ísbúð garðarbæjar
ísbúð garðarbæjar

Mannlíf

Karen listamaður Reykjanesbæjar 2022-2024
Karen J. Sturlaugsson tók við verðlaununum á þjóðhátíðardaginn. Björn Sturlaugsson, maður hennar er til vinstri. VF-mynd/pket.
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
sunnudaginn 19. júní 2022 kl. 15:48

Karen listamaður Reykjanesbæjar 2022-2024

Karen J. Sturlaugsson, tónlistarmaður var valinn listamaður Reykjanesbæjar 2022-2026 og fór útnefningin fram við hátíðarhöldin í skrúðgarðinum í Keflavík 17. júní. Ákvörðunin var kynnt á fundi Bæjarráðs Reykjanesbæjar 19. maí sl.

Þeir sem hlotið hafa nafnbótina listamaður Reykjanesbæjar til þessa eru í réttri röð : Margrét Soffía Björnsdóttir (Sossa), myndlistarmaður, Gunnar Eyjólfsson, leikari, Rúnar Júlíusson, tónlistarmaður, Ragnheiður Skúladóttir, píanóleikari, Sigurður Sævarsson, tónskáld og Eiríkur Árni Sigtryggsson tónskáld og listmálari.

Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir, forseti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar greindi frá kjörinu og flutti jafnframt eftirfarandi tölu á þjóðhátíðardaginn:

„Listamaður Reykjanesbæjar hlýtur 750 þúsund króna styrk, viðurkenningarskjal og grip til minningar um atburðinn. Þá er nafn hans skráð á stall listaverks Erlings Jónssonar,  sem stendur hér í skrúðgarðinum. Listamanni Reykjanesbæjar er skylt að halda sýningu eða kynna á annan hátt list sína. Gripurinn sem listamaður Reykjanesbæjar hlýtur að þessu sinni er eftir keramik hönnuðinn Arnbjörgu Drífu Káradóttur sem  bjó til verðlaunagripinn fyrir þetta tilefni.  Verðlaunagripurinn ber nafnið Vöxtur. Gripurinn er unninn úr leir og situr á furustalli. Drífa sækir innblástur sinn í þekkt grunnstef listsköpunar, vöxt, líf, leik og gleði sem og sjóinn á Reykjanesinu í náttúrulegum formum sem hún nefnir lífanga. Litaþemað er jarðlitur leirsins og Reykjanesskagans, blár litur hafsins og Reykjanesbæjar og rauði litur eldvirkninnar á Reykjanesi.

Karen Janine Sturlaugsson fæddist og ólst upp í nágrenni Boston, Massachusetts, en hún á ættir að rekja til ÍslandsHún lauk háskólaprófi frá bandarískum háskóla í tónlist; nánar tiltekið trompetleik og hljómsveitarstjórn og stærðfræði.  Að háskólanámi loknu fluttist Karen til Íslands,  þá nýgift eiginmanni sínum Birni Sturlaugssyni.  Karen hóf kennslu við Tónlistarskólann í Keflavík árið 1988 og var skólastjóri 1998-1999. Hún hefur starfað sem aðstoðarskólastjóri Tónlistarskóla Reykjanesbæjar síðan 1999.   

Karen hefur unnið við tónlistarkennslu og hljómsveitarstjórn í gegnum árin og byrjaði 16 ára að stjórna lúðrasveit. Fljótlega eftir að Karen hóf kennslu við Tónlistarskólann í Keflavík árið 1988 tók hún við lúðrasveit skólans. Sama ár stofnaði Karen Léttsveit Tónlistarskólans í Keflavík sem síðar varð Léttsveit Tónlistarskóla Reykjanesbæjar. Þaðan hefur hún nú þróast í nokkurs konar Léttsveit eldri og fyrrum nemenda og er betur þekkt sem Stórsveit Suðurnesja. 

Árið 2012 stofnaði Karen Bjöllukór Tónlistarskóla Reykjanesbæjar og nú stýrir hún annarri og þriðju kynslóð bjöllukórsins. Bjöllukórinn hefur tekið þátt í jólatónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands s.l. 10 ár og er orðinn ómissandi hlutur þeirra tónleika.  Kórinn var einnig fenginn til að taka þátt í tónleikum árið 2015 í Carnegie Hall í New York.  Þá hefur Bjöllukórinn tekið upp plötu fyrir Sigur Rós, plötuna Klukk árið 2018, eftir skemmtilegt samstarf árið á undan þar sem bjöllukórinn hitaði upp fyrir tónleika Sigur Rósar í Toronto. Kórnum bauðst einnig að halda tónleika á sérstakri Sigur Rósar hátíð, Norður og niður, í Hörpu í desember 2017. Og í ágúst næstkomandi er bjöllukórinn svo á leið á heimsmót bjöllukóra í Nashville Tennessee.

Hljómsveitir Karenar hafa verið mjög virkar í gegnum árin og tekið virkan þátt í menningarlífi hér í Reykjanesbæ t.d. í kringum jólin og við aðrar hátíðir og viðburði árið um kring. Þá hafa hljómsveitirnar líka komið víða við á hljómsveitamótum og tónleikum og ferðast til fjölda landa. 

Karen hefur einnig stjórnað hljómsveitum í ýmsum söngleikjum á vegum tónlistarskólanna, nú síðast Fiðlaranum á þakinu. Þá hefur hún einnig átt samstarf við marga kóra og hljómsveitir, t.d. Kvennakór Suðurnesja og Karlakór Keflavíkur.

Síðan 2018 hefur Karen stjórnað Lúðrasveit Verkalýðsins, stórri áhugamannalúðrasveit í Reykjavík sem hefur núna í lok júní verið boðið að taka þátt í lúðrasveitamóti á Ítalíu.

Það eru mörg verkefni framundan hjá Karen og hljómsveitum hennar. Stóra verkefni haustsins eru tónleikar tónlistarskóla Reykjanesbæjar og Lúðrasveitar Verkalýðsins sem munu í samvinnu halda tónleika með ungum einleikurum í nóvember.

Á löngum ferli Karenar sem tónlistarkennara og stjórnanda hafa nokkrar kynslóðir nemenda verið svo heppnar að hafa fengið að njóta leiðsagnar og kennslu hennar. Öllum nemendum Karenar ber saman um að hún sé einstök og það eru fáir sem leggja jafn mikla alúð og hún í störf sín. Karen hefur skilað af sér stórum hópi nemenda sem margir hverjir hafa haldið í áframhaldandi tónlistarnám og ýmist snúið til baka til kennslu í Tónlistarskóla Reykjanesbæjar eða haldið áfram að auðga tónlistarlíf bæði hér á Íslandi og út um heim.

Bæjaryfirvöld í Reykjanesbæ færa Karen bestu þakkir fyrir árangursríkt og mikilsvert starf í þágu barna, ungmenna og menningarlífs Reykjanesbæjar. Karen á vonandi eftir að starfa lengi sem aðstoðarskólastjóri, kennari og hljómsveitarstjóri og getur sem slík haldið áfram að auðga mannlífið í Reykjanesbæ. 

Karen hefur lagt mikið af mörkum á sviði tónlistar og hefur átt ríkan þátt í að litið er til Reykjanesbæjar sem menningarbæjar.

Til hamingju Karen!“

Nafn bæjarlistamanns Reykjanesbæjar er skráð á stall listaverks Erlings Jónssonar,  sem stendur í skrúðgarðinum.

Karen tekur við viðurkenningunni úr höndum Kjartans Más Kjartanssonar, bæjarstjóra. Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir, forseti bæjarstjórnar er í púlti.