­langa reynslu sem lög­reglu­stjóri og sem sýslumaður en áður en hann kom til Suðurnesja var hann lög­reglu­stjóri á Vest­ur­landi. Þá hef­ur hann víðtæka reynslu af al­manna­vörn­um og verið formaður Lög­reglu­stjóra­fé­lags­ins frá 2016. Úlfar hef­ur verið lög­reglu­stjóri á Vest­ur­landi, sýslumaður á Ísaf­irði, lög­reglu­stjóri á Vest­fjörðum og sýslumaður á Pat­reks­firði. Víkurfréttir tóku hús á Úlfari á lögreglustöðinni við Brekkustíg í Reykjanesbæ, fyrst skömmu fyrir eldgosið í Fagradalsfjalli og svo aftur í síðustu viku þegar hafði gosið í rúma 40 sólarhringa.

– Þú ert nýlega kominn til starfa á Suðurnesjum. Hvernig leggst þetta í þig og hvernig finnst þér?

„Þetta leggst ljómandi vel í mig. Ég er búinn að vera hérna á sjötta mánuð og það sem ég sé er bara einvala lið. Þetta er stór vinnustaður og hann er vel búinn. Hér er mikil og góð þekking hjá embættinu. Embættið er einstakt á landsvísu. Hjá þessu embætti búum við við það að vera með alþjóðaflugvöll og þeir eru nú ekki margir á Íslandi. Embættið er einstakt og ákjósanlegur vinnustaður fyrir unga eða upprennandi lögreglumenn að byrja hér hjá okkur.“

– Það má segja að þetta sé tvískipt starfsemi, fyrir innan og utan flugvöllinn.

„Klárlega. Við erum með landamæravörslu í flugstöðinni og það skiptir þessa þjóð miklu að það sé haldið vel á málum þar, svo sannarlega er þessi starfsemi tvískipt.“

– Í Covid datt nær allt flug niður. Varð breyting á ykkar högum í flugstöðinni hvað það varðar?

„Okkar mannskapur í flugstöðinni og þá sérstaklega landamæraverðir fóru til annarra starfa. Þeir hafa komið að smitrakningu og smitvörnum á tímum Covid í samstarfi við Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og Landlæknisembættið. Þetta er gríðarlega skemmtilegt verkefni en klárlega ekki það sem starf landamæravarða var hugsað í í upphafi, en svona breytast hlutir.“

– Hver er ykkar upplifun hér hjá lögreglunni á Suðurnesjum, hafa orðið breytingar í ykkar starfi í Covid? Við höfum upplifað breytingar í samfélaginu, hafið þið fundið fyrir því?

„Ekki sjáanlega. Ég myndi segja að samfélagið hér væri á góðum stað og við erum ekki að sjá þetta í fleiri verkefnum og erum afskaplega ánægð með það. Við erum ekki að upplifa fleiri afbrot, sem er jákvætt.“

– Nú er fjórðungur íbúa Reykjanesbæjar af erlendu bergi og fimmtungur íbúa Suðurnesja. Eruð þið að finna fyrir því á einhvern hátt?

„Ég held að þetta fólk sé bara að samlagast þessu samfélagi hér mjög vel og það eru ekki sjáanleg vandamál.“

– Hér á Suðurnesjum hefur verið mikið atvinnuleysi. Eruð þið að finna fyrir því í ykkar störfum?

„Nei, við erum ekki að finna fyrir því og ég held að það sé mjög jákvætt.“

– Er það ekki áhugavert?

„Það er áhugavert og virkilega jákvætt.“

– Þú varst síðast að stýra lögreglunni á Vesturlandi. Ég geri ráð fyrir að það sé töluverður munur á milli embætta?

„Jú, þetta eru ólík embætti og þá fyrst og síðast af því að hér er stór flugvöllur og hér búa fleiri. Vesturland er víðfeðmt, fleiri lögreglustöðvar og þarf að fara yfir lengri veg en í grunninn eru verkefnin eins, nema að þar er enginn flugvöllur. Það er spennandi áskorun að koma hingað til Suðurnesja.“

– Hvað er þetta mikil starfsemi hjá lögreglunni á Suðurnesjum? Hvað eruð þið mörg?

„Hér eru 160 til 170 starfsmenn á hverjum tíma.“

– Er ásókn í lögreglustarfið?

„Ég myndi segja það en við þurfum fleiri lögreglumenn. Við erum með nám á háskólastigi en þyrftum að útskrifa fleiri lögreglumenn og vonandi verður það í framtíðinni.“

– Í gamla daga sá maður lögreglumenn á ferðinni en það er mikil starfsemi innanhúss líka?

