Flugstefna Íslands
Flugstefna Íslands

Mannlíf

Ánægjulegt að sjá bæjarbúa sameinast í árgangagöngu
Hjördís ásamt syni sínum, Hafsteini Loga.
Sólborg Guðbrandsdóttir
Sólborg Guðbrandsdóttir skrifar
laugardaginn 7. september 2019 kl. 11:28

Ánægjulegt að sjá bæjarbúa sameinast í árgangagöngu

Hjördís Hafsteinsdóttir er 25 ára og er búsett í Njarðvík ásamt unnusta sínum Atla og syni þeirra Hafsteini Loga. Hjördís er með BA gráðu í almennum málvísindum og stundar talmeinafræði við Háskóla Íslands.

Hvernig finnst þér Ljósanótt?
„Mér finnst Ljósanótt ótrúlega skemmtileg hátíð. Það er gaman að sjá hvað bærinn lifnar við á þessum tíma.“

Hvaða viðburði ætlar þú að sækja?
„Það er alltaf fastur liður hjá mér að skoða sýningar, kíkja í búðir og jafnvel fá mér einn drykk með góðum vinkonum. Laugardagurinn byrjar svo á árgangagöngunni og um kvöldið fer ég alltaf í kjötsúpuna og hlusta á bryggjutónleikana. Þess á milli sæki ég alls kyns skemmtilega viðburði með fjölskyldu og vinum.“

Hvað finnst þér ómissandi á Ljósanótt?
„Mér finnst árgangagangan ómissandi hluti af Ljósanótt. Það er svo skemmtilegt að fylgjast með bæjarbúum á öllum aldri sameinast í göngunni. Þegar ég var yngri var ég alltaf mjög spennt fyrir setningu Ljósanætur, síðustu ár hef ég þó misst af setningunni og þá hefur gangan tekið við.“

Hver er eftirminnilegasta Ljósanóttin þín?
„Þrátt fyrir margar eftirminnilegar Ljósanæturhelgar þá verð ég að segja að sú eftirminnilegasta og besta hafi verið í fyrra. Það var alveg sérstaklega gott veður á sunnudeginum og við fjölskyldan skoðuðum æðislega Silver Cross sýningu í Duus. Þetta var einnig fyrsta Ljósanóttin hjá syni mínum þar sem við vorum erlendis á Ljósanótt árinu áður svo það gerir helgina ennþá eftirminnilegri.“

Ljósmyndastofa Oddgeirs
Ljósmyndastofa Oddgeirs