Stuðlaberg Pósthússtræti

Mannlíf

Nú eru sauðir í gamla Krossinum – ekki sauðdrukknir menn
Sunnudagur 27. desember 2020 kl. 07:24

Nú eru sauðir í gamla Krossinum – ekki sauðdrukknir menn

Hluti af Krossinum í Njarðvík, einu þekktasta samkomuhúsi landsins, er í Skagafirði. Dagný Maggýjar tók saman ýmislegt skemmtilegt sem tengist Krossinum í Njarðvík.

Krossinn í Njarðvík var eitt sögufrægasta samkomuhús landsins en þar komu Hljómar fyrst fram og þar fæddist íslenska bítlið, í það minnsta ef þú spyrð Njarðvíking. Hugsanlega hafa Keflvíkingar aðra skoðun á því. Þetta sögufræga hús endaði lífdaga sína árið 1980 þegar það var rifið og í dag má sjá minningarstein þar sem það stóð við Krossmóa, sem einmitt tekur nafn sitt af samkomuhúsinu. Hins vegar hefur komið í ljós að einn bragginn var keyptur norður í Skagafjörð þar sem hann stendur enn þann daginn í dag og spurning hvort ekki eigi að flytja þessar merku menningarminjar aftur heim í hérað, svona fyrir þá sem gáfust upp á Brautarnesti og gömlu sundhöllinni

Krossinn var reistur af ameríska Rauða krossinum á stríðsárunum og tekur þaðan nafn sitt en það þjónaði þá sem hersjúkrahús. Árið 1946 festu Kvenfélag Njarðvíkur og Ungmennafélag Njarðvíkur kaup á húsinu sem var í raun nokkrir braggar með fagurri framhlið. Húsið átti eftir að verða eitt allra vinsælasta samkomuhús Íslandssögunnar um tveggja áratuga skeið eða þar til samkomuhúsið Stapinn var reist.

Um húsið urðu nokkur átök þegar Bandaríkjamenn komu aftur til Suðurnesja með sitt varnarlið árið 1951. Þau endurspegluðu viðhorf íslenskra stjórnvalda til varnarliðsins sem beitti harðri einangrunarstefnu enda vildu menn ekki missa fleiri konur til hermanna eins og á stríðsárunum. Tóku þar afstöðu kvenfélagskonur og ungmennafélagið sem samþykktu á sameiginlegum fundi 25. maí 1951 eftirfarandi „... engir menn með hernaðareinkennum fá að dvelja í húsakynnum félaganna á skemmtunum þess eða öðrum samkomum í húsinu.“ Þetta átti við um flesta almenna hermenn Bandaríkjahers í Keflavík en þeim var skylt að vera í einkennisbúningum utan vallar og máttu auk þess einungis vera úti til miðnættis á „þurrum“ miðvikudögum þegar ekkert áfengi var afgreitt og alveg örugglega engin böll í Krossinum.

Vinsæll samkomustaður

Á árunum 1951–1952 var Krossinn leigður Sameinuðum verktökum undir mötuneyti og svefnskála fyrir verkamenn sem unnu á Keflavíkurflugvelli. Þess fyrir utan var hann nýttur til íþrótta- og æskulýðsstarfa og má þar nefna íþróttakennslu, alla almenna íþróttaiðkun, leiklistarsýningar, fundi, skátastarf og fleira.

Húsið var gríðarlega vinsæll samkomustaður enda bítlaæðið í algleymingi á sjötta áratuginum og þar voru oft alvöru slagsmál enda Krossinn bara bárujárnsbraggi sem lak í vatnsveðrum. Einn veturinn voru þar haldnir átján dansleikir og ávallt húsfyllir eða um 400 manns.

Fyrsta gigg Hljóma var í Krossinum en Ólafur Sigurjónsson, hreppsstjóri og formaður UMFN sem sá um rekstur hússins, leist svo vel á piltana að hann lánaði þeim hljóðfæri svo þeir gætu komið fram – þar með varð íslenska bítlið til. Rúnar Júlíusson sneri hliðinni í áhorfendur fyrsta kvöldið og héldu menn að kappinn væri svona feiminn – en það var ekki ástæðan, heldur var Gunnar Þórðarson að segja honum til með bassaleikinn svo lítið bæri á. Þeir fengu góðar undirtektir „and the rest is history“ eins og sagt er.

Peningamaskína og lyftistöng

Krossinn var mikil peningamaskína og lyftistöng fyrir tómstundir og íþróttir í Njarðvík. Var félagið því betur statt en mörg önnur samskonar félög. Þannig gerðu tekjurnar af Krossinum Njarðvíkingum kleift að byggja íþróttavöll sem var mikið mannvirki á þeim tíma. Fékkst vilyrði fyrir byggingu hans á svokölluðu Nikkelsvæði skammt frá Krossinum og var íþróttavöllur Njarðvíkinga fyrsti grasvöllurinn á Suðurnesjum og með þeim allra fyrstu á landinu. Völlurinn var jafnframt heimavöllur Keflvíkinga auk þess sem Ásgeir Sigurvinsson og félagar hans í knattspyrnuliði ÍBV fengu að nota völlinn eftir gosið í Vestmannaeyjum 1973. Körfuboltamenn úr Keflavík léku með Njarðvík þar sem öll aðstaða til íþróttaiðkunar var betri. Það kom til af því að herinn greiddi hátt útsvar til Njarðvíkurhrepps sem var því vel stöndugur. Má þar nefna sem dæmi að þrjár götur í Njarðvík voru steinsteyptar.

Sögu þessa merkilega samkomustaðar lauk þegar Njarðvíkingar höfðu komið sér upp betra samkomuhúsi sem fékk nafnið Stapi og var tekið í notkun árið 1965. Sigtryggur Árnason, yfirlögregluþjónn, annaðist niðurrif hans og fór hluti af efninu í hesthús á Mánagrund. Einn bragginn var hins vegar seldur norður í land, nánar tiltekið í Brautartungu í Lýtingsstaðahreppi, þar sem hann stendur nú og þjónar hlutverki fjárhús. Er grindin á bragganum að mestu upprunaleg þótt eitthvað hafi hann verið viðbættur.

Þótti mörgum sjónarsviptir af þessu sögufræga samkomuhúsi og því ánægjulegt að hluti þess hafi lifað af þótt hlutverkið sé annað. Þar sem áður voru oft sauðdrukknir menn eru í dag aðeins sauðir – og alls ekki víst að þeir hefðu fílað Hljóma.

Í seinni tíð var bæði dansað og íþróttir stundaðar í Krossinum.

Krossinn, eða hluti hans, í Skagafirði gegnir nú öðru hlutverki, sinnir nú öðrum sauðum.