Valhöll
Valhöll

Íþróttir

Einar Árni kominn hringinn í Njarðvík
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
laugardaginn 28. september 2024 kl. 06:08

Einar Árni kominn hringinn í Njarðvík

Kominn með mikla þjálfarareynslu og hlakkar til að taka baráttuna með kvennaliði Njarðvíkur

„Ég er alger forréttindapési, mig dreymdi um að verða kennari og körfuknattleiksþjálfari, það gekk eftir,“ segir Einar Árni Jóhannsson, körfuknattleiksþjálfari og grunnskólakennari. Eftir að hafa prófað nýja hluti í þjálfun á nýjum stað, Egilsstöðum, ákvað fjölskyldan að snúa aftur heim til Njarðvíkur eftir þrjú ár fyrir austan og Einar hefur tekið við kvennaliði Njarðvíkur en auk þess þjálfar hann tvo yngri flokka. Sömuleiðis er hann kominn á gamla vinnustaðinn í Njarðvíkurskóla og er umsjónarkennari sjötta bekkjar.

Einar iðkaði allar íþróttir þegar hann var yngri og kannski þvert á það sem fólk myndi halda, entist hann lengst í knattspyrnunni en var þó byrjaður að þjálfa ungviðið í Njarðvík í körfuknattleik. Hann einbeitti sér að þjálfun einn veturinn í stað þess að stunda útihlaup og lyftingar með knattspyrnuliði Njarðvíkur, ætlaði að taka þráðinn upp um vorið en fann að knattspyrnuneistinn var horfinn og síðan þá hefur körfuknattleiksþjálfun átt hug hans allan.

Bílakjarninn
Bílakjarninn
Einar Árni var bænheyrður en hann dreymdi um að verða kennari og körfuknattleiksþjálfari.

Alinn upp í Ljónagryfjunni

„Ég er alinn upp í Ljónagryfjunni má segja. Mamma var að vinna þar og ég fór venjulega með henni á morgnana en þá var skólinn tvísetinn. Snemma var ég byrjaður að fylgjast með þjálfurum Njarðvíkur og þarna er fyrstu frækornunum líklega sáð. Pabbi var líka að keyra Njarðvíkurliðið í alla útileiki fyrir Steindór Sigurðsson á þessum árum svo ég sótti alla leiki Njarðvíkurliðsins strax sjö ára gamall.

Ég æfði körfu-, hand- og fótbolta jöfnum höndum en valdi síðan fótboltann og ætlaði mér feril á þeim vígstöðvum en um svipað leyti og ég valdi fótboltann, um sextán, sautján ára aldurinn, var ég farinn að þjálfa á fullu í körfunni. Straumhvörf urðu má segja 1997 þegar ég var tvítugur, þá var Friðrik Ingi Rúnarsson að taka við karlaliði Njarðvíkur og bauð mér að vera aðstoðarþjálfari sinn. Ég ákvað að taka frí frá fótboltanum þennan veturinn og ætlaði að fara að sprikla um vorið en fann eftir nokkrar æfingar að neistinn var farinn og ég ákvað að framlengja í pásunni, sem er ennþá í gangi. Ég geri ekki ráð fyrir að fá símtal úr þessu frá knattspyrnuliði, ég held að ég geti gefið atvinnumannadrauminn í knattspyrnu upp á bátinn úr því sem komið er.

Þessi tími með Frikka var mjög lærdómsríkur, enda Friðrik einn okkar allra besti körfuknattleiksþjálfari og ég fagnaði því mjög þegar ég frétti að hann myndi taka við kvennaliði Keflavíkur fyrir komandi tímabil. Það verður gaman að mæta honum í vetur. Ég var með Frikka í þrjú ár, við urðum Íslandsmeistarar á fyrsta tímabilinu 1998 og svo bikarmeistarar 1999 og ég var líka að þjálfa yngri flokka hjá Njarðvík samhliða. Að þessum tíma loknum fékk ég svo fyrsta aðalþjálfarastarfið mitt, með kvennalið Njarðvíkur þegar Sveinn Hilmarsson, þáverandi formaður kvennaráðs, bauð mér að taka við stelpunum í desember 2001.“

Aðstoðarþjálfarinn í baksýn fylgist með Ölla heitnum lyfta Íslandsbikarnum 1998.

