Íþróttir

Íþróttafólk Grindavíkur 2022
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
föstudaginn 6. janúar 2023 kl. 06:53

Íþróttafólk Grindavíkur 2022

Íþróttakona Grindavíkur var körfuknattleikskonan Hulda Björk Ólafsdóttir og í fyrsta skipti var íþróttakarl Grindavíkur valinn en undanfarin ár hefur íþróttamaður Grindavíkur verið valinn. Ekki þurfti að koma mikið á óvart að pílukastarinn Matthías Örn Friðriksson varð fyrir valinu þriðja árið í röð. Að vanda var grindvískt íþróttafólk heiðrað í kringum áramótin og fór athöfnin fram í Gjánni.

Aðrir sem voru heiðraðir voru A-lið pílufélags Grindavíkur og körfuknattleiksþjálfarinn Nökkvi Már Jónsson var valinn þjálfari ársins. A-liðið varð Íslandsmeistari félagsliða en það sem Nökkvi Már gerði helst var að uppfæra námsskrá körfuknattleiksdeildar UMFG og er um mjög metnaðarfulla vinnu þar að ræða en auk þess sinnir Nökkvi afreksþjálfun.

Bílakjarninn /Nýsprautun
Bílakjarninn /Nýsprautun

Allar deildir UMFG sem og íþróttafélög með samstarfssamning við Grindavíkurbæ, áttu kost á því að tilnefna íþróttafólk, lið og þjálfara úr sínum röðum. Kjörið fór þannig fram að valnefnd sem samanstendur af tíu einstaklingum, þ.e. aðalstjórn UMFG og frístunda- og menningarnefnd Grindavíkurbæjar, fær kjörseðla í hendur. Hver fulltrúi í valnefnd greiddi þremur konum og þremur körlum atkvæði sitt með þeim hætti að sá sem settur var í efsta sæti fékk 10 stig, sá sem settur var í annað sæti 7 stig og sá í þriðja sæti 5 stig. Tíu greiddu atkvæði og mest var því hægt að fá 100 stig.

Mesta athyglin var eftir sem áður á íþróttakonu og -karli Grindavíkur. Hulda Björk hlaut útnefninguna í fyrsta skipti og hafði þetta að segja: „Ég er mjög stolt. Við sem vorum tilnefndar komum allar til greina en af hverju ég varð fyrir valinu skal ég ekki segja. Ég bætti minn leik frá árinu áður og liðinu gekk nokkuð vel en við vorum nýliðar í fyrra og héldum sæti okkar nokkuð örugglega. Okkur hefur gengið ágætlega á þessu tímabili, eigum möguleika á að komast í úrslitakeppnina. Hvað framtíðina varðar þá hef ég ekki ákveðið hvað ég geri. Ég útskrifaðist úr FS síðasta vor og er búin að vera vinna en hvort ég reyni að komast í skóla í Bandaríkjunum eða hér á Íslandi kemur bara í ljós, ég reyni að taka bara einn dag í einu og bæta mig. Við vorum að fá liðsstyrk en Jenný Geirdal sem var í skóla í Bandaríkjunum, er komin til baka og styrkir okkur. Við munum gera það sem við getum að komast í úrslitakeppnina.“

Pílukastarinn Matthías Örn tók titilinn þriðja árið í röð en stundum hefur verið sú regla að þar með eignist viðkomandi bikarinn: „Hver veit, það var nýr bikar afhentur núna þar sem nafninu var breytt úr íþróttamaður í íþróttakarl, því er spurning hvort ég fái að eiga þann gamla en að öllu gríni slepptu, það var mun skemmtilegra að taka við bikarnum núna fyrir framan fólk en COVID setti strik í reikninginn fyrri tvö skiptin. Það sem stendur upp úr á árinu er að hafa keppt við heimsmeistarann Peter Wright en að sjálfsögðu var líka sterkt að verja Íslandsmeistaratitilinn. Þessi leikur við Peter Wright mun lengi verða mér í minni en púlsinn á mér fór upp í 145 slög m.v. 85 slög þegar ég varð Íslandsmeistari! Ef ég fæ tækifæri aftur þá mun ég held ég standa mig betur því þetta er allt saman reynsla og núna veit ég að hverju ég geng. Frammistaðan var vonbrigði, ég neita því ekki og ég datt í smá niðursveiflu en tók síðan ákvörðun um að hitta þjálfara í Bretlandi og breyta aðeins til í stílnum. Hann sagði mér að það myndi taka mig mánuð að ná tökum á nýjum stíl og það hefur gengið eftir. Klassískt dæmi um að taka eitt skref aftur á bak til að ná tveimur stórum fram á við. Næsta verkefni er Q-School í Þýskalandi 9.–12. janúar þar sem markmiðið er að reyna að vinna sér rétt á atvinnumótaröð þeirra bestu og vonandi næ ég að spila mitt besta pílukast þar.“