1. maí 2024
1. maí 2024

Íþróttir

Milan Stefán: Spennandi leikmenn að koma upp
Fimmtudagur 17. janúar 2013 kl. 13:45

Milan Stefán: Spennandi leikmenn að koma upp

Milan Stefán Jankovic tekur við Grindavík í þriðja sinn - Leitar af liðstyrk fyrir átökin í 1. deild

„Mér líst vel á að taka aftur við Grindavíkurliðinu,“ segir Milan Stefán Jankovic nýráðinn þjálfari karlaliðs Grindavíkur í knattspyrnu. Hann tekur við störfum eftir að samningi Grindvíkinga við Guðjón Þórðarson var rift núna um áramótin. Þetta er í þriðja sinn sem Milan Stefán tekur við sem þjálfari Grindavíkur en hann hefur starfað hjá félaginu um árabil. Hann hefur einnig þjálfað Keflavík og gerði liðið að bikarmeisturum árið 2004. Grindavík mun leika í 1. deild næsta sumar eftir að hafa fallið úr Pepsi-deildinni síðastliðið haust.

„Það eru margir leikmenn sem eru farnir úr leikmannahópi Grindavíkur. Við erum hins vegar með mjög spennandi leikmenn úr öðrum flokki sem færast upp í meistaraflokk. Þar eru 2-3 mjög góðir leikmenn sem koma til greina í byrjunarliðið næsta sumar,“ segir Milan Stefán.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

„Við erum að bíða eftir svari frá Tomi Ameobi. Hann fór í aðgerð fyrir skömmu síðan og það er ekki langt í að hann gefi okkur svar hvort hann verði áfram hjá félaginu.“

Mikael Eklund, Ólafur Örn Bjarnason, Ian Williamsson og Ray Anthony Jónsson hafa allir yfirgefið herbúðir Grindavíkur og því er ljóst að Grindvíkingar þurfa að styrkja liðið ætli það sé upp í deild þeirra bestu á ný.

„Ég talaði við Ray fyrir skömmu og hann sagði mér að landsliðsþjálfari hans hjá Filippseyjum hefði viljað að hann léki með liði í efstu deild. Við skiljum þessa stöðu og það er líka fínt fyrir hann að breyta aðeins til. Við erum með leikmenn sem geta leyst hans stöðu og svo er Jósef (Kristinn Jósefsson) einnig að snúa aftur úr meiðslum,“ segir Milan Stefán.

„Miðvarðarstaðan hjá okkur er í smá óvissu þar sem bæði Ólafur Örn og Eklund eru farnir frá okkur. Þetta er staða sem við þurfum að styrkja og erum að leita að leikmönnum. Ég hef verið í sambandi við kollega mína sem ég hitti þegar ég var á FIFA Pro þjálfaranámskeiði og það eru góðar líkur á að ég geti fengið góða erlenda leikmenn fyrir sumarið. Við erum einnig að skoða íslenska leikmenn og það gætu komið einhverjar fréttir frá okkur í þeim efnum á næstu vikum.“