Sporthúsið
Sporthúsið

Mannlíf

Hólmfríður á hliðarlínunni
Sunnudagur 19. september 2021 kl. 08:14

Hólmfríður á hliðarlínunni

Hólmfríður Árnadóttir, skólastjóri í Sandgerði, reynir nú fyrir sér í landspólitík og hefur sinnt kosningabaráttu síðustu vikurnar. Hún varði sumrinu mikið á hliðarlínunni í fótboltaleikjum en segir mikinn frumkraft í Suðurnesjamönnum en afrek hennar á heimilinu eru færri að undanförnu, sérstaklega þegar hún þarf að sinna öðrum málum í pólitíkinni.

Hvernig varðir þú sumarfríinu?

„Ég varði sumrinu á hliðarlínunni á fótboltamótum og -leikjum að styðja og hvetja yngstu synina og félögin okkar, Reyni í Sandgerði og Keflavíkurliðin, bæði karla og kvenna, ásamt því að sækja nágrannaliðin heim. Ég hljóp dálítið og vann meira en vanalega þar sem ég hef verið í leyfi frá störfum vegna kosningabaráttunnar þessar vikurnar og fannst ég þurfa að undirbúa haustið vel fyrir afleysingu. Ég var líka dugleg að rækta vináttu með matarboðum og góðum félagsskap og skrapp tvisvar í veiði en veiddi ekki bröndu! Svo hef ég auðvitað henst út og suður um mitt fallega kjördæmi enda endalaus tækifæri til að hitta menn og ræða málefni.“

Hvað kom skemmtilega á óvart í sumar?

„Hvað við eigum endalaust dásamlega staði um allt kjördæmi og um Suðurnes, hvað fólk er frábært og uppbygging og kraftur víða. Ég er endalaust stolt af sveitungum mínum sem taka öllum áföllum sem verkefni, bretta upp ermar og halda ótrauðir áfram. Hve mikil gróska og frumkraftur er í Suðurnesjabúum, hvað vel er tekið á móti nýju fólki og enda hvergi betra að búa en hér.“

Áttu þér uppáhaldsstað til að sækja heim innanlands?

„Það er alltaf gaman að fara til norður á Húsavík og svo auðvitað til Akureyrar og Grenivíkur á fyrrum heimaslóðir.“

Hver er helstu afrek þín á heimilinu í hverri viku?

„Hóst, ég er svo heppin að flestir ganga vel um á heimilinu og eiginmaðurinn ber hitann og þungann af heimilisstörfum þetta misserið en að setja róbótann af stað þegar ég kem heim er fastur liður og eflaust mitt helsta framlag til húsverka, já og reyndar blómin mín. Þau þarf að hugsa um og vökva reglulega.“

Uppáhaldsmatur?

„Vel grillaðar kótilettur eru það þessa dagana. Annars er ég mikið matargat og finnst margt gott, til dæmis grillaður silungur með kartöflum og smjöri, nautalund og bernaise, gæti haldið endalaust áfram sko!“

Hver er þinn styrkur í matreiðslunni?

„Að vera ekki fyrir í eldhúsinu! Annars elda ég bæði mjög gott lasagne og geri sjúllaðan plokkfisk, mínir diskar eins og sagt er.“

Notaðir þú sumarfríið eitthvað til að undirbúa kosningabaráttuna?

„Ójá, fór víða og reyndi að kynna mér og lesa um allt milli himins og jarðar um menn og málefni.“

Hver er tilfinningin fyrir komandi alþingiskosningum og kosningabaráttunni?

„Hún er góð. Fólk er gott og tekur okkur vel, allir til í samtalið og að gefa sér tíma. Það er líka gríðarlega góð stemmning í VG, grasrótarstarfið þaðan sem ég kem hefur verið svakalega öflugt og afkastamikið. Við förum vel nestuð í kosningabaráttu með frábærum stefnumálum og áherslum og ekki skemma góð störf okkar ráðherra fyrir það er með ólíkindum hve vel hefur tekist að halda samfélaginu gangandi, fagmennska og fræði í fyrirrúmi en einnig hafa vextir haldist lágir og kaupmáttur hefur aukist sem er lygilegt. Þá hafa aðgerðir varðandi faraldur verið til fyrirmyndar enda kvíði ég engu með Katrínu Jakobsdóttur við stjórnvölinn og vona að það verði sem lengst.“

Hveru eru stærstu málin fyrir Suðurnesin sem þú setur í forgang?

„Klárlega atvinnumálin, þar þurfum við að auka fjölbreytni í atvinnulífi og byggja upp sjálfbæra atvinnustarfsemi með áherslu á græn störf. Heilbrigðismálin eru einnig mikilvæg og næsta skref er að byggja nýja heilsugæslu á Suðurnesjum, fella niður greiðsluþátttöku þjónustuþega og setja tannlækningar þar undir um leið og við horfum sérstaklega til þess að efla hlut geðheilbrigðisþjónustu. Menntamálin eru einnig afar mikilvæg og þar þarf að horfa til fjölbreyttari valmöguleika fyrir alla framhalds- og háskólanema en einnig framhaldsfræðslu og tryggja að námsframboð séu í raun fyrir alla og horfa þar til aukins fjarnáms og eflingu verknáms. Við þurfum líka að efla félagslega húsnæðiskerfið svo allir eigi möguleika á að eiga öruggan samastað um leið og við þurfum að koma að því með sveitarfélögum að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla.“

Hvert er draumaríkisstjórnarsamstarf þitt?

„Samstarf þar sem málefnin lúta að mannsæmandi lífi fyrir okkur öll með áherslu á félagslegt réttlæti, jöfnuð og öfluga opinbera þjónustu. Þar sem loftlagsaðgerðir eru í hávegum hafðar og markmið okkar í VG þar um hafðar að leiðarljósi. Þar sem á róttækan hátt yrði tekið á kynbundnu ofbeldi og jafnrétti manna og byggða væri í öndvegi. Þar sem nýsköpun og menntun yrðu efld enn frekar út frá velferð, fjölbreytni og byggðajafnrétti. Þar sem börn liðu ekki skort og innflytjendur finndu fyrir að þeir eru velkomnir og styðjandi kerfi væru þar um. Þar sem skattkerfið yrði notað til að jafna kjör og styðja við þá efnaminni og fjölbreytt atvinnulíf fengi að þrífast.“