Bílakjarninn hekla
Bílakjarninn hekla

Mannlíf

Opin æfing Kvennakórs Suðurnesja á miðvikudaginn
Mánudagur 12. september 2022 kl. 14:55

Opin æfing Kvennakórs Suðurnesja á miðvikudaginn

Kvennakór Suðurnesja er að hefja nýtt starfsár og það er ýmislegt skemmtilegt framundan. Æfingar á frábæru prógrammi fyrir vortónleika 2023 eru að hefjast og heldur kórinn opna æfingu í KK-salnum miðvikudagskvöldið 14. september þar sem starfið verður kynnt, nýjar konur boðnar velkomnar og að lokum verður boðið upp á veitingar. Þetta er góður vettvangur fyrir konur sem langar að upplifa og læra meira í söng með frábærum stjórnanda og skemmtilegum hóp.

Síðustu ár hafa verið mjög krefjandi fyrir kórastarfsemi eins og annað í þjóðfélaginu vegna heimsfaraldursins. Kvennakór Suðurnesja tókst, þrátt fyrir samkomutakmarkanir og aðrar áskoranir, að halda starfseminni gangandi og halda ferna glæsilega tónleika. Haustið 2021 hélt kórinn tvenna Bíótónleika þar sem flutt voru vinsæl lög úr kvikmyndum og síðastliðið vor voru haldnir tvennir tónleikar undir yfirskriftinn Demantar, en þar flutti kórinn söngdemanta frá hverjum áratug frá 1940 til dagsins í dag. 

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Eins og áður sagði verður kórinn með frábært prógram í vetur. Kórinn verður 55 ára á næsta ári og af því tilefni lítum við yfir farinn veg og verður u.þ.b. helmingur prógrammsins lög sem hafa verið útsett sérstaklega fyrir kórinn, m.a. fyrir 50 ára afmælistónleika kórsins. Hinn helmingurinn eru síðan lög sem tengjast árinu 1968 þegar kórinn var stofnaður, annað hvort voru vinsæl á því ári eða flutt af tónlistarfólki sem fæddist þetta ár. Einnig mun kórinn taka þátt í landsmóti íslenskra kvennakóra sem verður haldið í Reykjavík í maí þar sem nokkur hundruð kórkonur koma saman til að syngja og skemmta sér. Meðal annars munu kórarnir syngja í tónlistarhúsinu Hörpu og verður það án efa mikil upplifun eins og mótið allt. 

Æfingar verða í KK salnum, Vesturbraut 17-19 í Reykjanesbæ, alla miðvikudaga og raddæfingar í Tónlistarskólanum í Garði á mánudögum, en þá skiptast raddirnar á að mæta þannig að hver rödd mætir þriðja hvern mánudag. Farið verður í æfingabúðir í Skálholti í febrúar og áætlað er að vortónleikar verði í apríl. Ráðgert er að æfa nokkur jólalög og syngja við gott tækifæri á aðventunni og kórkonur bregða sér svo í álfabúningana og syngja á Þrettándagleði í Reykjanesbæ.

Opna æfingin verður eins og áður sagði í KK-salnum miðvikudaginn 14. september og hefst hún kl. 20. Söngglaðar konur á öllum aldri eru hvattar til að mæta og kynna sér starfið.