Grátlegasta tapið og fyrstu titlarnir

Einar Árni tók við kvennaliði Njarðvíkur þegar liðið var í fallbaráttu og náði að sigla fleyinu í höfn það tímabilið og þvert á allar spár, að koma liðinu í bikarúrslit.

„Við náðum að snúa genginu við og okkur tókst að forðast fallið og náðum líka að komast alla leið í bikarúrslitin í Höllinni. Við mættum KR og flestir gerðu ráð fyrir stórum sigri KR-inga og ef ég man rétt þá var stuðullinn á Lengjunni ansi skrautlegur. Víkurfréttir voru með spá fyrir leikinn og það var einn maður sem spáði okkur sigri, Kobbi Hermanns, hann hafði fulla trú á okkur. Þetta var hörkuleikur og við töpuðum eftir framlengingu, ég held svei mér þá að þetta sé enn þann dag í dag eitt sárasta tap sem ég hef upplifað.

Tímabilið eftir urðum við meistarar meistaranna, fyrsti titill sem Njarðvík vann kvennamegin í meistaraflokki og svo komumst við í úrslitakeppnina í fyrsta skipti í sögu kvennakörfu í Njarðvík. Eftir þetta tímabil vildi ég segja þetta gott í meistaraflokksþjálfun í bili og einbeitti mér bara að ungviðinu, m.a. var ég með ‘89 árganginn sem vann alla titla sem voru í boði á Íslandi á þeim þremur árum sem ég þjálfaði þá og við unnum líka Scania Cup 2003 og 2004. Á þremur tímabilum vorum við búnir að spila 108 leiki og vinna þá alla! 

Um mitt tímabil ‘03/’04 gerðist ég aðstoðarþjálfari hjá Friðriki Ragnarssyni sem var með karlaliðið og árið eftir bauðst mér að taka alfarið við liðinu þegar Friðrik ákvað að hætta. Ég ræddi ekki einu sinni launaliðinn á fyrsta fundi með Hafsteini Hilmarssyni, þáverandi formanni, bara stökk á þetta og henti mér út í djúpu laugina sem hljómar kannski ekki vel hjá Steindóri, gamla sundkennaranum, því ég hef alltaf verið slakur sundmaður. Ég tók sem betur fer við frábæru liði með leikmenn með mikla reynslu, eins og Friðrik Stefánsson, Brenton Birmingham, Halldór Karlsson og Pál Kristinsson. Við unnum bikarinn á fyrsta tímabilinu en þá hafði Njarðvík ekki verið búið að vinna titil í tvö ár, sem jafngilti krísu á þeim tíma. Því miður, eftir á að hyggja, ákváðum við að gera breytingar á leikmannahópnum skömmu fyrir úrslitakeppni, skiptum út báðum Bandaríkjamönnunum. Liðið small engan veginn saman eftir það og ÍR sem endaði í sjöunda sæti, sópaði okkur úr úrslitakeppninni í átta liða úrslitum.

