Tvö ár frá rýmingu Grindavíkur
Í dag, 10. nóvember 2025, eru liðið tvö ár frá miklum náttúruhamförum í Grindavík sem leiddu til þess að bærinn var rýmdur.
Stór hluti Grindvíkinga býr enn utan bæjarins nú tveimur árum síðar. Ríkisstjórnin hóf í október síðastliðnum opið samráðsferli um endurreisn og framtíðarsýn bæjarins. Í drögum og greiningum er gert ráð fyrir niðurrifi tuga húsa og að sum svæði verði ekki endurbyggð, á meðan önnur svæði verða hönnuð upp á nýtt, t.d. gönguleiðir/leiksvæði við sprungusvæði).
Frá því Grindavík var rýmd 10. nóvember 2023 hafa orðið níu eldgos á Sundhnúkagígaröðinni. Nokkur þeirra hafa átt upptök nærri Grindavík og þar hefur reynt mjög á varnargarða sem reistir voru við bæinn og umhverfis Svartsengi. Má fullyrða að garðarnir hafi bjargað því að einhver hluti byggðarinnar í Grindavík hafi farið undir hraun en hraun úr nokkrum af þessum níu eldgosum hafa runnið með varnargörðunum. Í einu gosinu, 14. janúar 2024, opnaðist gossprunga rétt ofan við efstu húsin í bænum og hraun rann inn í byggðina og eyddi þremur húsum.
Síðasta gos varð svo 16. júlí í sumar. Enn rís land við Svartsengi og beðið er eftir tíunda gosinu á Sundhnúkagígaröðinni.
Þegar eitt ár var liðið frá rýmingu bæjarins gerðu Víkurfréttir sjónvarpsþátt sem má nálgast í spilaranum hér að neðan.







