Leikfélag Keflavíkur
Leikfélag Keflavíkur

Mannlíf

Markmiðið að auka við menningarflóruna í Grindavík með nýju hlaðvarpi
Laugardagur 16. janúar 2021 kl. 09:51

Markmiðið að auka við menningarflóruna í Grindavík með nýju hlaðvarpi

Í lok síðasta árs fór Rödd unga fólksins af stað með nýtt hlaðvarp, fyrsti þátturinn fór í loftið í desember en áður hafði birst kynningarþáttur. Þættirnir eru aðgengilegir bæði á Apple Podcast og -Spotify. Inga Fanney Rúnarsdóttir er einn umsjónarmanna þáttarins og formaður Raddar unga fólksins.

Hlaðvarp eða Podcast hefur í auknum mæli verið að ryðja sér til rúms enda tækjabúnaður ekki ýkja mikill sem þarf til; tölva, hljóðnemi og nettenging.

„Markmið hlaðvarps unga fólksins er að auka við menningarflóruna í Grindavík. Ég, ásamt Sigríði Etnu, Bjarna Þórarni og Karín Ólu erum með yfirumsjón yfir hlaðvarpinu. Við ætlum að fá til okkar Grindvíkinga, unga sem aldna, í létt spjall um heima og geima. Hlaðvarpið ætti að gefa Grindvíkingum góða innsýn inn í líf viðmælanda og stefnan er á að gefa út þátt á ca. þriggja vikna fresti,“ segir Inga Fanney á vef Grindavíkurbæjar. 

Inga Fanney segir hlaðvörp góða leið til heimildarsöfnunar fólks þar sem miklar upplýsingar koma fram á stuttum tíma.

„Rödd unga fólksins hvetur alla, og þá sérstaklega Grindvíkinga, til að hlusta. Ef fólk er með hugmyndir af skemmtilegum viðmælendum þá má alltaf hafa samband við okkur,“ segir Inga Fanney að lokum.