Eftir vonbrigðin í úrslitakeppninni fékk ég traust stjórnar með framhaldið og við náðum vopnum okkar og urðum Íslandsmeistarar árið eftir, unnum Skallagrím í úrslitarimmunni, 3-1. Við héldum okkar mannskap að mestu, ég fékk Jeb Ivey sem Kana og vil minnast á tvo stráka sem ég dró aftur á flot og þeir reyndust algerir þungavigtarmenn, Örvar Þór Kristjánsson og Ragnar Ragnarsson. Þarna voru ungir leikmenn eins og Egill Jónasson, Guðmundur Jónsson, Kristján Sigurðsson og Jóhann Árni Ólafsson að koma upp og Örvar og Ragnar tóku þá undir sinn verndarvæng og studdu þá með ráðum og dáð. Þetta var fullkomin leikmannablanda og við urðum Íslandsmeistarar þetta ár. Árið eftir tók Njarðvík þátt í Evrópukeppni og það var mikil reynsla, við kepptum í þremur austantjaldslöndum þar sem áhugi á körfu er gífurlegur, þúsundir manns á hverjum leik og hávaðinn þannig að leikmenn heyrðu ekki í mér í leikhléunum. Við töpuðum öllum sex leikjunum en allir heimaleikirnir og einn útileikur voru hnífjafnir. Þetta var góð reynsla og við mættum fullir sjálfstrausts í úrslitakeppnina vorið 2007, sem deildarmeistarar og mættum KR-ingum í lokaúrslitum. Eftir að hafa unnið fyrsta heimaleikinn gerðist eitthvað og stemmningin datt KR-megin, kannski ekki síst þar sem stuðningshópur þeirra, Miðjan, fæddist þarna en fram að þessu hafði maður ekki upplifað að leika fyrir framan upp undir tvö þúsund áhorfendur. Þetta var ótrúleg sería, við leiddum í 95% allra leikjanna en töpuðum samt 1-3. Ég átti eitt ár eftir af samningi mínum og undirbúningur var hafinn fyrir næsta tímabil en þá ákvað ég að gefa starfið frá mér vegna persónulegra ástæðna,“ segir Einar Árni.

Logi var eins og hvalreki á fjörur Njarðvíkinga þegar hann sneri heim úr atvinnumennsku.

Naflastrengurinn slitinn

Þarna var Einar Árni búinn að koma ár sinni vel fyrir borð í þjálfuninni og nokkur lið höfðu samband við hann. Einar taldi tímapunktinn góðan að prófa að þjálfa utan Njarðvíkur og úr varð að hann tók við Breiðabliki og kom þeim strax upp úr fyrstu deildinni og náði að koma þeim í úrslitakeppni á seinna árinu, á fjáramálahrunstímabilinu fræga ‘08/’09. Einar man vel eftir góðum sigrum Blika á þessu tímabili, t.d. stórsigri í Keflavík og Blikarnir enduðu í áttunda sæti en fengu sópinn í afturendann frá feiknasterku KR-liði. Eftir tvö ár á Reykjanesbrautinni hentaði Blikastarfið ekki af fjölskylduástæðum og Einar kom heim og tók við sem yfirþjálfari yngri flokka hjá Njarðvík en eftir tvö ár hjá Blikum gat hann ekki neitað uppeldisklúbbnum.

„Það var síðan leitað til okkar Frikka Ragnars að taka við karlaliðinu um mitt tímabil 2010–2011 og við gerðum það og þjálfuðum launalausir um tíma þar sem fjárhagsstaðan var slæm. Þarna er Elvar Már, sonur Frikka, að koma upp og Frikki ákvað að færa sig um set eftir tímabilið 2011–2012, fór úr þjálfarastólnum upp í formannsstólinn og ég tók því einn við liðinu. Mjög skemmtilegur tími fór í hönd, mikil uppbygging í gangi og svo fengum við Loga Gunnars heim úr atvinnumennskunni haustið 2013. Mér þykir vænt um þessi rúmu þrjú tímabil, ég var mjög stoltur af liðinu mínu og þetta var góður skóli en samningurinn minn kláraðist vorið 2014 og því ákvað ég að setja kommu við meistaraflokksþjálfunina og einbeita mér að yfirþjálfarahlutverkinu. Þarna tók Friðriki Ingi við og Teitur Örlygs var honum til aðstoðar, þetta var skemmtilegt tímabil man ég en svo fann ég að meistaraflokksþjálfunin kitlaði svo ég gaf aftur færi á mér. Um tíma leit út fyrir að ég væri norður til Þórsara á Akureyri en á endanum urðu aðrir Þórsarar fyrir valinu, í Þorlákshöfn. Frábær þrjú ár þar sem við komumst m.a. tvisvar sinnum í bikarúrslit en þurftum í bæði skipti að lúta í lægra haldi fyrir KR-ingum með Jón Arnór Stefánsson í broddi fylkingar. Við urðum meistarar meistaranna tvisvar, margir gefa ekki mikið fyrir þann titil en þetta var ákveðinn ísbrjótur fyrir Þórsarana en yfir höfuð var þetta yndislegur tími í Höfninni.“

