Þróttur enn í sæti sem gefur rétt til að leika í Lengjudeildinni að ári
Grindavík og Keflavík mætast í kvöld
Nú er Íslandsmótið í knattspyrnu í flestum deildum nákvæmlega hálfnað og því vert að kanna stöðu liðanna frá Suðurnesjum. Þrjú lið leika í Lengjudeild karla (önnur efsta deildin), tvö lið í Lengjudeild kvenna, tvö lið eru í 2. deild og eitt lið í deildum 3-5.
Lengjudeild karla
Njarðvíkingar hafa verið á eldi í allt sumar má segja og stefna hraðbyri á Bestu deildina. Þeir eru í öðru sæti, tveimur stigum á eftir ÍR og tveimur stigum á undan HK. Njarðvíkingar skelltu sér suður fyrir Þorbjörn á fimmtudagskvöld og rúlluðu Grindvíkingum upp, 1-5. Næsti leikur Njarðvíkinga er á útivelli, n.t. á Húsavík, þar sem þeir mæta Völsungi. Leikurinn er á laugardag og hefst kl. 16.
Keflvíkingar hafa valdið vonbrigðum til þessa en yfirlýst markmið þeirra fyrir tímabilið var að sigra Lengjudeildina og komast beint upp. Þeir eru í sjötta sæti í dag með 15 stig, tíu stigum frá toppnum. Mótið er hins vegar bara hálfnað og tími til að snúa tímabilinu við og gæti byrjunin orðið í kvöld en þá mæta þeir grönnum sínum í Grindavík. Þetta er frestaður leikur og næsti leikur eftir það er svo útileikur gegn Þrótti Reykjavík og fer fram á föstudag kl. 19:15.
Grindvíkingar hafa dalað að undanförnu eftir að hafa verið að leika vel og hafa tvö stór töp verið niðurstaðan í síðustu tveimur leikjum. Næsti leikur er í kvöld gegn Keflavík en svo kemur sannkallaður sex stiga leikur, gegn Fjölni og fer leikurinn fram í Grafarvoginum. Grindavík er með 11 stig í áttunda sæti og Fjölnir með 9 stig í tíunda sæti. Annar sex stiga leikur er svo eftir þann leik hjá Grindvíkingum, á móti Selfossi sem mun skarta nýjustu stjörunni sinni í fyrsta sinn, Jóni Daða Böðvarssyni.
Lengjudeild kvenna
Grindavík/Njarðvík hefur komið skemmtilega á óvart í sumar en liðið varð til fyrir þetta tímabil. Liðið er í fjórða sæti Lengjudeildarinnar með 17 stig en ÍBV er á toppnum með 25 stig. Síðasti leikur var einmitt gegn ÍBV og fór fram í Vestmannaeyjum og varð stórt tap niðurstaðan, 5-1. Næsti leikur er ekki fyrr en fimmtudaginn 17. júlí, á heimavelli á móti Fylki.
Keflavík hefur eins og karlaliðið, valdið vonbrigðum í sumar en þar á bæ var takmarkið það sama, að komast upp í Bestu deildina. Það er hins vegar nóg eftir en liðið er í sjötta sæti með 12 stig, 13 stigum á eftir toppliðinu og 7 stigum frá liðinu í öðru sæti en tvö lið komast upp í Bestu deildina.
2. deild karla
Þróttur úr Vogum hafa verið á eldi í sumar og stefna hraðbyri í Lengjudeildina en þar léku þeir sumarið 2022. Þeir eru í öðru sæti, þremur stigum á eftir Ægi og eru þremur stigum á undan Gróttu sem er í þriðja sæti. Þróttarar mættu einmitt Gróttu í síðasta leik og gerðu jafntefli, 0-0. Næsti leikur liðsins er á útivelli á laugardag kl. 16. á móti Dalvík/Reyni og fer fram á Dalvíkurvelli.
Víðismenn úr Garði hafa verið að ströggla og létu þjálfarateymið taka pokann sinn í síðustu viku. Þjálfaraskiptin skiluðu engu í fyrsta leiknum á móti toppliði Ægis, 2-0 tap var niðurstaðan. Næsti leikur er á heimavelli á föstudagskvöld kl. 19:15 á móti Haukum. Víðir er í neðsta sæti með 8 stig en stutt er í öryggið, tvö lið eru með 9 stig og liðið þar fyrir ofan er með 12 stig.
3. deild karla
Reynismenn úr Sandgerði eru fulltrúar Suðurnesja í 3. deild og hafa verið að leika vel. Þeir eru í fjórða sæti með 20 stig, 5 stigum frá toppnum. Þeir gerðu góða ferð á Grenivík í síðasta leik og unnu Magna, 0-1. Næsti leikur er í Sandgerði á föstudagskvöld kl. 19:q25 á móti KV.
4. deild karla
Hafnir hafa ekki náð sér á strik í sumar og eru í næstneðsta sæti með 9 stig en tvö lið eru með tíu stig. Hafnir unnu botnlið Hamars á útivelli í síðasta leik, 1-2. Næsti leikur á útivelli á Álftanesti á miðvikudagskvöld kl. 19:15.
5. deild karla
RB er í B-riðli 5. deildar og hafa verið að leika vel í sumar og eru í 2. sæti í riðlinum með 14 stig, 5 stigum á eftir toppliðinu. Þeir töpuðu síðasta leik á Stokkseyri og leika ekki næst fyrr en 23. júlí, mæta þá Þorláki á útivelli.