Mannlíf

Lionsklúbbur Keflavíkur setur umhverfismál á oddinn
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
laugardaginn 9. október 2021 kl. 06:29

Lionsklúbbur Keflavíkur setur umhverfismál á oddinn

á 65 ára afmælinu. Leitar eftir nýjum félögum til að halda lífi í klúbbnum

Lionsklúbbur Keflavíkur var stofnaður í apríl árið 1956 og er því 65 ára um þessar mundir. Klúbburinn hefur frá upphafi starfað með öflugum hætti að ýmsum góðgerðarmálum í Keflavík og nágrenni í takt við áherslur alþjóðasamtaka Lions. 

Klúbburinn í Keflavík má hins vegar muna sinn fífil fegurri hvað varðar fjölda félagsmanna. Á árum áður voru yfir 60 meðlimir en þeir eru nú tuttugu og þar af er einn stofnfélagi. Þeir vonast eftir að fá nýja félaga til liðs við sig.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

„Það er ljóst að við þurfum á aðstoð Suðurnesjamanna að halda til þess að tryggja þessu mikilvæga verkefni brautargengi til lengri tíma. Meðlimir klúbbsins eru sjálfboðaliðar og inntökuskilyrði geta ekki verið einfaldari. Að vilja starfa að góðgerðamálum án tillits til kyns, stjórnmála-, lífs- eða trúarskoðana. Klúbburinn er þannig í raun öllum opinn. Ef þú vilt leggja þitt lóð á vogarskálarnar í þágu umhverfisins er hér kjörið tækifæri til að leggja lið. Við tökum vel á móti öllum. Hafa má samband gegnum Facebook, með tölvupósti eða síma,“ segir Rafn Benediktsson, formaður Lionsklúbbs Keflavíkur. 

Áherslurnar eru um þessar mundir, að sögn formannsins, sykursýki, krabbamein barna, hungur, sjónvernd og umhverfismál.

„Fjáröflunarleiðir okkar hafa gegnum tíðina verið afar fjölbreyttar en undanfarin ár hefur hið rómaða sjávarréttahlaðborð (kútmagakvöld) verið helsta fjáröflunarleið okkar. Því miður féll sá viðburður niður síðastliðinn vetur vegna veirunnar skæðu.Umhverfismál hafa lengi verið okkur sérstaklega hugleikin og við staðið fyrir trjárækt víða á Suðurnesjum. Dæmi um það er á Vatnsholtinu þar sem er nú er fallegur lundur og minnismerki um gengna félaga. Loftslagsmálin hafa reyndar aldrei verið mikilvægari en nú og því hefur klúbburinn á afmælisárinu stofnað til nýs metnaðarfulls verkefnis í samvinnu við Kolvið og Skógræktarfélag Suðurnesja. Það snýst um að hvetja einstaklinga og fyrirtæki á Suðurnesjum til þess að binda kolefni í gegnum Kolvið (www.kolvidur.is) og í nafni Lionsklúbbsins. Þannig rennur hluti kolefnisjöfnunar einstaklinga og fyrirtækja til Lionsklúbbs Keflavíkur sem aftur mun í samvinnu við Skógræktarfélagið stuðla að aukinni trjárækt á Suðurnesjum, nánar tiltekið við Seltjörn,“ segir Rafn.

Hér að neðan má sjá mynd frá undirbúningi Lionsmanna fyrir kútmagakvöld og skemmtilegt innslag sem tekið var 2013.