Mannlíf

Maður á ekki að taka alla slagi ...
Kiddi með fjölskylduna. Frá vinstri: Kiddi, tengdadóttirin Margrét Bjarnadóttir, Ísak Ernir með yngsta fjölskyldumeðliminn, Bjarna Þór, Elsa og Steinþóra.
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
mánudaginn 29. júní 2020 kl. 09:26

Maður á ekki að taka alla slagi ...

... þó maður viti betur

Kristinn Óskarsson starfar sem mannauðsstjóri Reykjanesbæjar og hefur flautað mikið á kappleikjum í gegnum tíðina. Kidda fannst lífið snúast um fátt annað en fótbolta og gat fært rök fyrir því að fótboltamenn þyrftu ekki að kunna að lesa. Víkurfréttir tóku Kristinn í netspjall þar sem þetta og fleira kom í ljós.


– Nafn:

Kristinn Óskarsson.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

– Árgangur:

1969.

– Fjölskylduhagir:

Giftur Steinþóru Eir Hjaltadóttur, heilsunuddara og grunnskólakennara, og saman eigum við Ísak og Elsu og Bjarna Þór afastrák.

– Búseta:

Hef bara búið í Keflavík, fyrir utan eitt á á Spáni.

– Hverra manna ertu og hvar upp alinn?

Alsystkini mín þrjú eru Húsvíkingar en ég er fæddur og uppalinn í Keflavík af norðlenskum foreldrum mínum, Óskari á Arney og Elsu sem stýrði bókhaldi og fleiru í fjölskyldufyrirtækinu.

– Starf/nám:

Ég er mannauðsstjóri hjá Reykjanesbæ. Hef menntað mig í kennslu, mannauðsmálum, viðskiptastjórnun og markþjálfun. Svo hef ég leikið á flautu í kappleikjum.

– Hvað er í deiglunni?

Njóta íslenska sumarsins og samveru með fjölskyldunni. Í vinnunni eru næg verkefni og þjóðfélagsmál hvers tíma skapa ýmis verkefni.

– Hvernig nemandi varstu í grunnskóla?

Uppátækjasamur og krefjandi en skilaði mínu oftast ágætlega.

– Hvernig voru framhaldsskólaárin?

Afar skemmtileg. Var upptekinn í íþróttum og félagslífi og á bara góðar minningar.

– Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór?

Ég skildi ekki að til væri eitthvað annað í lífinu en fótbolti! Á góða minningu um rökræður við mömmu þar sem ég færði rök fyrir því að fótboltamenn þyrftu ekki að kunna að lesa.

– Hver var fyrsti bíllinn þinn?

Fimm ára Toyota Corolla.

– Hvernig bíl ertu á í dag?

Átta ára gömlum KIA Ceed. Fínasta eintak.

– Hver er draumabíllinn?

Á mér enga slíka drauma.

– Hvert var uppáhaldsleikfangið þitt þegar þú varst krakki?

Bolti hefur alltaf verið mitt uppáhaldsleikfang og það hefur ekkert breyst. Golf, karfa, fótbolti og handbolti, þetta höfðar allt til mín enn.

– Besti ilmur sem þú finnur:

Ilmurinn af nýþvegnum, útiþurrkuðum og ný-ásettum rúmfötum.

– Hvernig slakarðu á?

Hvað er það? Annars nýt ég þess einstaklega að leika golf í góðum félagsskap. Þá finnast mér samverustundir með fjölskyldunni bestar.

– Hver var uppáhaldstónlistin þín þegar þú varst u.þ.b. sautján ára?

Ég er af Eighties-kynslóðinni og hlustaði á það dót. Ég hlustaði á Duran Duran og Wham en líka á Billy Idol, AC/DC og Gun’s and Roses.

– Uppáhaldstónlistartímabil?

Íslenskt popp frá seinni hluta síðustu aldar! Ég er í handbremsu með íslenska tónlist.

– Hvaða tónlist fær þig til að sperra eyrun þessa dagana?

Helgi Björns, Ingó, Daði, Herra Hnetusmjör, Jói og Króli og fleira íslenskt.

– Hvers konar tónlist var hlustað á á þínu heimili?

Mamma heitin fílaði harmónikkumúsík! En bróðir minn átti fínt plötusafn af alls konar sem ég laumaðist mikið í.

– Leikurðu á hljóðfæri?

Öflugur á ýmis „Luft“-hljóðfæri – en það er ein af eftirsjám lífsins að hafa ekki lært á hljóðfæri.

– Horfirðu mikið á sjónvarp og hvernig?

