Mannlíf

Of mikið súkkulaði er ekki nóg
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
mánudaginn 24. ágúst 2020 kl. 11:30

Of mikið súkkulaði er ekki nóg

Brynja Björk Harðardóttir Fegurðardrottning Suðurnesja 1995 er með borinn á lofti alla daga

„Jú, ég er búin að vera dugleg að ferðast innanlands. Við fjölskyldan erum búin að fara í nokkrar dagsferðir en ferðuðumst líka hringinn í kringum landið. Það var alveg æðislega gaman,“ segir Njarðvíkingurinn Brynja Björk Harðardóttir þegar hún er spurð út í sumarið.

Brynja gerði meira en að ferðast því hún fór líka á fjallahjólanámskeið í Þórsmörk með vinkonum og gengu þau hjónin Fimmvörðuháls.  „Við Íslendingar verðum kannski dálítið „heimablind“ með alla þessa náttúrufegurð fyrir framan okkur alla daga.  Ég skil ferðamennina vel sem tapa andanum yfir fegurðinni og andstæðunum.“

Við hjá VF vorum að skoða mynd af þér í Fegurðarsamkeppni Suðurnesja. Það eru nokkur ár síðan þú varst kjörin Fegurðardrotting Suðurnesja (og systir hennar gerði sér reyndar lítið fyrir og fylgdi henni eftir tveimur árum síðar). Hvernig rifjast það upp fyrir þér, hvernig var sú reynsla og hvað tók við eftir það?

Já, það eru nokkur ár síðan. Sú reynsla var bara stórfín. Þetta var alveg málið árið 1995. Ég fór í fleiri keppnir í kjölfarið en snéri mér svo að öðru.

– Hvað geturðu sagt okkur um menntun og síðan starf?

Ég var ákveðin í að verða tannlæknir á þessum tíma en var ekki tilbúin í langt háskólanám alveg strax eftir stúdentspróf. Ég prófaði margvísleg störf í nokkur ár áður en ég fór svo í Háskóla Íslands og lærði tannlækningar. Ég útskrifaðist 2003 og hef starfað við það síðan. Bæði á Íslandi og í Stokkhólmi þar sem við bjuggum í ellefu ár, segir Brynja sem ekur auðvitað um á Volvo eins og margir sem hafa búið í Svíaríki.

– Nafn:

Brynja Björk Harðardóttir.

– Árgangur:

1975.

– Fjölskylduhagir:

Gift Halldóri Skúlasyni. Við eigum þrjú börn; ellefu, þrettán og fimmtán ára.

– Búseta:

Garðabær.

– Hverra manna ertu og hvar upp alin?

Foreldrar mínir eru Anna Sigurðardóttir og Hörður Karlsson. Ég er alin upp í Njarðvík.

– Starf/nám:

Tannlæknir.

– Hvað er í deiglunni?

Hlýðum Víði.

– Hvernig nemandi varstu í grunnskóla? 

Ég var ágætis nemandi.

– Hvernig voru framhaldsskólaárin? 

Mjög skemmtileg. Ég var í FS. Það var voða gaman. Ég var í góðum félagsskap þar.

– Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór? 

Hmmm. Man það ekki. Ég tók stefnuna á tannlækningar þegar ég var í FS og fór á Háskóladaginn þar sem allar deildir voru kynntar. Ég fékk að bora í fyrsta skipti þá.

– Hver var fyrsti bíllinn þinn?

Daihatsu Charade.

– Hvernig bíl ertu á í dag?

Volvo.

– Hver er draumabíllinn?

Ég held ég haldi mig bara við Volvo. Finnst hann æðislegur. Tesla er reyndar alveg fín líka. Rafmagn er auðvitað framtíðin.

– Hvert var uppáhaldsleikfangið þitt þegar þú varst krakki?

Kubbar.

– Hvernig slakarðu á?

Kósíkvöld með fjölskyldunni. Góð bíómynd og bland í poka. Og, jú! Yoga hjá Heiðbrá.

– Hver var uppáhaldstónlistin þín þegar þú varst u.þ.b. sautján ára?

George Michael allan daginn.

– Hvaða tónlist fær þig til að sperra eyrun þessa dagana?

GDRN. Svöl og allt flott sem kemur frá henni.

– Horfirðu mikið á sjónvarp og hvernig?

Ég horfi eiginlega eingöngu á seríur. Netflix og RÚV-appið

– Hverju missirðu helst ekki af í sjónvarpinu?

Fréttunum á RÚV.

– Besta kvikmyndin: 

Get ekki gert upp á milli Thelma & Louise og Bridesmaids.

– Hvað gerir þú betur en allir aðrir á þínu heimili?

Ég er þolinmóðust.

– Hvert er snilldarverkið þitt í eldhúsinu?

Pavlova.

– Hvernig er eggið best?

Soðið ... í nákvæmlega sjö mínútur og 30 sekúndur (borða a.m.k. tvö á dag).

– Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari annarra?

Óstundvísi.

– Uppáhaldsmálsháttur eða tilvitnun:

Lærðu að segja nei. Það reynist þér gagnlegra en að kunna latínu. 

– Ef þú gætir farið til baka í tíma, hvert færirðu? 

Ef ég gæti tekið með mér áreiðanlega vitneskju um upphaf Covid-19 ... stoppa það.

– Hver væri titillinn á ævisögu þinni?    

Of mikið súkkulaði er ekki nóg.

– Þú vaknar einn morgun í líkama frægrar manneskju og þarft að dúsa þar einn dag. Hver værirðu til í að vera og hvað myndirðu gera? 

Donald Trump. Segja af mér í hvelli!

– Hvaða þremur persónum vildirðu bjóða í draumakvöldverð?   

Mömmu, pabba og Dóra manninum mínum.

– Hvernig hefur þú verið að upplifa árið 2020 hingað til? 

Óraunverulegt en ég get ekki kvartað.

– Ef þú gætir hoppað upp í flugvél og réðir hvert hún færi, þá færirðu ...

... til Ástralíu. Langar rosalega að koma þangað.

Á ferð um Íslandið fagra!

Brynja Björk og fjölskylda voru mikið á ferðinni í sumar og hún deildi með okkur nokkrum flottum myndum úr ferðinni.

Við laumuðum líka mynd af forsíðu Víkurfrétta vorið 1995 þegar Brynja Björk var á forsíðunni eftir Fegurðarsamkeppni Suðurnesja í Stapa.