Keppir í golfi á Macau
– Meðal fimmtán bestu kylfinga úr röðum fatlaðra í heiminum í dag
Kylfingurinn Sigurður Guðmundsson úr Suðurnesjabæ keppti á heimsleikum Special Olympics sem fóru fram í Berlín síðasta sumar. Þar vakti Siggi athygli fyrir frammistöðu sína á golfvellinum og í kjölfarið buðu mótshaldarar eins af sterkustu golfmótum fatlaðra í heiminum honum að keppa við þá bestu í Macau.
Sigurður er nú kominn ásamt þjálfara sínum til Macau og þeir nota tímann vel til að skoða sig um á meðan þeir bíða eftir að mótið hefjist. Keppni hefst á fimmtudag og henni lýkur á föstudag en leiknir verða tveir átján holu hringir.
Það var hellirigning og þrjátíu stiga hiti þegar Víkurfréttir slógu á þráðinn til Sigga á Macau – en hvar er Macau nákvæmlega?
„Það er eyja út af Hong Kong,“ svarar Siggi eins og hann er jafnan kallaður. „Þetta var heilmikið ferðalag verð ég að segja. Ferðalagið tók mig svona sólarhring eða meira að komast hingað.“
Fyrir hvaða árangur varst þú valinn í þetta mót?
„Ég var valinn til að keppa í Macau Golf Masters, þar sem bara þeir bestu í heimi úr röðum fatlaðra fá að taka þátt. Ég var einn af fimmtán sem fékk boð um þátttöku á mótinu. Það komu fulltrúar frá Macau til Berlínar í fyrra þegar ég var að keppa á heimsleikum Special Olympics. Þeir sáu eitthvað í mér sem þeir töldu eiga erindi í þetta mót. Þannig að ég sýndi alla mína hæfileika til að geta tekið þátt.“
Keppir gegn kylfingum frá öllum heimshornum
Ertu bara einn á ferð?
„Nei, Víðir [Tómasson], þjálfarinn minn sem fór með mér til Berlínar, er með mér. Ég bauð honum að koma með því hann er tengiliður við mótið hérna.
Við notum tímann til að skoða okkur um hérna á meðan við venjumst tímamismuninum og bíðum eftir að mótið byrji. Við fáum að skoða völlinn á miðvikudaginn, þá verður tekin æfing og eitthvað svoleiðis, svo byrjar mótið á fimmtudaginn.“
Frá hvaða löndum koma þeir sem þú ert að fara að keppa á móti?
„Þeir eru frá Finnlandi, Svíþjóð, Ástralíu, Bandaríkjunum, Hong Kong og fleiri stöðum – eiginlega frá öllum heimshornum.“
Ertu ekki spenntur?
„Ég er rosaspenntur að fá að taka þátt í þessu móti. Ég er búinn að vera duglegur að fara út á völl og taka átján holur í sumar, hef líka tekið aukaæfingar og verið duglegur að hreyfa mig – þannig að ég myndi segja að ég sé í toppformi,“ sagði Siggi að lokum.