Mannlíf

Erum öll mikilvæg og  sameinuð erum við sterkari
Föstudagur 19. júní 2020 kl. 15:50

Erum öll mikilvæg og sameinuð erum við sterkari

Sveinbjörg Sigríður Ólafsdóttir, hjúkrunarfræðingur á HSS, flutti hátíðarræðu dagsins á 17. júní í Reykjanesbæ

Sveinbjörg Sigríður Ólafsdóttir, hjúkrunarfræðingur á HSS, flutti hátíðarræðu dagsins á 17. júní í Reykjanesbæ.

Kæru bæjarbúar og aðrir gestir!

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Ég óska ykkur öllum gleðilegs þjóðhátíðardags og þakka þann heiður sem mér er sýndur með því að fela mér að flytja hátíðarræðu dagsins.

Minningar sem tengjast 17. júní eru margar og góðar. Ég lítil stúlka að aðstoða móður mína við að baka kökur fyrir kaffisölu Kvenfélags Njarðvíkur, ég þátttakandi í víðavangshlaupi þar sem stefnan var sett á sigur (vann samt aldrei) og spennan sem fylgdi því þegar  líf færðist í alla litlu básana á túninu við Stapa „núna Hljómahöll“ með þrautum af ýmsum toga.

Núna er Litla Njarðvíkurstúlkan  orðin fullorðin fyrir löngu og hefur tekið þátt í hátíðarhöldum með eiginmanni og börnum hér í skrúðgarðinum í Keflavík eða réttara sagt Reykjanesbæ undanfarin ár.

Ég starfa sem hjúkrunarfræðingur á Heilsugæslu HSS og þykir vænt um stofnunina, samstarfsfólkið mitt  og fólkið sem til hennar leitar. Í ár tilnefndi Alþjóða heilbrigðisstofnunin árið 2020 sem ár hjúkrunarfræðinga og ljósmæðra og var tilgangurinn sá að kynna betur störf þessara stétta og voru ýmsir viðburðir fyrirhugaðir í því samhengi. En skjótt skipast veður í lofti.

Óhætt er að segja að fyrri hluti árs 2020 gleymist seint. Í byrjun árs kom hver óveðursdagurinn  á fætur öðrum, jarðskjálftahrina og hætta á eldgosi á Reykjanesskaga. Við Íslendingar erum svo sem ekki óvanir að takast á við slíkar uppákomur en að okkur steðjaði  einnig önnur ógn af óþekktum uppruna, vírus, kórónuvírus sem olli sjúkdómnum COVID-19 sem gæti ógnað lífi okkar og heilsu.

Þegar fyrsti Íslendingurinn greindist með COVID-19 var ég sjálf í veikindaleyfi eftir skíðaslys í Austurrísku ölpunum, já, ég var ein af þessu skíðafólki.  En þakklát var ég fyrir að veikjast ekki af COVID-19 og  geta snúið aftur í vinnu og lagt mitt af mörkum með samstarfsfólki mínu við að skipuleggja og undirbúa nýja þjónustu, COVID-ráðgjöf, sýnatökur og eftirfylgni. Það var mikill samhugur í verki og allir vildu leggja sitt af mörkum.

Veruleikinn var ógnandi, veldisvöxtur sýktra í öðrum löndum, yfirfull sjúkrahús, yfirbugaðir heilbrigðisstarfsmenn, skortur á hlífðarfatnaði, lækningavörum og svona mætti lengi telja, yrði þetta minn veruleiki og samstarfsmanna minna eftir nokkra daga eða vikur?  Óhætt er að segja að álagið var mikið og allri starfsemi sjúkrahússins og heilsugæslunnar umturnað á nokkrum vikum. 

Á heilbrigðisstofnun er ekki hægt að setja í lás og loka því fólk glímir við veikindi af ýmsum toga jafnvel þótt heimsfaraldur geysi. Enn fæðast börnin, ýmiss konar eftirlit þarf að eiga sér stað,  það þarf að gefa ýmis lyf, skipta á sárum, sinna öldruðum í heimahúsi- mörg verkefni eru brýn. Til að geta sinnt allri nauðsynlegri þjónustu þurfti  að gera ýmsar breytingar  á vinnulagi og skipulagi allra deilda á HSS. 

