Mannlíf

Ljósanótt í höndum íbúa
Föstudagur 24. júlí 2020 kl. 16:41

Ljósanótt í höndum íbúa

Fjölskyldu- og menningarhátíðin Ljósanótt fer fram dagana 2. – 6. september með breyttu sniði vegna Covid-19.  Dagskráin verður aðlöguð að þeim fjöldatakmörkunum sem í gildi verða þannig að fólksfjöldanum er dreift um bæinn til þess að gæta að öryggi hátíðargesta.

Framlag bæjarbúa í dagskrá hátíðarinnar hefur ávallt skipað stóran sess við hátíðarhöldin og gert Ljósanótt að einni glæsilegustu bæjarhátíð landsins. Kröftug menningardagskrá í Höfnum, tónleikaröðin Með blik í auga og heimatónleikar í gamla bænum eru dæmi um íbúaframtak sem hefur heppnast virkilega vel. Í ár vill Reykjanesbær stuðla að enn öflugri þátttöku bæjarbúa, félaga og fyrirtækja með því að veita kraftmiklum hugmyndasmiðum sem vilja standa fyrir skemmtilegum viðburði á Ljósanótt styrki úr nýstofnuðum Ljósanætursjóði Reykjanesbæjar.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Hægt er að sækja um allt að 500.000 króna styrk fyrir framkvæmd á vel útfærðri og góðri hugmynd að viðburði fyrir gesti Ljósanætur. Allar upplýsingar um hátíðina og styrkveitingar er að finna á vefsíðu Ljósanætur.

Umsóknarfrestur er til og með 10. ágúst 2020 og sótt er um stafrænt á heimasíðunni https://www.ljosanott.is/