Þrumað á þrettán: Guðjón tók forystuna
Hver mun setjast í flugsætið laugardaginn 17. maí?
Fjögurra manna úrslitin í tippleik Vikurfrétta hófust um síðustu helgi og þurftu tippararnir Joey Drummer, Brynjar Hólm, Björn Vilhelms og Guðjón Guðmunds, að glíma við erfiðan seðil sem teygði anga sína á hina ýmsu knattspyrnuvelli víðsvegar um Evrópu. Guðjóni tókst best að glíma við seðilinn, skilaði átta réttum, Joey og Björn náðu sjö réttum og Brynjar tók sex. Guðjón er reyndur keppnismaður og er örugglega ekki byrjaður að skoða kampavínið, hann veit að það eru þrjár umferðir eftir.
Undanfarin ár hefur tímabilið í Englandi lokið með þessum úrslitaleik elstu knattspyrnukeppni sögunnar en eitthvað olli því að breyting var gerð í ár, úrslitaleikurinn fer fram laugardaginn 17. maí en lokaumferð ensku úrvalsdeildarinnar viku síðar, sunnudaginn 25. maí. Þetta hefur samt engin áhrif á tippleik Víkurfrétta, tippararnir munu býtast næstu þrjár helgar, sú síðasta leikinn 10. maí. Til að ná sem hagstæðustu flugfargjaldi er alltaf æskilegt að kaupa flugmiðann með fyrirvara og verður fróðlegt að sjá hvort nafn keppandans sem fer á flugmiðann, verði hið rétta. Ef ekki, þarf að greiða breytingargjald. Ekki verður látið uppi hvaða nafn fer á flugmiðann.
Tippararnir eru allir með á hreinu að þeirra nafn eigi að rata á miðann.
Brynjar Hólm var ekki yfirlýsingaglaður eftir fyrstu umferðina.
„Byrjun mín í leiknum gefur ekki tilefni til að setja mig strax á þennan flugmiða, ég skil það. Ég minni samt á að enginn körfuboltaleikur hefur unnist eftir fyrsta fjórðung, málið er að standa uppi í lok fjórða leikhluta. Ég mun nálgast þetta verkefni á þeim nótum, það er nóg eftir.“
Björn Vilhelmsson hefur fullan hug á að skella sér ókeypis á Wembley.
„Ég er búinn að hafa augastað á þessum úrslitaleik frá því að mér bauðst að taka þátt í tippleik Víkurfrétta og finnst ennþá að ég sjái skrifað í skýin að ég sé að fara í þetta flug laugardagsmorguninn 17. maí.“
Guðjón Guðmunds telur að reynsla sín muni færa honum umrætt flugsæti.
„Ég held ég hafi sýnt það í þessari fyrstu umferð að öruggasta veðmálið er að setja mitt nafn í flugsætið. Ég er í raun ósigrandi, vann þrisvar sinnum sem dugði til að komast í fjögurra manna úrslitin, vinn núna. Þarf að ræða þetta eitthvað frekar?“
Þrátt fyrir ítrekaðar óskir skilaði Jóhann D. Bianco ekki táknum á seðil vikunnar. Hann er því á núlli á seðlinum í þessari umferð úrslitakeppninnar í Þrumað á þrettán.