Max 1
Max 1

Íþróttir

Nágrannaslagnum lauk með sigri Njarðvíkur
Logi Gunnarsson, fyrirliði Njarðvíkinga, leyndi ekki gleðinni þegar vel gekk. VF-myndir: JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
fimmtudaginn 31. mars 2022 kl. 22:58

Nágrannaslagnum lauk með sigri Njarðvíkur

Úr varð hörkuleikur þegar Njarðvík tryggði sér bikarinn frammi fyrir troðfullri Ljónagryfjunni. Stemmningin á pöllunum var æðisleg og ekki annað hægt en að hlakka til úrslitakeppninnar sem hefst í næstu viku.

Njarðvík - Keflavík 98:93

(25:21, 25:22, 22:24, 26:26)

Njarðvíkingar hófu leikinn með látum og komust í 9:1 en það var fljótt að breytast og Keflvíkingar jöfnuðu í 9:9. Skömmu síðar náðu gestirnir að komast tveimur stigum yfir (15:17) en það voru engu að síður heimamenn sem leiddu með fjórum stigum (25:21) eftir kaflaskiptan fyrsta leikhluta.

Áfram hélt slagurinn og hvorugt lið sló af en tempóið var hátt og leikmenn lögðu sig alla fram. Njarðvík var þó ívið sterkari aðilinn og bætti í forystuna eftir því sem leið á annan leikhluta, mestur varð munurinn fjórtán stig sem skildi liðin að (48:34) skömmu fyrir hálfleik en Keflvíkingar voru ekki alveg tilbúnir að kyngja því og náðu muninum niður í sjö stig áður en annar leikhluti var úti (50:43).

Bílakjarninn
Bílakjarninn

Baráttan var ekki síðri í seinni hálfleik en þegar í leik sem þennan er komið er enginn tilbúinn að leggja árar í bát. Keflavík reyndi að ná Njarðvíkingum en það er erfitt að elta allan leikinn, Keflvíkingar gerðu þó vel og voru ansi nálægt því nokkrum sinnum en heimamenn voru ekki á því að missa leikinn niður. Í þau skipti sem Keflvíkingar gerðu sig líklega til að jafna setti Njarðvíkurmaskínan í botn og náði aftur tíu stiga forskoti. Síðustu andartökin voru spennandi en lokatilraunir Keflvíkinga misstu marks og sanngjarn sigur Njarðvíkinga var niðurstaðan – og auðvitað deildarmeistaratitillinn.

Njarðvík: Dedrick Deon Basile 25/7 fráköst/8 stoðsendingar, Fotios Lampropoulos 23/9 fráköst, Mario Matasovic 18/5 fráköst, Nicolas Richotti 15/4 fráköst/6 stoðsendingar, Logi Gunnarsson 9, Ólafur Helgi Jónsson 7, Veigar Páll  Alexandersson 1, Elías Bjarki Pálsson 0, Jan Baginski 0, Maciek Stanislav Baginski 0, Rafn Edgar Sigmarsson 0.

Keflavík: Jaka Brodnik 24/5 fráköst, Dominykas Milka 20/14 fráköst, Darius Tarvydas 17/5 fráköst/5 stoðsendingar, Hörður Axel Vilhjálmsson 15/9 stoðsendingar, Mustapha Jahhad Heron 13/7 fráköst, Valur Orri Valsson 2/5 fráköst, Halldór Garðar Hermannsson 2, Ágúst Orrason 0, Arnór Sveinsson 0, Almar Stefán Guðbrandsson 0, Magnús Pétursson 0, Þröstur Leó Jóhannsson 0.


Grindavík - Þór Þorlákshöfn 93:105

(19:24, 23:37, 21:15, 30:29)

Grindvíkingar tóku á sama tíma á móti Þór Þorlákshöfn sem voru jafnir Njarðvík að stigum og urðu að vinna Grindavík til að eygja von um að hampa deildarmeistaratitlinum. Þórsarar mættu því nokkuð ákveðnir til leiks og eftir að leiða með fimm stigum eftir fyrsta leikhluta (19:24) þá gerðu þeir nánast út um leikinn í öðrum hluta þegar þeir skoruðu 37 stig gegn 23 stigum heimamanna. Grindvíkingar voru því nítján stigum undir í hálfleik (42:61).

Heimamenn klóruðu í bakkann í seinni hálfleik en sigur gestanna var aldrei í neinni hættu og því fór svo að leiknum lauk með tólf stiga sigri Þórs.

Grindavík: Ólafur Ólafsson 29/4 fráköst/5 stoðsendingar/6 stolnir, Kristinn Pálsson 21/9 fráköst, Naor Sharabani 11/8 stoðsendingar, Kristófer Breki Gylfason 9, Björgvin Hafþór Ríkharðsson 9/4 fráköst/3 varin skot, Javier Valeiras Creus 8/7 fráköst, Magnús Engill Valgeirsson 4, Hafliði Ottó Róbertsson 2, Jens Valgeir Óskarsson 0, Hilmir Kristjánsson 0.


Lokastaðan í Subway-deild karla:
  1. Njarðvík
  2. Þór
  3. Valur
  4. Tindastóll
  5. Keflavík
  6. Stjarnan
  7. Grindavík
  8. KR
  9. Breiðablik
  10. ÍR
  11. Vestri
  12. Þór Akureyri
Úrslitakeppnin hefst í næstu viku en þá taka deildarmeistarar Njarðvíkur á móti KR í Ljónagryfjunni, Grindavík fer til Þorlákshafnar og mætir Þórsurum og að lokum fara Keflvíkingar á Krókinn og leika gegn Tindastóli.

Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, fangaði stemmninguna í Ljónagryfjunni eins og sjá má í myndasafni neðar á síðunni.

Njarðvík - Keflavík (98:93) | Subway-deild karla 31. mars 2022

Tengdar fréttir