Atnorth
Atnorth

Íþróttir

Davíð Snær stefnir upp í efstu deild í Noregi
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
þriðjudaginn 15. júlí 2025 kl. 17:01

Davíð Snær stefnir upp í efstu deild í Noregi

Keflvíkingurinn Davíð Snær Jóhannsson unir sér vel í atvinnumennsku í knattspyrnu í Noregi þar sem hann fæddist. Faðir hans, Jóhann Birnir Guðmundsson bjó fyrstu árin í Garði en lék lengst af með Keflavík hér á landi og átti flottan atvinnumannaferil í Englandi, Noregi og Svíþjóð. Ekki nóg með að pabbinn hafi verið knattspyrnumaður, móðurafi Davíðs, Magnús Garðarsson lék með liði Keflvíkinga sem kom í kjölfarið á gullaldarliði félagsins sem varð síðast Íslandsmeistari árið 1973.
Því má kannski segja að Davíð hafi snemma vitað hvar áhugamálin myndu liggja og vitað betur hvað biði hans ef eða þegar út í atvinnumennskuna kæmi, en fyrir aðra sem reyna fyrir sér í þessari draumaatvinnugrein knattspyrnumannsins.
Davíð með föður sínum, Jóhanni Birni Guðmundssyni.

Davíð var nánast byrjaður að sparka í fótbolta áður en hann var farinn að labba.

Bílakjarninn
Bílakjarninn

„Ég fæddist í Osló í Noregi árið 2002 en þá var pabbi að spila með Lyn. Það kom sér vel síðar meir þegar atvinnumannsferill minn byrjaði í Noregi, ég er með norskt ríkisfang þar sem ég fæddist í landinu og bjó fyrstu mánuðina. Atvinnu- og dvalarleyfi flaug því í gegn hjá mér. Atvinnumannsferli pabba erlendis lauk árið 2008 svo fyrstu sex árin bý ég erlendis, síðustu árin í Gautaborg í Svíþjóð og þar byrjar mitt boltaspark, þá var pabbi að spila með GAIS. Mínar fyrstu æskuminningar eru frá Svíþjóð og ég man ekki öðruvísi eftir mér en úti í garði að leika mér í fótbolta og beið eftir pabba þegar hann kom heim af æfingu, þá varð hann að leika með mér í fótbolta. Snemma beygist krókurinn segir einhvers staðar, ætli það hafi ekki átt við hjá mér. Við fluttum svo til Keflavíkur þaðan sem mamma er, Garður kom víst ekki til álita, með fullri virðingu fyrir þeim yndislega stað sem mér þykir mjög vænt um.“

Davíð í leik með Keflvíkingum.
Stefnan snemma sett

Davíð var sex ára þegar fjölskyldan flutti heim og hann byrjaði strax að æfa með Keflavík. Snemma sást að þarna fór mikið efni og um tólf ára aldur tók hann ákvörðun, hann hætti að hugsa um fótbolta sem skemmtilegt áhugamál og lagði allt í sölurnar til að verða sem bestur, er þarna búinn að setja stefnuna á atvinnumennsku.

„Ég fór að æfa aukalega og skipti ekki máli á hvaða tíma sólarhringsins eða árs, þótt það væri snjór úti í garði var mokað og æfingar teknar, líf mitt snerist um fótbolta og þarna vissi ég hvert ég stefndi. Ég var í öflugum árgangi, við vorum alltaf að berjast um titla á móti bestu liðum landsins, ég spilaði upp fyrir mig en þegar ég kom upp í 2. flokk lauk í raun mínum yngri flokka ferli því ég var byrjaður að spila með meistaraflokki sextán ára gamall. Þetta er árið 2018 og á þessu jómfrúartímabili mínu náði Keflavík þeim vafasama árangri að enda deildarkeppnina með einungis fjögur stig, met sem verður líklega seint slegið. Þetta var mikil reynsla og ég fékk mikið að spila þrátt fyrir ungan aldur. Ég fylgdi liðinu niður og við tókum næstu tvö ár í næstefstu deild. Við komumst upp á seinna árinu og eftir fjórða árið mitt með Keflavík, þá í efstu deild árið 2021, var ég seldur í janúar 2022 til Lecce á Ítalíu,“ segir Davíð.

