Lyfta.is
Lyfta.is

Mannlíf

Löngunin til að vera úti á meðal fólks
Þriðjudagur 21. desember 2021 kl. 06:09

Löngunin til að vera úti á meðal fólks

– í grímuskyldu hefur breytt háttalagi fjölskyldunnar

Svanhildur Eiríksdóttir er sérfræðingur á þjónustu- og samskiptasviði hjá Búseta, ritstjóri Faxa og annar þáttastjórnanda hlaðvarpsins Af hverju vissi ég það ekki? Svanhildur segir að nú sé útivistardót efst á óskalistanum, gönguskíðabuxur eða skór fyrir svigskíðin. „Svo er alltaf draumur að fá góða bók. Nú langar mig mest í Cilka´s Journey eftir Heather Morris,“ segir hún í jólaspjalli við Víkurfréttir.

Hvernig hagar þú jólagjafainnkaupum?

Jólagjafainnkaupin eru alltaf mjög vel ígrunduð. Oft er ég búin að spotta viðeigandi jólagjafir handa þeim sem ég vil gefa og kaupi þegar ég á leið um. Margt panta ég á vefnum og sæki næst þegar ég er á ferðinni. Ég hef sem betur fer aldrei lent í vandræðum með neinn og keypt bara eitthvað í pakkann. Í ár var ég búin að kaupa næstum allar gjafir í lok nóvember og hef notið þess að pakka inn í rólegheitum því sem ég sendi til útlanda eða út á land.

Hvað með jólaskreytingar, eru þær fyrr í ár?

Nei, skreytingar verða seinni í ár vegna framkvæmda á heimilinu. Þær áttu svo sem ekki að vera korter í jól en það endaði þannig. Það sem hins vegar hefur verið að gerast fyrr á heimilinu og ég reikna með að þannig verði það einnig í ár er að skreyta jólatréð. Alveg þar til í fyrra var Þorláksmessa skreytingardagur jólatrés en nú vill fjölskyldan njóta þess lengur.

Skreytir þú heimilið mikið?

Nei, ekkert svakalega, en ég reyni oft að bæta einhverju smá við á hverju ári og tek þá frá skraut sem er orðið þreytt. Vænst þykir mér um jólaskrautið sem dætur mínar og tengdamamma hafa fært mér í gegnum tíðina og er búið til af ást og umhyggju. Ég er nokkuð fastheldin á það skraut.

Bakarðu fyrir jólin og ef hvað þá helst? Áttu þér uppáhaldssmáköku?

Já við á heimilinu bökum, ekkert endilega ég, því bæði dætur mínar og eiginmaður eru mjög dugleg við það. Kökur úr minni bernsku eru alltaf í uppáhaldi, piparkökurnar og súkkulaðibitakökurnar sem mamma bakaði. Nú finnst mér heillandi að setja gráðost á piparkökurnar en það tíðkaðist nú ekki í minni ungdómstíð. Svo eru lakkrístoppar og mömmukökkur yfirleitt í kökudunkum heimilisins.

Eru fastar jólahefðir hjá þér?

Ekki beint, þó sumt sé vissulega í föstum skorðum. Mesta hefðin er sennilega sú að þegar við hjúin vorum að hefja okkar búskap fyrir margt löngu reyndi eiginmaðurinn að telja mér trú um að það væri góður kostur að kaupa gervijólatré. Ég hélt nú ekki, lifandi og ilmandi skyldi það vera. Hann setti þá það skilyrði að tréð yrði alltaf að vera stærri en hann. Þeir sem til þekkja vita að hann er stór og stæðilegur, bústinn og baldinn, þannig að tréð er alltaf bæði hátt og fyrirferðarmikið.

Hvernig er aðventan - hefðir þar?

Við fjölskyldan reynum alltaf að eiga notalegar samverustundir. Það hefur stundum reynst erfitt þegar dætur hafa verið í skóla fjarri heimili og prófannir eru oft á aðventu. Ef það eru ekki heimastundir með bakstri, skemmtilegri jólamynd eða gripið í spil þá förum við saman á tónleika og út að borða. Í ár verður sá skemmtidagur rétt fyrir jólin.