Erfið heimkoma

Enn og aftur tók Einar Árni við karlaliði Njarðvíkur eftir veruna í Þorlákshöfn. Uppbyggingu var lokið í Njarðvík og sami metnaður kominn, stefnt yrði á titla. Elvar Már kom til baka úr atvinnumennsku á fyrsta tímabilinu og allt lagt undir. Enn og aftur voru það ÍR-ingar sem settu strik í reikning Njarðvíkinga.

„Við vorum 6-1 þegar Elvar kom óvænt heim úr atvinnumennsku. Við vorum 10-1 um jólin og vorum að spila mjög vel. Í lok janúar fórum við að hökta, náðum þó í „final four“ í bikarnum í Höllinni, lögðum KR í undanúrslitum en töpuðum fyrir Stjörnunni í úrslitaleik.Við náðum okkur ekki almennilega á strik eftir það og komum ekki í góðum gír inn í úrslitakeppnina. Við fengum ÍR-inga sem höfðu lent í sjöunda sæti og þrátt fyrir að hafa komist í 2-0, töpuðum við seríunni og það voru gríðarleg vonbrigði. Árið eftir átti heldur betur að gera betur og ég vil meina að við höfum verið á góðu róli þegar hið bölvaða COVID afskrifaði mótið. Tímabilið 2020–2021 var auðvitað markað COVID, það var tekin löng pása, byrjað aftur og svo aftur pása og auðvitað fórum við ekki verr út úr því en aðrir en þurftum þó að gera tvær breytingar þar sem tveir leikmenn báðust lausnar í langa stoppinu sem varði frá október til janúar. Þegar þrír leikir voru eftir vorum við í mikilli fallhættu, mótið var fáranlega jafnt og með því að sigra alla okkar leiki og með hagstæðum úrslitum, hefðum við getað komist upp í sjöunda sæti í deildinni. Við kláruðum okkar en mínir fyrrum félagar í Þorlákshöfn, töpuðu óvænt fyrir nöfnum sínum frá Akureyri á heimavelli og þar með fór draumur okkar um úrslitakeppni. Ef Þorlákshafnardrengir hefðu unnið þá hefðum við mætt þeim í úrslitakeppninni. Við unnum þá stórt í lokaumferðinni og ég trúi því að við hefðum farið í gegnum þá í seríu, við pössuðum vel við þá en ef maður væri alltaf með þær frænkur Ef og Hefði með sér í liði, myndi maður alltaf vinna. Mínir fyrrum lærisveinar stóðu svo uppi sem sigurvegarar þetta tímabil og það gladdi mitt hjarta mikið þegar þeir lyftu Íslandsmeistaratitlinum,“ segir Einar Árni.

Einar og Gulla ásamt yngstu börnunum, Matthíasi Loga og Lísu Kamillu.

Kvæði vent í kross

Það var á þessum tímapunkti, vorið 2021, sem fjölskyldan ákvað að prófa nýja hluti og var ákveðið að flytjast hinum megin á landið, alla leið á Egilsstaði. Þjálfari Hattar, Viðar Örn Hafsteinsson, vildi fá Einar Árna með sér og þeir yrðu báðir aðalþjálfarar. Fjölskyldan lét slag standa.

