Úlfar Lúðvíksson lætur af störfum
Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum hefur látið af störfum og tekur uppsögnin gildi strax á miðnætti. Úlfar segir að Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, dómsmálaráðherra, hafi tilkynnt sér að staða lögreglustjóra á Suðurnesjum yrði auglýst í haust og að samningur hans yrði ekki endurnýjaður.
Úlfar sagði blaðamanni að hann hefði verið boðaður á fund dómsmálaráðherra og ráðuneytisstjóra í dómsmálaráðuneytinu í gær, þar sem honum var tilkynnt um ákvörðunina. Honum bauðst að starfa fram í nóvember en hann óskaði eftir að losna strax og var það samþykkt og tekur uppsögnin gildi á miðnætti.
Úlfar Lúðvíksson var skipaður í embætti lögreglustjóra á Suðurnesjum 16. nóvember 2020. Hann fékk stór verkefni í fangið því fyrsta eldgosið af ellefu hófst 19. mars 2021 en lögreglan kom mikið að eftirliti og stjórnun á gossvæðinu og hefur gert.
Úlfar hefur áralanga reynslu sem lögreglustjóri og sem sýslumaður en áður en hann kom til Suðurnesja var hann lögreglustjóri á Vesturlandi. Þá hefur hann víðtæka reynslu af almannavörnum og var formaður Lögreglustjórafélagsins. Úlfar hefur verið lögreglustjóri á Vesturlandi, sýslumaður á Ísafirði, lögreglustjóri á Vestfjörðum og sýslumaður á Patreksfirði.