Bílakjarninn hekla
Bílakjarninn hekla

Mannlíf

Meginmarkmiðið að íbúar búi í heilsueflandi samfélagi
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
laugardaginn 3. apríl 2021 kl. 07:32

Meginmarkmiðið að íbúar búi í heilsueflandi samfélagi

„Áhersla lögð á andlega, líkamlega og félagslega heilsu í lifandi stefnu,“ segir Guðrún Magnúsdóttir, nýráðinn lýðheilsufræðingur Reykjanesbæjar.

„Með Lýðheilsustefnunni er meginmarkmiðið að íbúar Reykjanesbæjar búi í heilsueflandi samfélagi þar sem áhersla er lögð á andlega, líkamlega og félagslega heilsu,“ segir Guðrún Magnúsdóttir, lýðheilsufræðingur Reykjanesbæjar, en hún tók við starfinu í ársbyrjun 2020. Reykjanesbær er annað sveitarfélagið á Íslandi sem ræður lýðheilsufræðing til starfa.

– Um hvað fjallar Lýðheilsustefna Reykjanesbæjar í grófum dráttum?

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

„Lýðheilsustefnan er lifandi og verður endurskoðuð árlega en birtir áhersluatriði bæjarstjórnar næstu tíu árin. Til hliðsjónar við árlegar endurskoðun verður stuðst við lýðheilsuvísa Embætti landlæknis sem gefnir eru út árlega og veita yfirsýn yfir lýðheilsu í hverju umdæmi fyrir sig í samanburði við landið í heild.

Lýðheilsustefnan og aðgerðar-áætlun tekur mið að því að stuðla að heilsueflandi og fjölskylduvænu samfélagi þar sem umhverfi og aðstæður hvetja til heilbrigðra lifnaðarhátta, bættrar heilsu og vellíðan allra íbúa. Í stefnu sveitarfélagsins er lögð áhersla á að styðja við hæfileika allra íbúa í gegnum öflugt skóla-, íþrótta-, tómstunda- og menningarstarf.

Stefnan er byggð á tillögum lýðheilsuráðs, nefndum og ráðum í Reykjanesbæ ásamt því að hafa kallað eftir íbúum sem tóku þátt við mótun stefnunnar. Markmið stefnunnar byggist á þverfaglegu samstarfi innan sveitarfélagsins sem felur í sér að efla og viðhalda heilsu og vellíðan íbúa á öllum aldursskeiðum.

Stefnan dansar í takt við stefnu Reykjanesbæjar sem nær til ársins 2030. Sú stefna hefur sex stefnuáherslur sem er ætlað að hvetja til verkefna til að styðja við yngri kynslóðina og fjölskyldur þeirra ásamt því að auka lífsgæði og samskipti meðal bæjarbúa, áhersla á umhverfismál, kraftur fjölbreytileikans, sjálfbærni og skilvirkari þjónustu.“

– Hverju vill Reykjanesbær ná fram með lýðheilsustefnu? Hver eru helstu markmiðin?

„Með Lýðheilsustefnunni er meginmarkmiðið að íbúar Reykjanesbæjar búi í heilsueflandi samfélagi þar sem áhersla er lögð á andlega, líkamlega og félagslega heilsu. Aukin og bætt heilsa og vellíðan íbúa skal byggjast á sannreyndri heilsueflingu, forvörnum og aðgengilegri heilbrigðis- og velferðarþjónustu sem styðst við bestu þekkingu á hverjum tíma. Stuðlað verði að jöfnuði innan samfélagsins með tilliti til viðkvæmra hópa í samstarfi við heilsueflandi stofnanir og starfsemi innan sveitarfélagsins.

Undirmarkmið Lýðheilsustefnunnar er aukið samstarf við heilbrigðisþjónustuna innan sveitarfélagsins, aukið aðgengi að heilsueflingu, geðrækt og þekking og öryggi.“

– Hvernig virkar hún, hvar kemur hún helst fram?

„Með því að stefnan sé lifandi er verið að tryggja að markmið hennar fari ekki ofan í skúffu og gleymist. Að hafa árlegt þema í takt við Lýðheilsuvísa Embætti landlæknis má auka það sem betur má gera og/eða grípa inn þar sem þarf. Þegar ákveðið er að stefna sé lifandi er einnig verið að tryggja að þeir sem ábyrgir eru fyrir þeim verkefnum sem stuðla að aukinni heilsu séu meira á tánum varðandi þá þætti sem þarf að efla og bæta. Lýðheilsustefnuna, kynningarmyndband og annað ítarefni  má finna á heimasíðu Reykjanesbæjar, www.reykjanesbaer.is.“

– Hvernig er starf fyrsta lýðheilsufulltrúa Reykjanesbæjar?

„Fjölbreytt og skemmtileg. Fullt af áskorunum og endalaust af spennandi verkefnum í samstarfi við eldklárt og hvetjandi samstarfsfólk. Það hefur verið virkilega gaman að stíga um borð á vinnustað þar sem mikill eldmóður og metnaður er fyrir því að efla og styrkja sveitarfélagið.“

– Hvernig hefur gengið að vinna að nýjum málaflokki á Covid-ári?

„Þetta ár hefur verið allskonar. Margar áskoranir, bæði í leik og starfi. Hlutirnir ekki gerst jafn hratt og maður hefði viljað og mörg verkefni dottið upp fyrir eða frestast vegna Covid. Við höfum reynt að vera lausnamiðuð og jákvæð sem ég tel að hafi gengið vonum framar. Við erum eflaust öll sammála um að það hefði verið ágætt að sleppa Covid eða að ástandið hefði varað aðeins styttra,“ segir Guðrún Magnúsdóttir, lýðheilsufræðingur Reykjanesbæjar.