Í sjálfu sér hefur Covid ekki truflað undirbúning jólanna en löngunin til að vera úti á meðal fólks í grímuskyldu hefur breytt háttalagi fjölskyldunnar. Heimsfaraldur breytti jólahaldi í fyrra sem átti að verða með vinum í Bandaríkjunum en þá var ferðamönnum meinað að koma. Nú þegar heimildin er til staðar eru aðstæður í fjölskyldunni með þeim hætti að við getum ekki notið gestrisni þeirra.

Hver eru fyrstu jólin sem þú manst eftir? Áttu skemmtilega jólaminningu?

Ég á enga afgerandi jólaminningu úr æsku, bara svona glefsur hér og þar. Hins vegar var ég svo heppin að alast upp í stórum systkinahópi þannig að manni leiddist aldrei og áttum okkur á því að tíðarandinn  var annað, lítið annað að gera en njóta samvista með fjölskyldunni. Við spiluðum mikið þó það hafi verið stranglega bannað á aðfangadag, horfðum á jóladagskrána og nutum sætindanna sem voru í boði.

Ein allra skemmtilegasta jólaminningin tengist vinkonum mínum Helgu Birnu og Sigrúnu frá uppvaxtarárum okkar í Garði. Eina aðventuna settum við saman hefti með skemmtilegum jólalögum og gengum svo um og sungum fyrir fólk utan við fjölfarna staði eins og búðina og pósthúsið, en gengum líka bara um göturnar og sungum. Þetta sönghefti hefur alltaf yljað mér um hjartarætur.

Hefurðu sótt messu um jólahátíðirnar í gegnum tíðina?

Já, það hef ég gert þó nokkuð af. Mér finnst alltaf mjög hátíðlegt að fara í messu á jólahátíðinni og auk þess að hafa fylgt dætrum í þátttöku þeirra í helgileikjum hefur maðurinn minn lengi sungið í kór og kvartett og hann er oft að syngja í Keflavíkurkirkju í jólamessum.

Góð jólaminning úr æsku tengist einmitt þátttöku minni í hátíðarmessu þar sem bjöllukór sem ég var meðlimur í, spilaði í Útskálakirkju. Mér finnst bjöllur sérstaklega hátíðlegar og þessi viðburður jók á hátíðleikann í mínum huga.

Eftirminnilegasta jólagjöfin?

Það er sennilega bílabrautin sem ég suðaði út í æsku og varð fyrir miklum vonbrigðum með. Bílarnir hentust alltaf upp úr brautinni (sennilega af því að ég ók þeim of hratt) og gjöfin varð eftir allt skammgóður vermir.

Er eitthvað sérstakt sem þig langar að fá í jólagjöf?

Ég hef alltaf verið svo lánsöm að fá akkúrat það sem mig langar í, hef aldrei skipt eða skilað jólagjöf nema einni, rafmagnsdósaupptakara sem ég sá ekki að ég hefði mikla not fyrir í búskapnum og skipti yfir í meira þarfaþing.

Nú er útivistardót efst á óskalistanum, gönguskíðabuxur eða skór fyrir svigskíðin. Svo er alltaf draumur að fá góða bók. Nú langar mig mest í Cilka´s Journey eftir Heather Morris.

Hvað verður í jólamatinn hjá þér á aðfangadagskvöld? Eru hefðir í mat?

Það eru aðallega dætur mínar sem eru fastheldar á mat. Ef þær hafa ekki verið grænmetisætur þá kemur lítið annað til greina en hamborgarhryggur með tilheyrandi meðlæti, steiktum ananas, brúnuðum kartöflum, sósu og salati. Mörg undanfarin ár höfum við einnig haft hnetu-steik á boðstólnum og nýtt þá sama meðlæti. Sjálf vil ég ekki mikið af reyktu kjöti og læt því hangikjötið á jóladag nægja í reyktum matvælum.