Grétu en geta verið stoltar - umfjöllun og viðtöl eftir leik Hauka-UMFN
Njarðvík tapaði með minnsta mun eftir hreint ótrúlegan oddaleik í Bónus deild kvenna í körfubolta gegn Haukum á Ásvöllum í kvöld þar sem úrslitin réðust í framlengingu á síðustu sekúndu leiksins. Leikurinn var æsispennandi en Haukar voru yfir meirihluta fjórða leikhluta. Hins vegar voru það stórir þristar frá Kristu Gló og Huldu Maríu sem komu Njarðvík alla leið í framlengingu. Liðin skiptust á forystu í framlengingunni en að lokum voru það Haukar sem unnu í spennuþrungnum leik, 92-91. Njarðvíkingar voru því hársbreidd frá því að vinna bæði bikar og Íslandsmeistaratitilinn í vetur en urðu að láta sér nægja bikarinn.
Stemming í byrjun
Fljótt varð fullt í húsinu og voru aðdáendur beggja liða farnir að syngja og tralla meira en hálftíma fyrir leik. Blaðamaður sat þó á milli stuðningsmannanna og heyrðist meira í Njarðvíkingum fyrir fyrsta flaut dómaranna. Leikurinn byrjaði rólega og var stigaskorið lágt en eftir góða körfu frá Brittany Dinkins jókst hraði beggja liða í sókninni og skiptust liðin á forystu í fyrsta leikhluta. Fyrsti leikhluti spilaðist eins og búast mátti við, Haukar fengu að spila ansi agressíva vörn á meðan Njarðvík reyndi að nýta sér hæðarmuninn undir körfunni. Staðan í lok fyrsta leikhluta hnígjöfn, 22-22.
Leikur í járnum
Áfram var leikurinn í járnum í byrjun annars leikhluta en snemma í leikhlutanum fékk Brittany Dinkins sína þriðju villu í leiknum og Einar Árni, þjálfari Njarðvíkur, neyddist til að skipta henni út af. Er hún sat út af virtist Njarðvíkurliðið í miklum vandræðum báðum megin og náðu Haukar 9 stiga forystu. Einar var þó fljótur að setja sinn besta leikmann inn á og söxuðu Njarðvíkingar heldur betur á forystu Haukamanna og náðu muninum í þrjú stig. Haukar enduðu þó leikhlutann betur með Sólrúnu Ingu í fararbroddi sem setti fjóra þrista í fimm skottilraunum í fyrri hálfleik. Staðan í hálfleik 43-36, Haukum í vil.
Rauður þriðji leikhluti
Haukar byrjuðu þriðja leikhluta vel með körfu frá Diamond Battles á meðan Njarðvíkingar áttu í erfiðleikum með að klára færi sín. Það var ekki fyrr en yfir 4 mínútur voru liðnar af þriðja leikhluta þegar Brittany Dinkins hitti fyrsta skoti Njarðvíkur á meðan Haukar héldu áfram að auka forskot sitt. Þegar þriðji leikhluti var hálfnaður tók Einar Árni leikhlé eftir að Haukar hittu galopnum þrist sem kom þeim 12 stigum yfir og voru stuðningsmenn Hauka byrjaðir að syngja „Íslandsmeistarar, já Íslandsmeistarar“. Áfram héldu Haukakonur að skjóta vel fyrir utan á meðan Njarðvíkingar virtust ekki getað keypt sér körfu. Staðan í lok þriðja leikhluta, 63-54.
Risaþristar héldu UMFN á lífi
Njarðvík setti tóninn snemma í fjórða leikhluta með þrist úr horninu frá Láru Ásgeirsdóttir og fylgdu þar eftir góðar körfur frá Brittany Dinkins og Paulina Hersler sem minnkaði muninn í 5 stig. Haukar svöruðu þó og voru fljótar að koma muninum í 10 stig en tóku Njarðvíkingar þá leikhlé til að missa ekki Hauka of langt frá sér. Eftir hetjulega baráttu náði Njarðvík að saxa forskotið í 3 stig þegar undir mínúta var eftir af leiknum en Haukakonan Þóra Kristín kórónaði stórleik sinn með risastórum þrist og virtist leikurinn þá búinn. Brittany Dinkins gaf þá Njarðvík líflínu með öðru þriggja stiga skoti og náðu Njarðvík risastóru stoppi. Njarðvík áttu svo innkast þegar 5 sekúndur voru eftir af leiknum og fékk þá Hulda María boltann fyrir utan þriggja stiga línunna og setti stærsta skot sem undirritaður hefur séð í úrslitakeppni úrvalsdeildar kvenna. Leikurinn þá hnífjafn, 79-79 og framlenging raunin.
Mögnuð framlenging
Áfram var allt í járnum í framlengunni, barátta í báðum liðum og mikill barningur báðum megin. Liðin svöruðu körfum hvors annars og voru Haukar með eins stig forystu þegar boltinn fór út af eftir skottilraun Brittany Dinkins. Dómarar leiksins voru óvissir um hvort liðið ætti boltann og voru mjög lengi í skjánum en á endanum voru það Njarðvík sem áttu boltann og voru þær aðeins einu stigi undir þegar um tvær sekúndur voru eftir af leiknum. Njarðvíkingar náðu ekki að finna skot og töpuðu boltanum í sinni lokasókn. Haukar fengu þá boltann og náðu að gefa boltann inn án þess að Njarðvík náðu að stela boltanum eða brjóta. Lokaniðurstaða, 92-91 í einum magnaðasta úrslitaleik í sögu íslensks körfubolta.
Viðtöl og texti: Jón Ragnar Magnússon.
Haukar-Njarðvík 92-91 (22-22, 21-14, 20-18, 16-25, 13-12)
http://kki.is/widgets_game.asp?season_id=128585&game_id=6029568
Haukar: Þóra Kristín Jónsdóttir 25/6 fráköst/6 stoðsendingar, Diamond Alexis Battles 20/4 fráköst/7 stoðsendingar, Sólrún Inga Gísladóttir 14, Tinna Guðrún Alexandersdóttir 12/8 fráköst, Lore Devos 10/11 fráköst, Agnes Jónudóttir 7, Rósa Björk Pétursdóttir 4, Sigrún Björg Ólafsdóttir 0/5 fráköst, Anna Lóa Óskarsdóttir 0, Sara Líf Sigurðardóttir 0, Inga Lea Ingadóttir 0, Arnheiður Ísleif Ólafsdóttir 0.
Njarðvík: Brittany Dinkins 28/15 fráköst/6 stoðsendingar, Paulina Hersler 18/14 fráköst/7 stoðsendingar, Krista Gló Magnúsdóttir 15, Emilie Sofie Hesseldal 10/16 fráköst/5 stoðsendingar/5 stolnir, Hulda María Agnarsdóttir 9/7 fráköst, Sara Björk Logadóttir 6, Lára Ösp Ásgeirsdóttir 3, Eygló Kristín Óskarsdóttir 2/4 fráköst, Veiga Dís Halldórsdóttir 0, Kristín Björk Guðjónsdóttir 0, Katrín Ósk Jóhannsdóttir 0, Anna Lilja Ásgeirsdóttir 0.
Dómarar: Kristinn Óskarsson, Jóhannes Páll Friðriksson, Jón Þór Eyþórsson
Áhorfendur: 1103
Viðureign: 3-2