Mannlíf

Bjartmar og Bergrisarnir  í Gígnum í Grindavík
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
fimmtudaginn 9. mars 2023 kl. 11:20

Bjartmar og Bergrisarnir í Gígnum í Grindavík

„Það væri glapræði að taka ekki vinsælustu lögin,“ segir Júlíus Freyr Guðmundsson, bassaleikari Bergrisanna.

Bjartmar Guðlaugsson, tónlistarmaður og hljómsveit hans, Bergrisarnir, munu halda tónleika laugardagskvöldið 11. mars í tónleikasal veitingastaðarins Fish house, Gígnum. 

Bjartmar þarf væntanlega ekki að kynna fyrir neinum en hann hefur verið afkastamikill laga- og textahöfundur síðan 1977. Einn Suðurnesjamaður er í Bergrisunum, Júlíus Freyr Guðmundsson. „Pabbi heitinn og Bjartmar voru miklir vinir og ég hef þekkt Bjartmar síðan ég man eftir mér. Árið 2010 fæddist þessi hugmynd með að stofna hljómsveit og Berg-risarnir urðu til. Bjartmar þekkti gítarleikarann Birki Rafn Gíslason og hann þekkti trommarann Egil Rafnsson. Daði Birgisson kom síðan inn í dæmið sem hljómborðsleikari en Arnar Gíslason er tekinn við kjuðunum af Agli. Við gáfum út eina plötu og stefnum á að gefa út aðra á þessu ári, við erum búnir að gefa út fjögur lög og fleiri eru á leiðinni. Við höfum verið duglegir að spila að undanförnu og það er eitthvað framundan, vorum á Sviðinu á Selfossi um daginn og hlökkum til að koma á þennan frábæra tónleikastað Kára á Fish house, Gíginn. Mjög skemmtilegur staður með frábæran hljómburð. Við munum væntanlega flytja öll þessi nýju lög en að sjálfsögðu rennum við í gömlu góðu lögin, Sumarliða o.fl, það væri glapræði að sleppa þeim. Þá yrðu líklega uppþot, það viljum við ekki,“ sagði Júlíus að lokum.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024
Júlíus Freyr Guðmundsson