Við  hjúkrunarfræðingar erum sú heilbrigðisstétt sem er alltaf til taks alla daga ársins og sinnum grunn þörfum einstaklinga nú jafnt og áður en við mun flóknari aðstæður.

Í faraldrinum hefur kastljósið beinst mjög að hjúkrunarfræðingum og mikilvægi þeirra komið skýrt í ljós um allan heim.  Hjúkrunarfræðingar eru vel menntuð stétt og það er óhætt að segja að þeir séu hryggjarstykkið í heilbrigðiskerfinu. Þeir leggja grunninn að allri umönnunarþjónustu,  veita hjúkrun frá „vöggu til grafar“ og gegna mikilvægu hlutverki i skipulagningu á heilbrigðisþjónustu.

Í faraldri sem þessum  þarf að huga að mörgu og á HSS vinna margar stéttir sem eru mikilvægar í starfseminni. Það sem einkenndi okkur er að við vinnum sem ein heild og allir lögðu sig fram við að læra nýja dansinn og að reyna að sinna þörfum samfélagsins.

Skýrt verklag og samheldni allra starfsmanna sjúkrahússins og heilsugæslunnar var til fyrirmyndar og að finna stuðninginn frá ykkur íbúum Suðurnesja var ómetanlegur. Gjafir og þakkarorð fóru að berast og samhugurinn hjálpaði okkur í þessari baráttu saman. Já, saman. Að tilheyra samfélagi og finna sameiningarmátt og hjálpsemi þar sem allir vinna að sama markmiði. Að komast sem best út úr þessari ógn og reyna að halda lífi okkar í sem eðlilegasta horfi er ómetanlegt.

Orð eins og sóttkví , einangrun, vendareinangrun, sýkingarvarnir, samkomubann, samgöngubann, fordæmalaust eru orð sem fóru  að verða okkur töm. Allt samfélagið tók breytingum og þurfti að aðlagast, skólarnir, allt tómstundastarf barna, verslanir, lokanir og áhrif lokunar landsins voru gríðarleg hér á þessu svæði.

En við svona aðstæður þá kemur aðlögunarhæfni einstaklingsins, sameiningarmáttur og samheldni samfélagsins skýrt í ljós.  Við erum saman í þessu verkefni og saman erum við sterkari. Lausnamiðuð og hugmyndarík komumst við langt.  Allir þurftu að aðlagast og gera breytingar. Við heilbrigðisstarfsmenn þurftum að vera í verndareinangrun, það eina sem var í boði var að vinna og vera heima. Það að ég gæti stundað mína líkamsrækt í gegnum ZOOM tengingu heima, var mikilvægt fyrir mig, það að  börnin mín gætu farið í skólann og að þau fengu hvatningu frá þjálfurum sínum í Keflavík hélt lífi okkar í góðri rútínu. Þarna kom berlega í ljós hvað allir þessir litlu hversdagslegu hlutir, sem við tökum sem sjálfsagða, skipta okkur í raun og veru miklu máli. Að ekki sé talað um samveru við þá sem eru okkur kærir, að geta ekki hitt þá svo vikum skipti var öllum erfitt í þessum COVID-faraldri. 

Það var notalega tilfinning að sjá skrúðgarðinn okkar lifna við að nýju, í upphafi COVID var allt svo grátt og hljótt en með hækkandi sól og minnkandi COVID fór grasið að grænka og líf að færast í garðinn að nýju, börn að leika, eldri borgarar i göngu. Það er svo góð tilfinning –

Mig langar að óska Ingu Maríu mákonu minni til hamingju en hún var fánahyllir dagsins og nafn hennar afhjúpað á Stuðlaberginu.  Starf hennar sem leikskólastjóri  á Tjarnarseli var farsælt og  hún  er fyrirmynd mín í mörgu.

Kæra fjölskylda, vinir, samborgarar, samfélag, það sem þessir fordæmalausu tímar hafa kennt okkur er að við erum öll mikilvæg og að sameinuð erum við sterkari. Stöndum vörð um heilsugæsluna, sjúkrahúsið og aðrar stofnanir hér í bæ og berjumst saman fyrir bættum aðbúnaði, þjónustu og auknum fjárframlögum okkur til handa.

Að lokum vil ég óska ykkur alls hins besta í  þeim verkefnum sem framundan eru og hugsum vel um hvort annað, ALLTAF.

Kærar þakkir
og eigið góðan þjóðhátíðardag.