Horfi nánast eingöngu á íþróttir og þætti um verklegar framkvæmdir. Horfi sjaldan á línulega dagskrá heldur nota íslenskar streymisveitur. Er samt búinn að sjá „The Last Dance“ á Netflix.

– Hverju missirðu helst ekki af í sjónvarpinu?

Fréttum og leikjum Liverpool þegar vel gengur.

– Besta kvikmyndin:

Shawshank Redemption. Þá finnast mér gamlar íslenskar gamanmyndir á borð við Með allt á hreinu, Stellu í orlofi og Nýtt líf skemmtilegar og þá einkum frasarnir sem enn lifa með minni kynslóð.

– Hver er uppáhaldsbókin þín og/eða rithöfundur?

Uppáhaldsbókin mín er um nýsjálenska rúbbý landsliðið „All blacks“, hún heitir Legacy eftir James Kerr. Annars les ég helst bækur mér til fróðleiks fremur en afþreyingar.

– Hvað gerir þú betur en allir aðrir á þínu heimili?

Eftir að hafa spurt aðra heimilsmenn datt þeim ekkert í hug! En ég er fjandi góður að bakka með kerru auk þess að vera nokkuð handlaginn í viðhaldi og framkvæmdum.

– Hvert er snilldarverkið þitt í eldhúsinu?

Geri alveg svakalega góðan pottrétt sem enginn borðar nema ég.

– Hvernig er eggið best?

Klassískt spælt. Ekki skemmir að hafa það með sveittum hamborgara með öllu eða með enskum morgunverði.

– Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari þínu?

Efasemdirnar og endalausu hugmyndirnar sem ásækja mig. Reyni samt að lifa í sem mestri sátt við bæði mig og aðra.

– Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari annarra?

Dómharka og skortur á umburðarlyndi.

– Uppáhaldsmálsháttur eða tilvitnun:

Sometimes it’s not smart to be right! Hef rekist á þetta í lífinu oftar en einu sinni. Maður á ekki að taka alla slagi þó maður viti betur.

– Hver er elsta minningin sem þú átt?

Það er tengt jólum á æskuheimilinu á Greniteigi 13.

– Orð eða frasi sem þú notar of mikið:

Þetta er allt gott, hvað með öðru. Annars vitna ég oft í ýmis heilræði frá móður minni sem poppa upp í hausinn á mér við mismunandi kringumstæður. Hún notaði mikið ýmis orðtök og málshætti.

– Ef þú gætir farið til baka í tíma, hvert færirðu?

Ég færi til að taka samtalið við móður mína sem ég náði ekki að klára.

– Hver væri titillinn á ævisögu þinni?

Ekki er allt sem sýnist. 

– Þú vaknar einn morgun í líkama frægrar manneskju og þarft að dúsa þar einn dag. Hver værirðu til í að vera og hvað myndirðu gera?

Þessi er erfið. Lét mér detta í hug ýmis stórmennin að taka mikilvægar ákvarðanir um að gera heiminn betri en það væri örugglega gaman að velja bara Gæja „Ice Redneck“ og miss’ann upp í spól!

– Hvaða þremur persónum vildirðu bjóða í draumakvöldverð?

Fyrir utan fjölskylduna og gamla félaga, þá myndi ég vilja bjóða Michael Jordan, Tiger Woods og Joey Crawford NBA-dómara. Þetta eru mínar hetjur í sportinu.

– Hvernig hefur þú verið að upplifa árið 2020 hingað til?

Ég varð afi sem er stórkostlegt auk þess sem a.m.k. fjórar aðrar barnsfæðingar eru nálægt mér sem er svo yndislegt. Tek öðrum hörmungum heimsins með jafnaðargeði.

– Er bjartsýni fyrir sumrinu?

Bjartsýni er ekki val heldur lífsstíll. Já, ég er fullur tilhlökkunar.

– Hvað á að gera í sumar?

Eyða tíma með fjölskyldu og vinum, framkvæma, ferðast og leika golf.

– Hvert ferðu í sumarfrí?

Í sumar mun ég vonandi fara hringinn, hef ekki gert það síðan ég var ungur. Svo ætla ég að vera svolítið í bústaðnum.

– Ef þú fengir gesti utan af landi sem hafa aldrei skoðað sig um á Suðurnesjum. Hvert myndir þú fara með þá fyrst og hvað myndir þú helst vilja sýna þeim?

Ég færi með þá stóra Reykjaneshringinn með Garðskagavita sem fyrsta stopp. Hef margsinnis gert það og það klikkar aldrei.

– Ef þú gætir hoppað upp í flugvél og réðir hvert hún færi, þá færirðu ...

... til Ástralíu. Held að maður komist varla lengra. Þá gæti maður líka stoppað á mörgum stöðum á leiðinni þangað og heim.