Optical Studio
Optical Studio

Íþróttir

Alvöru nágrannaslagur í Keflavík í kvöld
Úr bikarleik Keflavíkur og Njarðvíkur fyrr í sumar.
Ritstjórn
Ritstjórn skrifar
þriðjudaginn 30. júlí 2019 kl. 10:08

Alvöru nágrannaslagur í Keflavík í kvöld

„Er það eðlilegt hlutskipti okkar íbúa í Reykjanesbæ að eiga aðeins tvö miðlungslið í næst efstu deild karla í fótbolta?,“ er spurt á fésbókarsíðu Knattspyrnudeildar Keflavíkur.

Af sex stærstu sveitarfélögum landsins er staðan þannig að Reykvíkingar eiga átta lið efstu og næstefstu deildum, Akureyringar og Hafnfirðingar tvö lið hvort í efstu og næstefstu deildum, Kópavogsbúar eiga tvö lið í efstu deild, Garðbæingar eiga eitt lið í efstu deild. Af minni sveitarfélögum eiga Grindvíkingar, Akurnesingar og Vestmannaeyingar öll sitt lið í efstu deild.

„Öll þessi sveitarfélög eru öll að gera betur með keppnislið sín, en við í Reykjanesbæ! Við þurfum að girða okkur í brók, hífa upp sokkana og fara að gera eitthvað til að koma okkur aftur á þann sess sem við eigum að vera á, helst með tvö lið í efstu deild!,“ segir pistlahöfundur og heldur áfram:

„Vonandi hefur meðalmennskan ekki náð að skjóta rótum sínum hér suður með sjó! Ef það er eitthvað fótboltastolt til hjá íbúum Reykjanesbæjar, væri við hæfi þeir sýni það með því að mæta á heimaleiki liðanna okkar?“

Í kvöld er alvöru nágrannaslagur í Keflavík þegar Keflavík og Njarðvík mætast kl. 19:15 á Nettóvellinum í síðari viðureign liðanna í Inkasso-deildinni í knattspyrnu

„Það væri gaman að sjá völlinn fyllast af stoltu fótboltaáhugafólki sem styður liðin sín áfram í blíðu og stríðu,“ segir að endingu um leið og minnt er á grillaða hamborgara fyrir leik.