Harður heimur atvinnumannsins

Þrátt fyrir að hafa dreymt um atvinnumennsku, var þetta fyrsta skref Davíðs langt í frá „göngutúr í garðinum“. Hann lenti í mótlæti og það reyndi á ungan pjakkinn og má segja að hann hafi komið með skottið á milli lappanna aftur til Íslands. Hann sér hins vegar ekki eftir neinu og er sannfærður um að hann hafi haft mjög gott af þessari reynslu á Ítalíu.

„Ég skrifaði undir eins og hálfsárs samning, kom á miðju tímabili og var hugsaður til framtíðar hjá liðinu. Ég vissi að ég myndi ekki spila með aðalliðinu á þessu tímabili, heldur með varaliðinu. Eftir þetta hálfa tímabil átti að taka stöðuna, ákveða hvort ég yrði lánaður til annars félags eða hvort ég væri nægilega góður til að leika með aðalliðinu. Ef ég er alveg hreinskilinn þá verður að segjast eins og er að þetta gekk engan veginn upp. Ég fékk Covid, lenti í meiðslum og bílslysi, innan vallar náði ég aldrei almennilega takti á þessum stutta tíma sem ég hafði til að sanna mig. Þótt þetta hafi ekki gengið upp þá var þetta ofboðslega góð reynsla og ég er sannfærður um að hún styrkti mig síðar meir, er ekki sagt að það sem ekki drepur mann, styrki mann? Þarna var gott að geta leitað til pabba sem hafði mikla reynslu úr atvinnumennskunni og við tókum ákvörðun um að best yrði fyrir mig að snúa aftur heim. FH sýndi mér mestan áhuga og ég ákvað að ganga til liðs við þá.

FH sýndi Davíð mestan áhuga þegar hann sneri til baka frá Ítalíu.

Það var æðislegt að koma heim og kom aldrei neitt annað til greina en flytja heim á „hótel mömmu,“ ég keyrði á æfingar í Hafnarfjörðinn. Tímabilið á Íslandi var komið af stað og ég var nokkuð lengi að finna taktinn. FH hafði verið spáð góðu gengi, Ólafur Jóhannesson byrjaði sem þjálfari, hann var svo látinn fara og Eiður Smári tók við, það endaði eins og það endaði og Sigurvin Ólafsson kláraði tímabilið. FH gekk illa og ég fann mig ekki ekki en straumhvörf urðu hjá mér í Mjólkurbikarnum þegar ég kom inn á undanúrslitaleiknum á móti KA. Ég fiskaði fljótlega víti sem við reyndar klúðruðum, jöfnuðum svo leikinn og á 93. mínútu skoraði ég sigurmarkið með skoti fyrir utan teig í samskeytin. Við þetta losnaði eitthvað úr læðingi hjá mér, ég fór að spila betur, tók spilamennskuna með mér í næsta tímabil þar sem mér gekk mjög vel og eftir það kom áhugi frá Álasund í Noregi og næsti kafli á atvinnumannaferlinum hófst.“

Davíð í leik með Álasund í Noregi.
Hámörkun hæfileika

Álasund var nýfallið úr efstu deild í Noregi þegar Davíð Snær gekk til liðs við félagið og ekki hefur enn tekist að komast upp en vel hefur gengið á þessu tímabili og Davíð hefur verið að leika vel.

„Mér er búið að ganga vel nánast frá fyrsta degi. Við höfum ekki komist upp en förum mjög vel af stað á þessu tímabili og erum komnir í 8-liða úrslit bikarsins, vorum að slá Bödo-Glimt út en það er eitt sterkasta lið Noregs um þessar mundir og höfðu ekki tapað leik í Noregi í fimmtán mánuði. Þeir féllu út í undanúrslitum Evrópudeildarinnar á móti Tottenham á síðasta tímabili.

