Framsóknarflokkurinn
Framsóknarflokkurinn

Íþróttir

Víkingar tóku öll stigin í Keflavík
Joey Gibbs með skot í þverslá Víkinga snemma í síðari hálfleik. VF-myndir: JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
þriðjudaginn 20. júlí 2021 kl. 10:21

Víkingar tóku öll stigin í Keflavík

Í gær fór fram leikur Keflavíkur og Víkings í Pepsi Max-deild karla í knattspyrnu. Heimamenn komust yfir í fyrri hálfleik en gestirnir komu til baka í þeim síðari og höfðu betur 1:2.

Leikur Keflvíkinga var vel undirbúinn fyrir leikinn gegn Víkingum sem eru í toppbaráttu deildarinnar. Þeir lágu til baka og voru vel skipulagðir í vörninni, síðan beittu Keflvíkingar skyndisóknum þegar færi gafst.

Það var einmitt ein slíkra skyndisókna sem kom Keflavík yfir, þá brunaði Adam Árni Róbertsson upp vinstri kantinn og gaf frábæra sendingu fyrir markið þar sem Sindri Þór Guðmundsson gerði vel og skallaði yfir markvörð Vikings (23'). Staðan 1:0 fyrir heimamenn.

Viðreisn
Viðreisn
Sindri Þór búinn að koma Keflavík yfir.

Víkingar héldu áfram að stjórna leiknum og vera meira með boltann án þess þó að ná að brjóta aftur vörn Keflvíkinga. Heimamenn leiddu því leikinn í hálfleik.

Síðari hálfleikur hófst á svipuðum nótum, Víkingar voru með boltann en Keflvíkingar vörðust vel og sóttu hratt. Keflavík var grátlega nálægt því að tvöfalda forystuna snemma í seinni hálfleik þegar þeir áttu stórhættulega sókn sem endaði á sláarskoti Joey Gibbs frá markteig eftir mikinn atgang fyrir framan mark gestanna.

Nú gerðu gestirnir tvöfalda skiptingu sínu og tók það Víkinga aðeins um mínútu að jafna leikinn (58'). Víkingar gerðu aftur tvöfalda skiptingu á 73. mínútu og aftur skilaði það marki þótt Keflavík hafi einnig sett óþreytta menn inn á.

Jöfnunarmark Víkings.

Sigurmark gestanna kom á 78. mínútu og verður að segjast að skiptingar þeirra hafi heppnast fullkomlega. Ferskir varamenn komu að báðum mörkum Víkings og voru að valda Keflvíkingum vandræðum það sem eftir lifði leiks.

Leikur Keflavíkur var góður í gær og þeir höfðu góð tök á Víkingum framan af. Léku skynsamlega varnarlega og vel útfærð skyndisókn kom þeim yfir. Þeir voru óheppnir að komast ekki í tveggja marka forystu í upphafi síðari hálfleiks. Það breytti hins vegar miklu að fá á sig óþreytta og spræka andstæðinga í seinni hálfleik sem náðu að opna vörnina hjá þreyttum heimamönnum. Víkingar skoruðu tvö góð mörk og Sindri Kristinn þurfti nokkrum sinnum að taka á honum stóra sínum til að koma í veg fyrir að þau yrðu fleiri.

Sindri Kristinn ver vel seint í leiknum í gær.

Keflavík situr áfram í níunda sæti deildarinnar með þrettán stig, þremur stigum frá HK sem er í fallsæti. Keflavík á leik inni gegn FH og verður hann leikinn þann 29. júlí. FH er í sjöunda sæti með fimmtán stig svo það er ljóst að það verður mikið í húfi fyrir bæði lið þegar sú viðureign á sér stað.

Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, var á leik Keflavíkur og Víkings og má sjá myndir úr leiknum neðar á síðunni.

Keflavík - Víkingur (1:2) | Pepsi Max-deild karla 19. júlí 2021