„Við Gulla konan mín ákváðum að það væri nú eða aldrei ef við myndum vilja prófa að búa út á landi þar sem yngstu börnin okkar voru að byrja í skóla og leikskóla. Ég og Viðar erum góðir vinir, við fjölskyldan höfðum nokkrum sinnum farið austur í heimsókn til hans og fjölskyldu hans og kunnum mjög vel við okkur og því var þetta auðveldari ákvörðun. Við fengum bæði vinnu við kennslu við Fellaskóla í Fellabæ og ég settist við hlið Viðars með karlalið Hattar og var líka yfirþjálfari yngri flokka og þjálfaði þrjá yngri flokka. Samstarf okkar Viðars gekk mjög vel en mér fannst fyrsta tímabilið þó erfitt, að aðlagast nýju hlutverki. Við fundum svo góðan takt og náðum góðum árangri, komum Hetti t.d. í fyrsta skipti í úrslitakeppnina í vor og yfir höfuð var þetta frábær tími á Héraði. Það voru blendnar tilfinningar að yfirgefa Egilsstaði en hér í Njarðvík eigum við stóra fjölskyldu og langt fyrir ömmurnar t.d. að heimsækja barnabörnin austur. Það togaði líka að vera nær æskuvinum, ég fann það t.d þegar Örvar Þór vinur minn veiktist fyrir rúmu ári síðan. Þegar leið að vori kom í ljós að breytingar yrðu hjá Njarðvík. Rúnar Ingi Erlingsson, sem var búinn að gera frábæra hluti með kvennalið Njarðvíkur, var að fara taka við karlaliðinu og ég fékk símtal frá formanni körfuknattleiksdeildar Njarðvíkur, að fara í raun aftur í upprunann. Ég tek aftur við kvennaliði Njarðvíkur en þannig hófst meistaraflokksþjálfunin sælla minninga. Ég og fjölskyldan erum ánægð að vera komin aftur heim og við Gulla duttum strax inn í kennslu, ég er umsjónarkennari sjötta bekkjar í vetur. Ég hef venjulega verið bæði íþróttakennari og kennt íslensku á unglingastigi svo þetta er ný reynsla fyrir mig en ég er bara spenntur fyrir henni. Ég áttaði mig ungur að árum að ég vildi gerast kennari og lít á mig sem nettan forréttindapésa. Mig dreymdi um að gerast kennari og þjálfa körfuknattleik og ég er að gera báða hluti í dag. Fyrst ætlaði ég mér að fara í Íþróttakennaraskólann á Laugarvatni en á þeim tímapunkti átti þjálfunin hug minn allan og ég tímdi ekki að fara á Laugarvatn á þeim tíma og fór í staðinn í Kennaraháskólann og var þar á árunum 1998 til 2001, með íþróttir sem valgrein.

Golfhópur Einars, Sjöstjarnan. Einar stefnir á frekari lækkun á forgjöfinni.

Áhugamál mín snúast flest um íþróttir, ég er gallharður stuðningsmaður Manchester United. mikill skákáhugamaður og svo er ég kominn á kaf í golfíþróttina. Er í golfhópi með æskuvinum úr Njarðvík sem kallar sig Sjöstjörnuna. Þrátt fyrir að búa fyrir austan var ég með 100% mætingu í mótin okkar á þessum árum. Ég er með 20,8 í forgjöf í dag, stefni að sjálfsögðu á að lækka mig meira enda mikill keppnismaður!

Annars er ég bjartsýnn fyrir komandi vetri, ég er ánægður að vera kominn aftur til starfa hjá uppeldisfélaginu. Það er gott að vera kominn aftur heim til Njarðvíkur,“ sagði Einar Árni að lokum.

Að sjálfsögðu var farið yfir komandi tímabil hjá Njarðvíkurkonum en sá hluti viðtalsins bíður betri tíma, þegar nær dregur átökunum í körfunni í vetur.