Bílakjarninn hekla
Bílakjarninn hekla

Mannlíf

Fólk þarf að fá tækifæri til að sanna sig
Marta Eiríksdóttir
Marta Eiríksdóttir skrifar
laugardaginn 12. október 2019 kl. 07:19

Fólk þarf að fá tækifæri til að sanna sig

Vinnumálastofnun biðlar til fyrirtækja

Við viljum líklega öll hafa hlutverk í samfélaginu. Það getur verið erfitt fyrir einstaklinga með skerta starfsgetu að komast að á hinum almenna vinnumarkaði. Þess vegna hefur Fyrirmyndardagur Vinnumálastofnunar verið haldinn árlega frá árinu 2014. Þann dag notar Vinnumálastofnun á Suðurnesjum til þess að vekja athygli á atvinnumálum og þörfinni á því að atvinnuleitendur með skerta starfsgetu fái aukin tækifæri.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Viltu bjóða gestastarfsmanni vinnu í einn dag?

Þátttaka atvinnurekenda á Fyrirmyndardaginn felst í því að bjóða til sín atvinnuleitanda með skerta starfsgetu í einn dag eða hluta úr degi. Með því fá þessir starfsmenn innsýn í fjölbreytt störf og starfsmenn fyrirtækja kynnast styrkleikum atvinnuleitenda með skerta starfsgetu.

Víkurfréttir hittu að máli Guðmann Rúnar Lúðvíksson, atvinnuráðgjafa hjá Vinnumálastofnun Suðurnesja, sem er tengiliður við fyrirtæki sem óska eftir því að veita einstaklingum með skerta starfsgetu tækifæri til að starfa hjá sér.

„Með þessum degi viljum við vekja athygli á og kynna fyrirtæki sem vilja bjóða til sín í heimsókn í hálfan dag eða heilan, mánudaginn þann 14. október. Upphaflega var þessi dagur hugsaður til að fyrirtæki uppgötvi hæfileika þeirra sem búa við skerta starfsgetu. Fólk þarf að fá tækifæri, það þarf að fá að prófa og sýna hvað í þeim býr,“ segir Guðmann.

Fyrirmyndardagurinn er mikilvægur liður í því að auka möguleika fatlaðs fólks á fjölbreyttari atvinnuþátttöku. Á þessum degi fá gestastarfsmenn innsýn í fjölbreytt störf og starfsmenn fyrirtækja kynnast styrkleikum atvinnuleitenda með skerta starfsgetu.

Fyrirtæki fái 75% endurgreiðslu

„Vinnusamningar veita fyrirtækjum tækifæri til að ráða til sín starfsmann með skerta starfsgetu, fólki sem langar til að vera virkt á vinnumarkaði. Við viljum vekja athygli á þessum vinnusamningum því fyrirtæki fá 75% endurgreiðslu af launa- og launatengdum gjöldum fyrstu tvö árin. Eftir það lækkar þessi prósentutala ár frá ári um tíu prósent en fer aldrei neðar en 25%. Þessir samningar veita fyrirtækjum og einstaklingum, sem langar til að vinna, frábært tækifæri, til dæmis ef fyrirtæki vantar starfsmann í eitthvað ákveðið, tímabundið verkefni. Ánægja og samspil vinnuveitanda og launþega getur einnig orðið til þess að fyrirtækið langar að nýta starfskrafta einstaklingsins til framtíðar. Það er aldrei að vita hvaða möguleikar kvikna af þessu samstarfi. Við viljum virkja hæfileika þeirra sem leita til okkar með skerta starfsgetu, hjálpa þeim að finna starf við hæfi,“ segir Guðmann sem vonast eftir góðri þátttöku fyrirtækja hér á Suðurnesjum.

Fyrirmyndardagur Vinnumálastofnunar verður haldinn um allt land mánudaginn þann 14. október næstkomandi. Ef þú hefur áhuga á að taka þátt eða ert með einhverjar spurningar varðandi verkefnið ekki hika við að hafa samband við Guðmann Rúnar hjá Vinnumálastofnun í Reykjanesbæ.