Mannlíf

Deilileiga með rafskútur opnar í Reykjanesbæ í apríl
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
mánudaginn 22. mars 2021 kl. 07:20

Deilileiga með rafskútur opnar í Reykjanesbæ í apríl

Deilileiga með rafskútur opnar í Reykjanesbæ í apríl. Opnað verður með 50 rafskútum í byrjun apríl og verður hægt að leigja þær í gegnum app í snjallsíma.

Þjónustan verður opnuð sem sérleyfi (e. franchise) og mun fyrirtækið heita Hopp Reykjanesbæ ehf. Samningur milli þess og Reykjanesbæjar var undirritaður nýlega.

Hopp er íslenskt fyrirtæki sem býður upp á þjónustu þar sem sem hægt er að leigja rafskútur innan ákveðins þjónustusvæðis. Notendur aflæsa rafskútunum með appi og geta síðan keyrt um á þeim gegn vægu gjaldi. Þegar ferðinni er lokið er hægt að rafskútinni hvar sem er innan þjónustusvæðisins.

Líkt og í Reykjavík mun Hopp í Reykjanesbæ sjá til þess að þjónustan gagnist heimamönnum fyrst og fremst. Markmiðið er að bjóða einstaklingum upp á umhverfisvænan og handhægan ferðamáta til þess að komast leiðar sinnar á svæðinu, segir í tilkynningu frá fyrirtækinu.

Guðlaugur H. Sigurjónsson, sviðsstjóri hjá Reykjanesbæ (t.h.), Joseph Feyen, eigandi Hopp í Reykjanesbæ, og Þorgrímur Emilsson frá Hopp Reykjavík.