Fréttir

Umbreytingarstarf á HSS skilar árangri
Föstudagur 16. desember 2022 kl. 15:55

Umbreytingarstarf á HSS skilar árangri

Fyrir hartnær fjórum árum urðu miklar breytingar á HSS í kjölfar þess að nýr forstjóri tók til starfa en ljóst var að taka þurfti til hendinni þar sem stofnunin hafði glímt við fjölþættan vanda um áratugaskeið. Forstjóri HSS einsetti sér strax að vinna með starfsfólki að breytingum. Með samvinnu starfsfólks allra deilda og starfsstétta innan HSS var stefna mótuð fyrir stofnunina til næstu ára sem kynnt var opinberlega haustið 2020. Allar götur síðan hefur stefnan verið leiðarvísir í störfum starfsfólks HSS. Í stuttu máli má segja að rauði þráðurinn í stefnunni hafi verið sá að gera HSS að eftirsóttum vinnustað og ávinna stofnuninni jákvæða ímynd í nærsamfélaginu. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Heilbrigðisstofnun Suðurnesja.

Eitt af þeim viðmiðum sem unnið er með hjá HSS eru þjónustukannanir Maskínu á heilsugæslum á landinu. Í könnun Maskínu 2020, þegar HSS var í stefnumótunarvinnunni, rak stofnunin lestina í umdæmum heilsugæslunnar með einkunnina 3,2. Ljóst var að mikil tækifæri voru til úrbóta og var sú vinna þegar hafin á þessum tíma þótt árangurinn hafi ekki verið farinn að sýna sig. 

83,2% hafa jákvætt viðhorf gagnvart starfsfólki HSS

Í nýjustu þjónustukönnun Maskínu, sem birt var í vikunni, er HSS hins vegar næst efst með einkunnina 3,68 – aðeins 0,01 stigi frá efsta sætinu. Viðsnúningurinn hefur verið mjög mikill og ánægjulegur hjá HSS þótt enn sé töluvert svigrúm til úrbóta. Traust hefur enn fremur aukist mikið, árið 2020 treystu 39,4% HSS almennt vel en í dag 60,2%. Viðhorf til starfsfólks hefur líka orðið jákvæðara á þessum tíma en 66,2% sögðu viðmót og framkomu starfsfólks gott 2020 en í dag mælist það 83,2%. Þessi árangur er ekki síst merkilegur þegar horft er til þess að þjónustukönnunin nú er gerð þegar heimsfaraldri Covid er vart lokið og ekki þarf að fjölyrða um þá áskorun sem hann hefur haft í för með sér fyrir heilbrigðisstofnanir landsins.

Stuðningur heimafólks mikilvægur

Sú vinna sem liggur til grundvallar þessum árangri hefur miðað að því að byggja upp samheldið teymi fagfólks sem getur rýnt, greint og tekist á við erfiðar áskoranir stofnunarinnar. Á sama tíma hefur stofnunin barist fyrir uppbyggingu innviða í þeim tilgangi að gera henni kleift að fjölga starfsfólki ásamt því að gera hana meira aðlaðandi vinnustað þar sem auðveldara er að veita góða þjónustu.

Þessu til viðbótar hefur HSS einnig þurft að glíma við heimatilbúnar áskoranir á borð við vanfjármögnun stofnunarinnar um áratuga skeið, sem kemur m.a. skýrt fram í skýrslu endurskoðunarfyrirtækisins Deloitte frá í maí sl. Sá vandi er því miður enn óleystur. Sömu sögu er að segja um þá húsnæðiseklu og mönnunarvanda sem hrjáð hefur stofnunina og enn sér ekki fyrir endann á. Í þessu samhengi er þó ánægjulegt að upplýsa að HSS hefur tekist að vinna bug á mönnunarvanda er varðar geðteymi stofnunarinnar, sem nú hefur tekist að fullmanna, með tilheyrandi styttingu biðlista og aukinnar þjónustu.

Einn helsti árangurinn á HSS undanfarin misseri hefur verið sá að ná stuðningi heimafólks á Suðurnesjum. Þrátt fyrir mikinn mótbyr, hefur HSS svo sannarlega fundið fyrir auknum stuðningi á síðustu misserum frá samfélaginu sem stofnunin þjónar. Sá dýrmæti stuðningur hefur verið mikil hvatning fyrir starfsfólk HSS til að halda ótrauð áfram í að byggja upp þjónustu stofnunarinnar og í kjölfarið hefur traust samfélagsins til stofnunarinnar aukist.

„Það er skoðun mín sem forstjóra HSS að mikil tækifæri séu til að draga úr sóun í íslensku heilbrigðiskerfi og að helsta leiðin til árangurs sé aukin fjárfesting t.d. í forvörnum og fullnýtingu hagkvæmra úrræða á borð við heimahjúkrun. Þannig sé krónunni ekki hent fyrir aurinn. Niðurstöður þjónustukönnunar Maskínu eru vísbending um þetta sé mögulegt“ segir Markús Ingólfur Eiríksson, forstjóri HSS, í tilkynningunni.