Bílakjarninn hekla
Bílakjarninn hekla

Íþróttir

Víðismenn bitu frá sér
Edon Osmani braut ísinn fyrir Víðismenn. Mynd úr safni Víkurfrétta.
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
miðvikudaginn 7. október 2020 kl. 08:13

Víðismenn bitu frá sér

Víðir sigraði Kára 3:1 í gær í leik sem hafði verið frestað í sautjándu umferð. Víðismenn mættu ákveðnir til leiks og uppskáru sanngjarnan sigur.

Það var Edon Osmani sem opnaði markareikning Víðis með marki á 21. mínútu.

Björn Bogi Guðnason tvöfaldaði svo forystu Víðismanna nokkrum mínútum síðar (27') og staðan í hálfleik 2:0.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Skagamennirnir gáfust ekki upp og minnkuðu muninn á 60. mínútu en Björn Bogi skoraði aftur á 77. mínútu og gulltryggði Víðismönnum mikilvægan sigur.

Víðismenn eru að berjast fyrir tilveru sinni í 2. deild eftir tap fyrir Völsungi á heimavelli sínum á laugardag. Það var sannkallaður sex stiga leikur því fyrir leikinn voru Víðismenn í fallsæti, einu stigi á eftir Völsungi, og með sigri hefðu þeir haft sætaskipti við Húsvíkingana.

Nú munar aðeins einu stigi á Víði og Völsungi þegar tvær umferðir eru eftir. Víðir á erfiða leiki eftir gegn liðunum sem eru að berjast um sæti í Lengjudeildinni, Selfossi og Þrótti, á sama tíma og Völsungur á eftir að leika gegn botnliði Dalvíkur/Reynis og Kára.