Flott frammistaða sundfólks ÍRB á Norðurlandamótinu
Sundfólk úr Reykjanesbæ stóð sig vel á nýafstöðnu Norðurlandameistaramóti en það fór fram í Laugardalslauginni. ÍRB átti þrjá fulltrúa í landsliði SSÍ, það voru þau Daði Rafn Falsson, Denas Kazulis og Eva Margrét Falsdóttir.
Eva Margrét Falsdóttir vann þar til silfurverðlauna í 400m fjórsundi og bronsverðlauna í 200m fjórsundi kvenna
Denas Kazulis synti til úrslita í tveimur greinum, 50m skriðsundi í opnum flokki þar sem hann hafnaði í fimmta sæti og 100m skriðsundi í juniorflokki þar sem hann varð fjórði. Síðan synti hann fyrsta sprett í 4 x 100m skriðsundi í karlasveit Íslands þar sem hann synti á 49,99 og varð þar með um leið yngsti íslenski sundmaðurinn sem farið hefur undir 50 sekúndur.
Daði Rafn Falsson synti til úrslita í tveimur greinum, 200m flugsundi í junior flokki þar sem hann hafnaði í fimmta sæti og 400m fjórsundi í juniorflokki þar sem hann hafnaði í sjötta sæti.

Systkinin Eva Margrét og Daði Rafn stóðu sig vel á Norðurlandamótinu.





