Íþróttir

Víðismenn bitu frá sér
Edon Osmani braut ísinn fyrir Víðismenn. Mynd úr safni Víkurfrétta.
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
miðvikudaginn 7. október 2020 kl. 08:13

Víðismenn bitu frá sér

Víðir sigraði Kára 3:1 í gær í leik sem hafði verið frestað í sautjándu umferð. Víðismenn mættu ákveðnir til leiks og uppskáru sanngjarnan sigur.

Það var Edon Osmani sem opnaði markareikning Víðis með marki á 21. mínútu.

Björn Bogi Guðnason tvöfaldaði svo forystu Víðismanna nokkrum mínútum síðar (27') og staðan í hálfleik 2:0.

Skagamennirnir gáfust ekki upp og minnkuðu muninn á 60. mínútu en Björn Bogi skoraði aftur á 77. mínútu og gulltryggði Víðismönnum mikilvægan sigur.

Víðismenn eru að berjast fyrir tilveru sinni í 2. deild eftir tap fyrir Völsungi á heimavelli sínum á laugardag. Það var sannkallaður sex stiga leikur því fyrir leikinn voru Víðismenn í fallsæti, einu stigi á eftir Völsungi, og með sigri hefðu þeir haft sætaskipti við Húsvíkingana.

Nú munar aðeins einu stigi á Víði og Völsungi þegar tvær umferðir eru eftir. Víðir á erfiða leiki eftir gegn liðunum sem eru að berjast um sæti í Lengjudeildinni, Selfossi og Þrótti, á sama tíma og Völsungur á eftir að leika gegn botnliði Dalvíkur/Reynis og Kára.