Íþróttir

Formaðurinn hvetur Keflvíkinga til að mæta á lokaleikina
Föstudagur 25. september 2020 kl. 11:14

Formaðurinn hvetur Keflvíkinga til að mæta á lokaleikina

„Við erum hvergi komin á leiðarenda og framundan er mikil vinna og margir erfiðir leikir þar sem mikið verður í húfi svo að við náum okkar takmarki,“ segir Sigurður Garðarsson, formaður Knattspyrnudeildar Keflavíkur í pistli á Facebook síðu stuðningsmanna Keflavíkur en þar vekur hann athygli á góðum árangri karla- og kvennaliðsins í sumar þar sem mörg mörk hafa verið skoðuð og bæði lið eru í toppbaráttunni.
Hér er pistill formannsins:
Kæru Keflvíkingar,
Þótt aðstæður í kringum fótboltann í sumar hafi verið fordæmalausar, þá á það ekki við um fótboltann hjá liðunum okkar. Bæði Keflavíkurliðin hafa verið að sýna stórskemmtilegan fótbolta í Lengjudeildinni sem er miklu frekar gott fordæmi um það hvernig fótbolta við viljum sjá í framtíðinni. Mikið af mörkum, sigrar, ung lið skipuð samheldnum leikmönnum, liðsheild, framfarir, agi og dugnaður á vellinum!
85 mörk það sem af er sumri hafa skapað 20 sigra í 30 leikjum hjá báðum Keflavíkurliðunum. Það hefur verið hrein unun að fá að fylgjast með Keflavíkurstráknum skora að meðaltali 3,1 í leik og Keflavíkurstelpunum skora að meðaltali 2,6 mörk í leik. Varla hægt að hugsa sér betri skemmtun, sem alltof margir hafa misst af!
Keflavík er á vegferð um að komast með bæði liðin sín í efstu deild og koma þeim fyrir þar svo við getum aftur farið að keppa við bestu liðin um efstu sætin. 
Nú skora ég á ykkur stuðningsfólk Keflavíkur að sýna trú ykkar á þessari vegferð með því að mæta vel á heimaleikina sem eftir eru og missa ekki af þessum stórskemmtilegu liðum okkar.

Ykkar stuðningur í skiptir máli. Áfram Keflavík
Sigurður Garðarsson,
formaður