Vilhjálmur Árnason
Vilhjálmur Árnason

Mannlíf

Fristundir.is sameinar allt  frístundastarf á Suðurnesjum
Rut Sigurðardóttir leiddi verkefnið Fristundir.is
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
þriðjudaginn 23. febrúar 2021 kl. 07:41

Fristundir.is sameinar allt frístundastarf á Suðurnesjum

Frístundavefur Reykjaness hefur að geyma upplýsingar um frístundastarf fyrir alla aldurshópa sem í boði er á öllum sveitarfélögum á Suðurnesjum. Hægt er að skoða framboð eftir aldri og eftir staðsetningu. Á vefnum má einnig finna hugmyndir af skemmtilegum stöðum fyrir útivist og samveru. Rut Sigurðardóttir, deildarstjóri frístundadeildar Suðurnesjabæjar, hefur m.a. leitt vinnu við síðuna en verkefnið fékk styrk frá Sambandi sveitarfélaga á Suðurnesjum.

„Fristundir.is er ný frístundasíða sem er upplýsingavefur fyrir allt það frístundastarf sem í boði er á Suðurnesjum fyrir alla aldurshópa. Við vildum gera nýja vefsíðu sem væri aðgengileg og auðvelt að finna hvað væri í boði.“

Sólning
Sólning

– Var það hugmyndin, að sýna framboðið á einni síðu?

„Já. Fólk og krakkar eru að sækja frístundir á milli sveitarfélaga og því er aðgengilegast að hafa þetta allt á einum stað.“

– Hvernig gekk vinnan við síðuna?

„Hún gekk mjög vel og allir sammála um að hafa þetta svona aðgengilegt og við erum ótrúlega ánægð með útkomuna.“

– Það er mikið framboð af frístundastarfi og í raun fátt sem ekki er í boði á Suðurnesjum?

„Já, við getum sagt það. Það er mjög fjölbreytt framboð fyrir alla aldurshópa. Það er því um að gera að skoða síðuna vel – og ef fólk er með eitthvað í boði sem er ekki inni á síðunni okkar, þá hvetjum við til þess að haft sé samband við okkur, svo því verði bætt á síðuna.“

– Er markmiðið líka að hvetja til hreyfingar?

„Að sjálfsögðu. Þeir sem standa að því að þessi síða var sett í loftið er samráðshópur um heilsueflandi samfélag á Suðurnesjum og við erum markvisst að vinna að því að efla heilsu íbúa á Suðurnesjum. Það er einmitt einn hluti af síðunni sem heitir útivist og samvera þar sem við erum með allskonar hugmyndir að stöðum og verkefnum fyrir fjölskyldur til að efla sína heilsu eða vera úti í náttúrunni í samveru.“

– Þið eruð með öll sveitarfélögin inni í þessu. Er það algengt að fólk sé að sækja frístundir á milli sveitarfélaga?

„Já, sérstaklega er það úr minni sveitarfélögum því framboðið er mest í Reykjanesbæ en að eru líka dæmi um hitt. Það er mjög jákvætt að vinna saman að þessu.“

– Síðan er aldursskipt og það er hægt að skoða hvert sveitarfélag fyrir sig og hvað er í boði þar. Þetta höfðar til margra og það hefur verið markmiðið.

„Að sjálfsögðu. Við viljum að hver sem er af íbúum Suðurnesja geti farið þarna inn og fundið sér eitthvað skemmtilegt að gera og það sé við hans hæfi. Markmiðið er að hafa allt sem er í boði fyrir alla aldurshópa á Suðurnesjum þarna inni.“

– Þetta er mikið verkefni og þið létuð gera myndskeið með mörgu af því sem er í boði.

„Við gerðum kynningarmyndband með myndum úr hreyfingu og íþróttum sem er í boði á svæðinu til að auglýsa síðuna og það tókst vel til. Við fengum líka styrk frá Sambandi sveitarfélaga á Suðurnesjum en þetta er hluti af aðgerðaáætlun sambandsins varðandi vaxandi Suðurnes. Styrkurinn frá sambandinu er ástæða þess að við gátum unnið að þessari vefsíðu.“

– Nú tengist þú sjálf mikið íþróttastarfi. Hver er tilfinning þín og ykkar sem eruð í framlínunni varðandi þátttöku barna og ungmenna í íþróttum, liggur það beint við að allir fari í íþróttir eða er það ekki þróunin?

„Það eru margir sem stunda íþróttir á ákveðnum aldri og alltaf að aukast framboðið fyrir þá sem eru yngstir. Það eru samt alltaf sömu áhyggjurnar er varða börn sem eru af erlendum uppruna og eins með unglingana að halda þeim sem lengst inni í íþróttunum og það eru áskoranir sem við erum að eiga við. Einnig hefur Covid sett strik í reikninginn og þátttaka í íþróttastarfi hefur dofnað í þessu ástandi og það er áskorun sem við þurfum að takast á við núna og snúa því við.“

– Hér er stórt hlutfall fólks af erlendum uppruna. Er að ganga betur að ná til þeirra?

„Það er alltaf að ganga betur en það er langt í land að ná öllum með, eins og við viljum hafa það.“

– Þannig að þið eruð sátt við útkomuna?

„Við erum ótrúlega sátt með útkomuna og styrkinn sem við fengum í þetta verkefni. Við ætlum að halda áfram að bæta við og gera síðuna virkari og fjölbreyttara framboð af frístundastarfi. Við óskum eftir samstarfi við tómstunda- og íþróttafélög varðandi það að hafa alltaf réttar upplýsingar og að fá upplýsingar um það sem er í boði hverju sinni. Við viljum að Fristundir.is sé alltaf með réttum upplýsingum og það þarf samstarf margra aðila svo það gangi upp.“