ísbúð garðarbæjar
ísbúð garðarbæjar

Fréttir

Verulegar líkur eru á hraungosi á Reykjanesskaga
Föstudagur 14. september 2018 kl. 10:02

Verulegar líkur eru á hraungosi á Reykjanesskaga

- Jarðvá á Reykjanesi rædd á aðalfundi Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum

Verulegar líkur eru á hraungosi á Reykjanesskaga í framtíðinni og má í raun búast við því hvenær sem er. Því er mikilvægt að meta áhættu á svæðinu og hvernig bregðast skuli við henni.
 
Þetta kom fram í erindi Þorvaldar Þórðarsonar eldfjallafræðings á jarðvísindastofnun Háskóla Íslands sem fjallaði um jarðvá á Reykjanesi á aðalfundi Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum sem fram fór um helgina.
 
Þorvaldur sagði þar frá vinnu við reiknilíkan en unnið er að því með styrk frá Evrópusambandinu að safna í gagnagrunn helstu upplýsingum um jarðvá á Íslandi. Þorvaldur hefur unnið greiningu á Reykjanesi undanfarin tvö ár sem nýtast munu í gagnagrunninn en í framhaldi verður hægt að meta betur áhættu og viðbrögð við henni til framtíðar.
 
Mið-Atlantshafshryggurinn gengur á land á Reykjanesi og þar hafa orðið mörg gos á sögulegum tímum, það síðasta árið 1879.
 
„Gos á Reykjanesi eru yfirleitt sprungugos sem eru fyrst og fremst hraunmyndandi og þar er því hraunflæði mesta áhyggjuefnið en við þau losnar líka mikið af gasi, sérstaklega brennisteini sem getur dreifst víða og haft veruleg áhrif á gæði andrúmslofts. Þekkt sprengigos er t.d. Grænavatn sem er sprengigígur og þá urðu þau í jarðhitakerfinu í Seltúni árið 2011 sem þarf að skoða sérstaklega þar sem um þekktan ferðamannastað er að ræða.“
 
Hvað er það sem þarf að huga að?
 
„Það þarf að hafa í huga eftir því sem byggð þróast á skaganum hvar upptakasvæði eru og hvernig dreifing hrauns gæti orðið. Þá mun gos hafa áhrif á grunnvatnsgeyma og við gætum orðið uppiskroppa með drykkjarvatn á ákveðnum svæðum, það á t.d. líka við um Stór Reykjavíkursvæðið.“
 
Gagnasöfnunin um Reykjanesskagann er umfangsmikið verkefni en að sögn Þorvaldar mun það gefa góða mynd af því hvar næstu upptök eldgoss gætu orðið. Þar hefur sérstaklega verið hoft á vestasta hlutann þar sem líkurnar eru hvað mestar.
 
Sprengigos í sjó gæti valdið meiriháttar truflun á flugsamgöngum
 
„Í þessari vinnu höfum við verið að skoða eldgosamyndanir, misgengi, sprungur og jarðhitasvæði sem og íbúafjölda, fjölda ferðamanna svo og innviði. Þessi gögn eru sett inn í gagnagrunn þar sem þau tala við önnur líkön á sama hátt  en þannig er hægt að nota gögnin í landupplýsingakerfi. Langtímaspá gerir ráð fyrir því að mestar líkur séu á því að gos komi upp á vesturhluta skagans, á Reykjanestá og vestan við Grindavík. Þannig getum við skoðað hvaða byggðarlög eru í meiri hættu en önnur. Sprengigos í sjó geta líka haft veruleg áhrif á má þar nefna öskudreifingu og meiriháttar truflun á öllum flugsamgöngum til og frá landinu.“
 
Grindavík er nálægt upptakasvæðum og því í mestri hættu af byggðarlögunum á Reykjanesi og því skynsamlegt að sögn Þorvaldar að þróa íbúabyggð þar frekar í austur en vestur. Vogar og Reykjanesbær geta orðið fyrir áhrifum þótt þau séu ekki bein. „En það er ekkert sem segir til um að hvert hraunið muni fara, gjóskan falla eða brennisteinn dreifast.“
 
Í þessu sambandi nefnir Þorvaldur að viðbragðstími vegna eldgoss á Reykjanesi verði stuttur. „Grindvíkingar munu í besta falli fá nokkurra klukkustunda fyrirvara, hugsanlega sólarhring séum við heppin. Einfalt hraungos byrjar með látum og getur ferðast nokkra kílómetra á innan við klukkustund og hraðinn er svo gríðarlegur að þú hleypur ekki undan því. En til þess að meta hversu hratt hraunið gæti komið að byggðarlögum þurfum við frekar gögn, til að mynda betri hæðarmælingar á Reykjanesi sem ekki eru til nákvæmar.“
 
Hver eru næstu skref á Reykjanesi?
 
Halda þarf áfram vinnu við gerð áhættumats og koma upplýsingum á framfæri við almenning þegar verkefnið er komið á þann stað. Þá er hægt að skilgreina boðleiðir og aðgerðaáætlun komi upp eldgos á Reykjanesi. Þá geta sveitarfélög nýtt þessa greiningu við skipulag og haft í huga áhrif hraunrennslis á innviði eins og rafmagnslínur, ljósleiðara, farsímakerfi og vatnsbúskap.
 
Það eru ekki líkur á því að við fáum gossprungu innan bæjarmarka en hraunrennsli og aðrir þættir geta haft áhrif. Þetta þurfum við að hafa í huga.“