Rúmfatalagerinn
Rúmfatalagerinn

Mannlíf

Nautið lék óaðfinnanlega á móti Diddú og kýrin fékk ekki sitt
Sagnastundirnar á Garðskaga hafa ávallt verið vel sóttar og salurinn á vetingahúsinu Röstinni þétt setinn. VF/Hilmar Bragi
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
laugardaginn 18. mars 2023 kl. 06:34

Nautið lék óaðfinnanlega á móti Diddú og kýrin fékk ekki sitt

Mikilvægar senur í Brekkukotsannál Nóbelsskáldsins Halldórs Laxness voru teknar upp við Miðhús í Garðinum sumarið 1972. Mikil leikmynd með bænum Brekkukoti var byggð á sjávarkambinum upp af Krókssíkinu og stóð verkefnið yfir í margar vikur. Umfang verkefnisins fyrir rétt um hálfri öld er á pari við það umfang sem sjá hefur mátt hér suður með sjó við tökur á þáttunum True Detective. Brekkukotsannál voru gerð skil í sagnastund á Garðskaga um síðustu helgi. Björn G. Björnsson, leikmyndahönnuður, kom þá og sagði frá verkefninu og sýndi myndir frá leikmyndasmíðinni.
Björn G. Björnsson (t.v.) og Hörður Gíslason.

Hvað réði því að þið komuð hingað í Garðinn árið 1972?

„Við urðum að finna stað til að kvikmynda bæinn í Brekkukoti. Hann stóð við tjörnina í Reykjavík og við vorum að leita að þessum aðstæðum þar sem væri lítil brekka og tjörnin fyrir framan og þetta snéri nokkurn veginn í rétta átt, þannig að við værum á móti birtunni. Við fundum þennan stað og það var leitað til heimamanna og góðfúslega fengið leyfi til að athafna okkur hér vikum og mánuðum saman.“

Hversu umfangsmikið verkefni var þetta?

„Þessi mynd er gríðarlega stór á okkar mælikvarða. Myndin er í tveimur hlutum og rúmur klukkutími hvor. Þetta var tveggja þátta mynd, lítil sería. Þetta var viðamikið að því leyti að það voru margar leikmyndir. Bærinn hér var mikilvægastur og það skipti miklu að finna þennan stað. Þá gátum við byggt ýmislegt annars staðar.“

Hvernig var tekið á móti ykkur hér í Miðhúsum í Garði á sínum tíma?

„Ég man ekki betur en það hafi verið afskaplega ljúft. Það gekk svo vel fyrir sig að ég er næstum því búinn að gleyma því. Allar umleitanir um að mega vera þarna og gera þetta og hitt voru sjálfsagt mál. Það var öll aðstoð veitt, hjálp og reddingar.“

Leikmyndasmiðirnir sem komu í Garðinn að reisa Brekkukotsbæinn við Krókssíkið, sem í dag er oft nefnt Miðhúsasíki, þurftu að vera tímanlega á ferðinni, því leikmyndin og torfbærinn þurftu að gróa áður en tökur hófust. Björn sagði frá því í fyrirlestri sínum á sagnastundinni á Garðskaga að einmuna veðurblíða hafi verið í Garðinum á meðan leikmyndasmíðinni stóð. Þegar svo kom að kvikmyndatökunni brast á með einum mesta rigningarsumri í manna minnum. „Þetta var afskaplega skemmtilegt sumar,“ segir Björn.

Leikarar Brekkukotsannáls komu flestir úr höfuðborginni en einn leikari var eftirtektarverður og hann kom frá Miðhúsum í Garði. Það var nautið hans Torfa í Miðhúsum. Hörður Gíslason, sem stendur að sagnastundinni á Garðskaga ásamt æskufélaga sínum Bárði Bragasyni, sagði skemmtilega sögu af nautinu. Þannig var að Hörður bjó að Sólbakka í Garði, sem er næsta hús við Miðhús. Einn daginn þegar kvikmyndatökur stóðu sem hæst kom Sigurbergur Þorleifsson, vitavörður á Garðskaga, leiðandi utan af skaga kú í bandi. „Það þurfti alla jafna ekki að láta vita og nautið var tiltækt til sinna verka eins og verkast vildi. Þennan dag var nautið að leika í senu með Diddú og það er eftirminnilegt hvað það lék sitt hlutverk vel. Það er skemmst frá það segja að hann leit ekki einu sinni við þegar kýrin kom og hún varð að fara aftur heim eins og hún var þegar hún kom. Það mátti alveg merkja það að hún var ekki sátt við þetta,“ segir Hörður.

Hörður segir að eftir því var tekið hversu Miðhúsafólk tók vel á móti kvikmyndagerðarfólkinu og allir voru boðnir og búnir að veita hjálparhönd eins og þurfti.