Davíð fagnar með stuðningsmönnum Álasunds.

Ég gerði fimm ára samning og líður vel hjá félaginu, mitt markmið er einfaldlega að hámarka hæfileika mína og sjá hvert það leiðir mig. Ég er bara 23 ára gamall og er því langt frá því að vera kominn á þann aldur sem talað er um að vera á toppnum getulega séð, sá aldur er líka að hækka vegna íþróttavísinda svo ég á nóg eftir. Ég hef alltaf haft að markmiði að hugsa ekki of langt fram í tímann, núna er markmiðið að komast upp í efstu deild með Álasund og sjá hvernig mér gengur á því sviði. Þegar því takmarki er náð, má setja sér nýtt markmið. Ég vil einfaldlega hámarka mína hæfileika, hvort sem það leiði af sér að ég leiki í efstu deild í Noregi eða úrslitaleik í Meistaradeildinni, kemur bara í ljós.

Ef þú spyrð mig hvar ég vilji helst bæta mig, þá myndi ég segja að geta lesið leikinn hraðar. Ég les leikinn nokkuð hratt í dag en til að komast á stærsta sviðið eins og í ensku úrvalsdeildinni, þyrfti ég að vera enn fljótari í lestrinum. Ég er nokkuð sterkur líkamlega, get skotið jafnt með hægri og vinstri, er ágætis skallamaður en ég vil bæta lestrarhraðann,“ segir Davíð Snær.

Davíð á 49 unglingalandsleiki að baki.
Leikið með öllum yngri landsliðum

Davíð hefur leikið með öllum yngri landsliðum Íslands og er eðlilega með metnað fyrir að komast í A-landsliðið.

„Ég hef farið í gegnum öll yngri landsliðin og er kominn með 49 slíka leiki ef ég man rétt. Ég hef ekki komið til greina í A-landsliðinu til þessa og virði það heils hugar. A-landsliðs hópurinn er orðinn gríðarlega sterkur og flestir að spila í sterkari deildum en norska B-deildin er, með fullri virðingu fyrir henni. Að sjálfsögðu er markmið mitt að komast í A-landsliðið en ég er ekki beint að hugsa um það, fyrst er að standa sig með sínu félagsliði, komast upp í efstu deild í Noregi og ef ég stend mig þar, kem ég vonandi til greina.

Mér líður mjög vel hér í Álasundi, ég kynntist norskri stelpu og við erum hamingjusöm saman. Það er athyglisvert fyrir mig að hugsa þessi rúmu þrjú ár til baka þegar ég bjó í Lecce, þetta er allt annað líf núna enda er ég búinn að þroskast ansi mikið á þessum árum. Ég veit miklu betur út í hvað ég er að fara núna en ég lít alls ekki á þennan tíma á Ítalíu sem mistök, þetta var erfiður skóli sem herti mig og undirbjó mig fyrir næsta skref á atvinnumannaferlinum. Þar sem ég er alinn upp af atvinnumanni, þá þekki ég í raun ekkert annað og var því kannski betur undirbúinn en margur annar. Ég er á góðum stað í dag, ætla mér að bæta mig sem knattspyrnumaður en hvert það leiðir mig verður bara að koma í ljós. Ég hef alltaf reynt að hafa báða fætur á jörðinni, pabbi hefur hjálpað mér í því en það hefur verið gott að geta sótt í hans reynslubrunn, bæði þegar vel hefur gengið hjá mér og eins þegar á móti hefur blásið. Fyrsta markmiðið er að komast upp með Álasund, hver veit hversu langt við komumst í bikarnum, svo tökum við stöðuna,“ sagði Davíð Snær að lokum.

Hvenær ætli Davíð fái að klæðast A-landsliðstreyjunni?