Mannlíf

Áhrifamikið „Frú forseti“
Jóhann Smári Sævarsson, bassi úr Keflavík, þenur raddböndin í Grafarvogskirkju. Alexandra í hlutverki Vigdísar Finnbogadóttur með honum á sviðinu.
Föstudagur 29. október 2021 kl. 06:45

Áhrifamikið „Frú forseti“

Síðastliðið laugardagskvöld átti undirritaður þess kost að njóta nýrrar óperu eftir Alexöndru Chernyshovu, tónskáld, óperusöngkonu og handhafa Súlunnar, menningarverðlauna Reykjanesbæjar, sem frumflutt var í hljómsveitarútgáfu í Grafarvogskirkju. 

Ljóðin, sem fjalla um ævi og sögu frú Vígdísar Finnbogadóttur, frá barnæsku til forsetakjörs, eru eftir Sigurð Ingólfsson, Hannes Hafstein, Ástu Björk Sveinbjörnsdóttur, Þórhall Barðason og Elísabetu Þorgeirsdóttur

Vogar aðalskipulag
Vogar aðalskipulag

Auk Alexöndru, sem fer með hlutverk Vigdísar Finnbogadóttur, voru ellefu aðrir einsöngvarar, Karlakór Grafarvogs, Kvennakór Suðurnesja og rúmlega tuttugu manna hljómsveit, skipuð blöndu af þaulvönu atvinnumönnum í bland við reynsluminna fólk, sem tóku þátt í flutningnum undir stjórn Garðars Corters eldri. Konsertmeistari var Guðný Guðmundsdóttir og er skemmst frá að segja að flutningurinn var áhrifamikill og reyndi mikið á flytjendur og tónleikagesti sem allir voru auðvitað að heyra verkið í fyrsta sinn. 

Eins og í öllum góðum óperum skiptust þær á systurnar gleði og sorg og margar fallegar aríur og kórkaflar hljómuðu innan um tregafyllri melódíur. Heilt yfir fannst mér verkið áhrifaríkt og skila sögunni vel þó inn á milli hafi komið brothættir kaflar. Ástæður þess kunna að vera ýmsar, s.s. að æfa hefði þurft aðeins meira eða hljómburður í kirkjunni hafi verið allt öðruvísi þegar hún var orðin þétt setin af tónleikagestum, og flytjendur því ekki heyrt nægilega vel hver í öðrum. Hvað sem því líður var verkið áhrifamikið og fékk höfundur, stjórnandi og flytjendur standandi lófatak í lok flutningsins.   

Alexandra Chernyshova er afkastamikill og fjölhæfur listamaður, sem hlotið hefur ýmsar viðurkenningar bæði hér heima og erlendis. Það væri gaman að heyra meira af hennar verkum og vonandi verður óperan Góðan daginn, frú forseti flutt aftur og þá í leikhúsi með sviðsmynd og öllu tilheyrandi. 

Kjartan Már Kjartansson.

Fjölmargir Suðurnesjamenn tóku þátt í Frú forseta, m.a. Kvennakór Suðurnesja sem er hér hægra megin. VF-myndir: pket

Garðar Cortes stýrði óperunni af rökksemi þótt hann sé kominn á níræðisaldur.

Alexandra syngur um frú Vigdísi Finnbogadóttur, klædd íslenskri lopapeysu.