Rétturinn atvinna
Rétturinn atvinna

Mannlíf

Í Kóvinu á leið til Kóreu
Svanhvít Ósk Snorradóttir. Mynd úr einkasafni
Thelma Hrund Hermannsdóttir
Thelma Hrund Hermannsdóttir skrifar
þriðjudaginn 6. september 2022 kl. 11:00

Í Kóvinu á leið til Kóreu

„Ég bara hágrét inni á hótelherbergi, ein í New York,“ segir Svanhvít Ósk Snorradóttir.

Svanhvít er 23 ára og kemur frá Keflavík. Hún er að læra lífeindafræði við Háskóla Íslands en hún nýtir frítíma sinn í að fara í ræktina og læra kóresku. Svanhvít hefur alltaf verið heilluð af asískri menningu og í byrjun árs ákvað hún að láta draum sinn rætast og fara til Suður-Kóreu en hún dvaldi þar í þrjá mánuði.

„Vinkona mín kom mér inn í KPOP tónlist og eftir það varð ég ástfangin af tónlistinni og tungumálinu. Ég byrjaði líka að horfa á K-drama og læra tungumálið og svo það kom eiginlega ekkert annað til greina en að fara þangað og upplifa þetta sjálf,“ segir Svanhvít. 

Svanhvít ásamt vinkonum sínum í Suður-Kóreu

Úti í Kóreu bjó Svanhvít með sex stelpum sem komu víðsvegar að úr heiminum. Þá segist hún lítið annað hafa gert í Kóreu en að „lifa og njóta“ með vinum.

„Ég var mikið að fara og skoða helstu ferðamannastaðina, fór í fjallgöngur og borðaði góðan mat. Svo fór ég auðvitað til Norður-Kóreu,“ segir Svanhvít og bætir við: „Það var geggjað, ég hef alltaf viljað fara þangað og sjá hvernig þetta er. Við fórum á safn og ég fékk að horfa út í gegnum kíki, maður sá svo sem bara hús og vinnandi fólk en það var samt geggjað því það gerði þetta allt svo miklu raunverulegra.“

Norður Kórea. Mynd úr einkasafni Svanhvítar

Hefur ekki enn fengið niðurstöður úr PCR-prófi

Covid hafði áhrif á ferðalög margra á síðustu árum og var ferð Svanhvítar engin undantekning. Þannig er mál með vexti að Svanhvít byrjaði ferðalag sitt í Bandaríkjunum þar sem hún heimsótti vinkonur sínar sem stunda nám þar. Hún ætlaði einnig að fara á tónleika en daginn eftir þá átti hún flug til Kóreu. 

„Degi fyrir brottför fór ég í PCR-próf og um kvöldið sama dag átti ég miða á tónleika með K-pop grúbbunni ATEEZ. Ég var búin að bíða lengi eftir að komast á þessa tónleika og rétt fyrir þá fæ ég símtal þar sem mér er sagt að ég hafi fengið jákvæðar niðurstöður úr PCR-prófinu. Ég bara hágrét inni á hótelherbergi, ein í New York. Ég hringdi svo í alla nánustu og sagði þeim hvað væri að gerast en þetta þýddi að ég gæti ekki farið á tónleikana og ekki farið til Kóreu næsta dag,“ segir Svanhvít.

Svanhvít keypti sér annan flugmiða í kjölfarið og fór í annað PCR-próf tveimur dögum fyrir brottför. Þegar ferðadagurinn rann upp voru engar niðurstöður komnar úr prófinu. Svanhvít ákvað samt sem áður að ríða á vaðið og mætti upp á flugvöll. Henni til mikillar ánægju var boðið upp á slík próf á flugvellinum en hún fékk neikvæðar niðurstöður úr því prófi aðeins klukkutíma fyrir brottför. Þess má geta að Svanhvít hefur ekki enn fengið niðurstöður úr fyrra prófinu.

Þrátt fyrir að Covid hafi sett strik í reikninginn segir Svanhvít faraldurinn ekki hafa litað dvöl hennar í Kóreu. „Covid hafði þannig séð ekki mikil áhrif en það var ennþá grímuskylda og takmarkanir á meðan ég var úti. Það þurfti að vísu alltaf að vera með grímu þegar maður fór út úr húsi og allt lokaði klukkan 23:00. Ég fann það til að byrja með að fólk var ennþá hrætt við Covid en þegar leið á fór það minnkandi. Um það leyti sem ég var að fara heim voru flestallar takmarkanir afnumdar,“ segir Svanhvít. 

Aðspurð hvort hún muni snúa aftur til Suður-Kóreu segir hún: „Já bókað mál. Hvort sem það verði heimsókn, fyrir skóla eða vinnu, kemur í ljós. Ég var einmitt að sækja um að fara út í skiptinám til Kóreu á næsta ári svo vonandi gengur það upp.“

Mynd úr einkasafni Svanhvítar