„Þetta er mikil starfsemi og vel útbúið og tæknilega séð á góðum stað.“

– Hverju er leitað eftir í lögreglumanni í dag, þarf hann að hafa víðtækari menntun og þekkingu en fyrir 30 árum síðan?

„Já, ég myndi segja það. Verkefnin hafa breyst og eru flóknari í dag. Klárlega þarf lögreglumaður að hafa góða dómgreind, vera samvinnuþýður og eiga gott með mannleg samskipti. Það skiptir gríðarlega miklu máli í þessu starfi.“

– Finnur þú fyrir öðrum verkefnum hér en þar sem þú varst áður á Vesturlandi?

„Nei, verkefnin eru bara fleiri. Þetta er stöðugra og verkefnin streyma inn. Svo má segja að verkefnin sem tengjast flugstöðinni séu einstök.“

– Þegar við ræddum við þig í mars áttir þú kannski ekki von á því að það færi að gjósa?

„Nei – en ég var undirbúinn.“

– Og við ræddum rýmingaráætlanir sem er sérstakt því fólk er ekki að flýja svæðið, það flykkist að því.

„Það er í sjálfu sér jákvætt að við erum með þetta gos á afmörkuðum stað í óbyggðum má segja og snertir ekki líf í þéttbýli.“

– Nú hefur lögreglan þurft að koma mikið að málum eftir að hófst gos í Geldingadölum.

„Ég held að við höfum verið vel undirbúin. Það voru stöðugir jarðskjálftar til langs tíma og stöðug fundarhöld með sérfræðingum Veðurstofu Íslands og Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra. Það má segja að það hafi verið beðið eftir gosi á þessum stað og svo fáum við það í fangið. Það átti kannski enginn von á því þennan dag en það kom. Þetta var gott fyrir vísindasamfélagið því það var búið að staðsetja þetta nokkurn veginn á þeim stað sem síðan gaus. Við vorum undirbúin og þetta gekk mjög vel.

Það ber fyrst og síðast að þakka björgunarsveitinni Þorbirni í Grindavík og þeirra vösku konum. Frábær hópur. Við erum með lögreglu og Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra. Þetta er samhentur hópur og þetta hefur gengið mjög vel.“

– Hefur þú þurft að vera með meiri mannskap í vinnu út af þessu verkefni?

„Við þurfum að keyra þetta á auka mannskap og höfum fengið góðan stuðning frá Suðurlandi og lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Í dag er þetta orðið nokkuð stöðugt, gosið er stöðugt og við erum að draga úr viðbragði. Við vitum nokkurn veginn hvernig dagurinn gengur fyrir sig og flestir dagar eru mjög góðir og slysalausir – en þó ekki alveg. Það hefur ekkert alvarleg farið þarna úrskeiðis, sem er samt alveg stórmerkilegt þar sem þarna hafa komið í kringum 70.000 manns, þannig að þetta gengur mjög vel.“

Lögreglan á Suðurnesjum er með vakt við gosstöðvarnar frá hádegi og til miðnættis. Svæðið er ekki rýmt en lögregla yfirgefur svæðið á miðnætti og það er látið berast til göngumanna. „Þetta er okkar verklag og það hefur gefið góða raun síðustu daga,“ segir Úlfar.

– Hefur þú farið sjálfur að skoða þetta?

„Já, ég hef verið þarna tvisvar. Ég var þarna í fyrstu viku gossins og svo var ég þarna á föstudaginn í þarsíðustu viku. Það er gaman að segja frá því að þetta er mjög ólíkt að vera þarna í upphafi goss og svo núna. Við erum að sjá allt annað landslag. Þetta er stórkostlegur staður.“

– Þegar horft er til baka, er þá hægt að segja að þetta hafi gengið ótrúlega vel?

„Þetta hefur gengið virkilega vel.“

– Þetta er að því er virðist hvergi nærri búið og verður risastór auglýsing fyrir Suðurnes. Er eitthvað farið að skoða framhaldið?

„Það er vinna sem er í gangi og komin vel á veg. Við eigum eftir að sjá fljótlega landverði þarna við störf. Þessu er sinnt vel og ég bind miklar vonir við það. Þetta er klárlega náttúruperla sem ferðamenn, Íslendingar og útlendingar, munu koma til með að heimsækja á komandi árum, það er ekki nokkur spurning. Þannig að þetta eru tækifæri fyrir svæðið.“