Optical studio
Optical studio

Íþróttir

Stutt stopp hjá Jóni Axel í Grindavík
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
mánudaginn 31. október 2022 kl. 22:32

Stutt stopp hjá Jóni Axel í Grindavík

Landsliðsmaðurinn Jón Axel Guðmundsson er á leiðinni til VL Pesaro á Ítalíu sem situr í fimmta sæti ítölsku úrvalsdeildarinnar. Frá þessu er greint á Facebook-síðu körfuknattleiksdeildar Grindavíkur í kvöld.

Um er að ræða frábært tækifæri fyrir Jón Axel sem fær að spreyta sig á nýjan leik í sterkri atvinnumannadeild en þetta er mikill missir fyrir Grindavík sem hefur notið krafta Jóns í síðustu tveimur leikjum í Subway-deild karla þar sem hann hefur skilað átján stigum, sex fráköstum og átta stoðsendingum að meðaltali í leik.

Körfuknattleiksdeild Grindavíkur þakkar Jóni Axel fyrir sitt framlag til félagsins á Facebook og segir: „Það voru forréttindi að fá Jón Axel aftur til Grindavíkur í nokkrar vikur en hann á svo sannarlega heima í sterkri atvinnumannadeild.“

Optical studio
Optical studio

Á Karfan.is er sagt að Jón komi í stað Matteo Tambone sem glímir við meiðsli en þjálfari Pesaro er Jasmin Repesa, það er sami þjálfari og samdi við Jón Axel þegar hann gekk til liðs við Fortitudo Bologna síðast þegar hann fór til Ítalíu. Samningur Jóns við félagið er sagður tímabundinn en þó sé hann framlengjanlegur út leiktíðina 2022–2023.

Þá hefur Grindavík, samkvæmt heimildum vefmiðilsins Karfan.is, rift samningi sínum við bakvörðinn Evangelos Tzolos en hann hefur ekki staðið undir væntingum og skilaði einungis átta stigum, tveimur fráköstum og tveimur stoðsendingum að meðaltali í þeim fjórum leikjum sem hann lék með liðinu í Subway-deildinni.


Grindvíkingar léku án Jóns Axels Guðmundssonar í kvöld í VÍS-bikarkeppni karla í körfuknattleik þegar Grindavík tók á móti 1. deildarliði Ármanns og það voru heimamenn sem voru sterkari og höfðu átta stiga sigur.

Grindavík - Ármann 109:101

(28:30, 29:21, 20:23, 32:27)

Grindavík: David Tinarris Azore 32/8 fráköst/8 stoðsendingar, Bragi Guðmundsson 30/5 fráköst, Kristófer Breki Gylfason 9, Gkay Gaios Skordilis 9/7 fráköst, Arnór Tristan Helgason 8, Nökkvi Már Nökkvason 7, Ólafur Ólafsson 7/4 fráköst/5 stoðsendingar, Valdas Vasylius 6/7 fráköst/5 stoðsendingar, Magnús Engill Valgeirsson 1/4 fráköst, Jón Eyjólfur Stefánsson 0, Einar Snær Björnsson 0.